Anfield Ferðamenn sitja í The Kop, stúkunni aftan við annað markið á leikvanginum.
Anfield Ferðamenn sitja í The Kop, stúkunni aftan við annað markið á leikvanginum. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Enska knattspyrnufélagið Liverpool tilkynnti í gær um fyrirætlanir félagsins að stækka heimavöll sinn, Anfield, svo hann rúmi meira en 60.000 áhorfendur. Félagið hafði áður hug á að stækka völlinn til að rúma 58.000 áhorfendur, í stað 54.

Enska knattspyrnufélagið Liverpool tilkynnti í gær um fyrirætlanir félagsins að stækka heimavöll sinn, Anfield, svo hann rúmi meira en 60.000 áhorfendur.

Félagið hafði áður hug á að stækka völlinn til að rúma 58.000 áhorfendur, í stað 54.074 eins og nú er. Eftir frekari umhugsun ætla forráðamenn félagsins að stækka völlinn enn frekar, svo að liðlega 61.000 áhorfendur komist fyrir á leikjum Liverpool.

Færri komast að en vilja á heimaleiki Liverpool, enda gengi liðsins afar gott eftir að Jürgen Klopp tók við liðinu og áhuginn sjaldan verið meiri. Liðið er núverandi Evrópumeistari svo dæmi sé tekið.

Ætlar félagið að stækka Anfield Road End, stúkuna fyrir aftan annað markið. Hún er beint á móti hinni frægu Kop-stúku. Anfield Road End tekur sem stendur 10.000 áhorfendur og er minnsta stúkan á leikvanginum. Þar sjá forráðamenn Liverpool því sóknarfæri, en eins og sakir standa eru sex knattspyrnuleikvangar á Englandi sem taka fleiri áhorfendur. Ekki er ýkja langt síðan leikvangurinn var síðast stækkaður, árið 2016, og stóðu framkvæmdir þá yfir í tæp tvö ár.

Anfield var tekinn í notkun árið 1884 og þjónaði Everton fyrstu átta árin. Frá árinu 1892 hefur Liverpool FC hins vegar átt þar heima. Leikvangurinn er í eigu bandaríska fyrirtækisins Fenway Sports Group eins og félagið. Fenway á einnig hafnaboltaliðið Boston Red Sox sem leikur á ekki síður frægum leikvangi: Fenway Park.

Ýmsir andstæðingar Liverpool í ensku úrvalsdeildinni hafa flutt sig yfir í nýja leikvanga. Má þar nefna Manchester City, Arsenal, Tottenham og West Ham. Stórveldin í norðrinu, Manchester United og Liverpool, hafa frekar kosið að stækka en flytja.