Þetta ætlar að reynast þjóðinni erfiðara en tárum taki. Undirritaður er nýkominn af fundi orkunefndar Alþingis til að kynna þar skýrslu á móti orkupakkanum fyrir hönd félagsins Orkan okkar. Sú heimsókn var frekar dapurleg.
Langflestir nefndarmanna voru hlynntir orkupakkanum, en vitneskja þeirra um hann næsta fátækleg. Einu rökin fyrir innleiðingu hans var að erindið um að samþykkja hann var komið innan úr EES-samstarfinu og það hefði aldrei gerst að slíkum erindum væri hafnað. Að einhvern tíma sé allt fyrst virðist ekki vera í kortunum á hinu háa Alþingi.
Margir þingmenn eru heitir andstæðingar þess að útlendingar fái að kaupa upp jarðir Íslandi. En þeir virðast ekki átta sig á því að vatnsréttindin fylgja landinu. Það er búið að selja margar jarðir til útlendinga og þeir sitja með vatnsréttindi jarðanna, bæði veiðirétt og virkjunarrétt. Þetta má skoða í ljósi þess að ESB vill að nýtingarréttur orku verði boðinn út á 30 ára fresti. Stefnum við í, að nýtingarsamningum í vatnsafli og jarðhita verði sagt upp í stórum stíl eftir að orkupakkinn er samþykktur? Þeir eru allir eldri en 30 ára. Verður úrskurðað í slíkum málum fyrir ESB, ESA, EES eða EFTA með skírskotun til reglugerðarákvæða sem fylgja orkupakkanum? Getur einhver fullyrt að svo verði ekki?
Lögfræðingar hafa fullyrt að „kraftaverk“ þurfi til að skaðabótamál vegna orkupakkans muni lenda á Íslendingum. Af hverju fara þessir menn ekki til Noregs eða Belgíu eða annarra þeirra landa þar sem kraftaverkið er komið í gang? Kærumál vegna orkupakkans komin af stað. Þeir geta þá skrifað jarðteiknabók um kraftaverkin og komið fram sem advocatus dei eftir að hafa orðið vitni að kraftaverki.
Svo virðist sem fæstir skilji orkuöryggismálin tengd orkupakkanum. Verði orkupakkinn samþykktur mun ESB smám saman sverfa niður andstöðu Íslendinga við sæstreng, hvort sem það verður í tíð núverandi þingmanna eða arftaka þeirra. Þá margfaldast orkumarkaður Íslendinga, þeir lenda á stórhættulegum uppboðsmarkaði með miklum og ófyrirsjáanlegum verðsveiflum sem út af fyrir sig er nógu slæmt fyrir neytendur. En framleiðendur þurfa ekki að sæta því að sitja uppi með óseldar vatnsbirgðir í sínum miðlunarlónum á hverju vori. Þeir geta selt þetta allt í gegnum strenginn og það er þeirra hagur og ábati. Flytja rafmagnið aftur til baka svo Íslendingar verði ekki rafmagnslausir? Það kostar um þrefalt heildsöluverð.
Slíkt er hægt að hindra með því að taka upp venjulega vatnastjórnun eins og hún tíðkast erlendis en ekki láta raforkuframleiðendur stjórna miðlunarlónunum. Alla löggjöf um slíkt vantar. Og örlar ekki á henni í fyrirhuguðum breytingum á raforkulögum.
Eins og menn sjá eru ýmsar nýjar hliðar á málinu komnar upp síðan Alþingi lauk störfum síðast. Þeir sem er fylgjandi orkupakkanum og vilja ekki hafna honum af því að „slíkt hefur aldrei verið gert“ ættu að minnsta kosti að koma honum út á hliðarlínuna, og reyna að hafa hann þar í góðu samkomulagi við EES þangað til ofangreind mál skýrast.
Höfundur er prófessor. jonase@hi.is