*Handknattleiksdeild ÍBV hefur gengið frá samningi við tvo nýja leikmenn fyrir kvennalið félagsins. Darija Zecevic og Ksenija Dzaferovic sömdu við ÍBV í gær, en báðar eru þær frá Svartfjallalandi. Zecevic er 21 ára gamall markvörður og Dzaferovic er 19 ára gömul skytta. ÍBV hafði áður samið við þær pólsku Mörtu Wawrzynkowska , 27 ára markvörð, og Karlinu Olszowa , 26 ára gamla skyttu.
*Knattspyrnumaðurinn Alex Oxlade-Chamberlain hefur skrifað undir nýjan langtímasamning við Liverpool og er nú samningsbundinn félaginu til loka tímabilsins 2023. Hinn 25 ára gamli miðjumaður var frá í næstum heilt ár vegna meiðsla og spilaði fyrsta deildarleik sinn síðan í apríl 2018 um liðna helgi. Hann á að baki 32 landsleiki fyrir England.
*Markvörðurinn Keylor Navas hefur farið fram á að vera seldur frá Real Madrid. Navas kom til félagsins eftir HM 2014 eftir góða frammistöðu með landsliði Kostaríka, en eftir að Real keypti Thibaut Courtois af Chelsea síðasta sumar hafa tækifærin verið af skornum skammti. Navas hefur á ferli sínum með Real meðal annars unnið Meistaradeildina þrisvar sinnum.
*Stjarnan mun ekki senda lið til þátttöku í 1. deild kvenna í körfuknattleik í vetur eins og stefnt var að. Stjarnan dró lið sitt úr keppni í efstu deild í sumar og hafði hug á að leika í 1. deild, en nú er ljóst að liðið mun ekki tefla fram meistaraflokki í vetur. Margrét Sturlaugsdóttur var ráðin þjálfari Stjörnunnar og er henni ætlað að hjálpa til við uppbyggingu innan félagsins. Henni til aðstoðar verður Danielle Rodriguez , þrátt fyrir að hún sé nú orðin leikmaður KR. Hún fór frá Stjörnunni eftir að ljóst var að félagið myndi ekki tefla fram liði í vetur.
*Kylfingurinn Haraldur Franklín Magnús spilaði vel á öðrum hring á Opna Esbjerg-mótinu í golfi, en mótið er hluti af Nordic Tour-mótaröðinni. Haraldur lék á 69 höggum, tveimur undir pari, þrátt fyrir að mjög hvasst væri í veðri og aðstæður erfiðar. Hann er samtals á einu höggi yfir pari fyrir lokahringinn í dag. Axel Bóasson er samtals á níu höggum yfir pari en Andri Þór Björnsson komst ekki í gegnum niðurskurðinn.