Macron og Merkel gefa misvísandi skilaboð um Brexit

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ferðaðist nú í vikunni til bæði Berlínar og Parísar í þeirri von að hann gæti fengið Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Emmanuel Macron Frakklandsforseta til þess að samþykkja breytingar á samkomulaginu, sem Theresa May, fyrirrennari Johnsons, fékk úr hendi Evrópusambandsins.

Verkefni Johnsons er ærið; enda þótt May hafi sagt það samkomulag hið „besta“ sem völ væri á eru mörg ákvæði þess einfaldlega ekki sæmandi fullvalda ríki. Enda var samkomulagið jafnframt sagt eina samkomulagið sem í boði væri og þar með var það einnig versta samkomulag sem völ var á, eins og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, benti á. Neðri deild breska þingsins, sem þó er skipuð að meirihluta fólki sem virðist frekar vilja koma í veg fyrir útgönguna en að framfylgja vilja þjóðar sinnar, áttaði sig á þessu og kom í veg fyrir það í þrígang að samkomulagið yrði samþykkt.

Þrátt fyrir það neituðu bæði May og forráðamenn Evrópusambandsins að ljá máls á því að samkomulaginu yrði breytt. Þess í stað var farið enn dýpra í skotgrafirnar með að það sem lægi á borðinu væri það eina sem væri í boði og að því yrði ekki breytt með nokkrum hætti.

Með nýjum vendi í Downingstræti 10 hafa komið ný skilaboð þaðan: Bretar gætu með engu móti fallist á samkomulagið eins og það er nú. Johnson hefur enda lýst því yfir að verði engu breytt muni Bretar yfirgefa Evrópusambandið 31. október næstkomandi, með eða án samkomulags. Johnson hefur lagt áherslu á að breyta verði allra versta ákvæði samkomulagsins, norðurírska „varnaglanum“ svonefnda, sem á að tryggja að landamæri ríkjanna á Írlandi haldist opin, hvað sem tautar og raular.

Svörin frá Brussel hafa hins vegar haldist óbreytt. Samkomulagið, sem var vissulega frábært frá sjónarhóli Evrópusambandsins en ekki Breta, yrði að vera samþykkt án þess að hnikað yrði til svo mikið sem einni kommu. Það var fyrst nú á miðvikudaginn sem Merkel, nýkomin úr Íslandsför sinni, léði máls á því að hægt yrði að finna lausn á landamæravandanum.

Þau skilaboð komu þó ekki án skilyrða og lausn þyrfti að finnast innan 30 daga. Johnson þáði þann tímafrest, en ljóst þykir að forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa þegar gert lítið úr þeim lausnum sem forsætisráðherrann hefur áður nefnt á landamærunum. Það er því spurning hvort þeir taka eitthvað betur í þær núna, þrátt fyrir orð Merkel.

Í París mætti Johnson öðru og verra viðmóti en hjá Merkel. Macron Frakklandsforseti hefur einhverra hluta vegna viljað gera sjálfan sig að harðlínumanni þegar kemur að útgöngumálunum. Þannig vildi hann helst ekki framlengja tímafrest Breta, jafnvel þó að ljóst þætti að May ætti engan möguleika á að koma samkomulaginu í gegn, en áhyggjur annarra ríkja urðu til þess að hann lét undan í það sinn. Macron féllst þó á tillögu Merkel um að Bretar reyndu að finna lausn innan mánaðar, en blés jafnframt á möguleikann á að varnaglanum yrði hent fyrir róða.

Ljóst er að störukeppnin vegna Brexit-málsins mun halda áfram eitthvað fram á haustið. Vonandi er boð Merkel frekar til marks um það að embættismennirnir í Brussel séu farnir að átta sig á því að Johnson hyggst ekki, getur ekki og vill ekki bakka frá þeirri afstöðu sinni að betri sé enginn samningur en sá sem nú liggur fyrir. Ef til vill eygja þeir þá von að þingheimurinn breski muni grípa í taumana, en víst er að Evrópusambandsríkin sjálf munu ekki koma betur undan áföllum en Bretar, haldi þeir sig í skotgröfunum.

Og ef breska þingið ákveður á síðustu stundu að gera ekkert með vilja bresku þjóðarinnar þá er líka víst að breskir kjósendur munu minnast þess í næstu kosningum.