Vigdís Rún er fagurkeri sem kann vel við að hafa fallega hluti í kringum sig.
Vigdís Rún er fagurkeri sem kann vel við að hafa fallega hluti í kringum sig.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fagurkerinn Vigdís Rún er menntaður listfræðingur frá Háskóla Íslands og býr nú á Akureyri þar sem hún starfar sem menningarfulltrúi á Norðurlandi eystra. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is
Hvað er það fallegasta sem þú átt?

„Börnin mín eru svo sannarlega það fallegasta sem ég á, og líka kötturinn minn sem er mér mjög kær.“

Hvað skiptir mestu máli þegar heilsan er annars vegar?

„Varðandi heilsuna þá tel ég mataræðið skipta mestu máli. Ég hef alla tíð verið meðvituð um hollt mataræði og borða alla jafna mjög hollt fæði, helst lífrænt. Því miður er ég alltof löt við að hreyfa mig en mér finnst fátt betra en að slaka á í sundi og gufu eftir annasaman dag.“

Hvað keyptir þú þér síðast?

„Ég var að koma úr dásamlegu sumarfríi þar sem ég ferðaðist um hálfa Ítalíu og þar keypti ég mér tvö pör af fallegum eyrnalokkum; eitt par í Feneyjum og annað í Flórens.“

Hver er uppáhaldssnyrtivaran?

„Uppáhaldssnyrtivaran mín er rósavatn frá Jurtaapótekinu sem er alltaf í veskinu mínu. Dr. Hauschka-vörurnar eru líka í miklu uppáhaldi hjá mér en ég hef nánast eingöngu notað þær síðastliðin 15 ár. Maskari er líka ómissandi fyrir mig og ef ég vil vera sérstaklega fín set ég á mig rauðan varalit.“

Hver er uppáhaldsmorgunmaturinn?

„Ég byrja alla daga á að fá mér sítrónuvatn og espresso. Ef ég vil gera vel við mig fæ ég mér gríska jógúrt með ávöxtum og hnetum en um helgar fæ ég mér kaffi og croissant.“

Hvað skiptir mestu máli þegar kemur að heilsunni?

„Góður svefn og vatnsdrykkja gera kraftaverk fyrir mig. Jákvæðni, bros og fallegar hugsanir gera lífið líka skemmtilegra fyrir alla, mann sjálfan og fólkið í kringum mann.“

Hvað keyptir þú síðast fyrir heimilið?

„Ég keypti dásamlega fallegt hús í innbænum á Akureyri fyrir einu og hálfu ári. Húsið var byggt árið 1903 og hefur þarfnast mikilla endurbóta, öll mín innkaup hafa því að mestu farið í endurgerð á húsinu. Eitt af því sem ég keypti fyrir heimilið var glæsilegt antíkborðstofusett frá síðustu aldamótum sem smellpassar inn í húsið.“

Hvað skiptir mestu máli í lífinu?

„Sem móðir þriggja barna skiptir mig mestu máli að börnunum mínum líði vel, að þau fái sem heilbrigðast uppeldi og hæfileikar þeirra fái að njóta sín. Ég reyni eftir fremsta megni að vera góð fyrirmynd, en auðvitað má alltaf gera betur.“

Hver er uppáhaldshönnuðurinn þinn?

„Ég á mér engan uppáhaldshönnuð, ég fell meira fyrir gæðaefnum og fallega sniðinni flík.“

Hver er uppáhaldsilmurinn?

„Uppáhaldsilmurinn minn er Patchouli Patch frá L'artisan sem ég hef notað í mörg ár. Ég elska líka sjávarilm og ilm af góðu kaffi.“

Hver er besti dagur lífsins?

„Það hafa verið svo margir bestu dagar lífs míns, en ætli ég verði ekki að segja dagarnir þegar börnin mín fæddust.“

Hver er tilgangur lífsins?

„Þegar stórt er spurt er fátt um svör. En ef ég á að reyna að svara þessari spurningu væri það líklega að reyna að njóta augnabliksins og gera það besta úr þessu eina lífi sem við höfum.“

Hvað fleira er í uppáhaldi?

„Ítalía hefur alltaf verið uppáhaldslandið mitt enda ekkert land sem ég hef heimsótt jafn oft um ævina. Lestur góðra bóka er líka í uppáhaldi hjá mér, sér í lagi bókmennta frá síðustu og þarsíðustu öld.“

Höf.: Vigdís Rún