Heilsan er okkur flestum töluvert dýrmæt þótt við áttum okkur kannski ekki á því fyrr en örlítið seint á lífsleiðinni. Flest komumst við upp með að fara illa með okkur fyrstu 30 árin eða svo, en hjá flestum kemur einhvern tímann að skuldadögum. Svo er það oft ekki fyrr en eitthvað fer að „bila“ sem við neyðumst til að skipta um gír.
Við klípum af svefntímanum, hreyfum okkur ekki nægilega mikið, fáum matinn okkar inn um bílrúður, drekkum of mikið, tökum alls konar töflur og dót sem eru ekki lyfseðilsskyld og keyrum okkur út því það er svo gaman að vera til. Ef við værum splunkunýr bíll myndum við aldrei böðlast svona á honum. Við myndum þrífa hann reglulega, fara með hann í skoðun, gæta þess vel að hann yrði aldrei olíulaus og við myndum passa að það yrði ekki þjösnast á honum.
Þótt við séum öll búin til á sama hátt þá er mannslíkaminn misjafnlega byggður. Sumir þola allt og geta jafnvel drukkið lítra af landa á hverjum degi í 60 ár án þess að láta á sjá meðan aðrir geta ekki borðað rjómasósu á jólunum án þess að fá í magann.
Það væri náttúrlega miklu auðveldara að vera til ef það fylgdu bara leiðbeiningar með manneskjunni og hausinn væri þannig innstilltur að hann færi eftir þeim. Hann væri ekki stöðugt að gera eitthvað sem hann veit að er ekki gott fyrir hann. En manneskjan er mannleg, ekki vélmenni, og þess vegna stendur hún alltaf frammi fyrir alls kyns áskorunum.
Ég fór til fagaðila í sumar til að skoða hvort það væri eitthvað í eigin heilsu sem mætti bæta og kom út með þær upplýsingar að ég þyrfti að slaka örlítið meira á. Ég fékk það uppáskrifað að lesa í klukkutíma á dag, yrði að hugleiða og fara á jóga nidra-námskeið. Þegar ég kom heim var ég uppveðruð og þegar ég ræddi þetta við manninn minn sagði hann: „Þetta eru býsna góðar fréttir. Ég hefði samt alveg getað sagt þér þetta frítt,“ sagði hann og brosti.
Í kjölfarið fann ég jóganámskeið og lagði til að við sambýlisfólkið færum saman. Yfir mig keyrði langur spurningavagn þar sem ég þurfti að svara því hvernig þetta jóganámskeið yrði nákvæmlega, hver atburðarásin yrði, hvernig húsnæðið væri, í hverju hann ætti að vera, hvort hann mætti vera með gleraugu í tímanum eða ekki. Ég svaraði á þá leið að ég gæti ekki svarað neinum af þessum spurningum þar sem ég hefði aldrei farið á svona nidra-jóganámskeið. Á einhvern óskiljanlegan hátt samþykkti hann að koma með mér og nú erum við búin að fara í þrjá tíma.
Eftir fyrsta tímann vorum við hugsi. Hann var frekar stífur og skildi ekki alveg hvers vegna við hefðum borgað fyrir að hlusta á sofandi fólk í leikfimisal í öðru póstnúmeri. Ég var ekki alveg að tengja heldur enda á ég erfitt með að slaka á. Mér hefur oft þótt betra að hafa allt á útopnu.
Í tíma tvö náði ég slökun sem ég hafði ekki náð áður og hugsaði með mér að þetta gæti nú kannski verið eitthvað. Maðurinn minn var ennþá á sama stað og eftir fyrsta tímann. En svo rann þriðji tíminn upp og ég var alveg viðbúin því að minn góði maki myndi nú bara kasta inn handklæðinu. Þegar ég minntist á það sagðist hann ekkert vera hættur á þessu námskeiði. Fólk sem byrjaði á einhverju færi alla leið og kláraði. Fólk stæði við sitt.
Í þriðja tímanum gerðist eitthvað. Ég náði að sofna ekki en fara í gegnum alla slökunina og fann hvernig líkaminn dofnaði upp. Maðurinn minn tengdi betur en í tveimur fyrstu tímunum.
Á næstu sjö vikum mun svo koma í ljós hvort jóga nidra breytir lífinu eða ekki. Við erum allavega á einhverri vegferð sem er örugglega mjög slakandi og góð fyrir okkur. Svona þangað til eitthvað annað gerist.