Óeirðir Mótmælin í sjálfsstjórnarhéraðinu hafa staðið yfir í um 3 mánuði.
Óeirðir Mótmælin í sjálfsstjórnarhéraðinu hafa staðið yfir í um 3 mánuði. — AFP
Veronika S. Magnúsdóttir veronika@mbl.is Lögreglan í Hong Kong greip til þess ráðs að sprauta vatni á mótmælendur og hleypti einnig af föstum skotum í fyrsta skipti í sögu mótmælanna þar.

Veronika S. Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Lögreglan í Hong Kong greip til þess ráðs að sprauta vatni á mótmælendur og hleypti einnig af föstum skotum í fyrsta skipti í sögu mótmælanna þar.

Talsmaður lögreglunnar í Hong Kong, Leung Kwok Win, tjáði fjölmiðlum að skoti hefði verið hleypt af byssu lögreglumanns. Á fréttavef AFP er haft eftir honum: „Af því er ég best veit þá var það einkennisklæddur lögreglumaður sem hleypti af skoti.“ Hann upplýsti þó ekki hvort einhver hefði særst í kjölfarið.

Almenningur hefur nú mótmælt í þrjá mánuði í Hong Kong. Fyrst um sinn var mótmælt frumvarpi sem ríkisstjóri Hong Kong, Carrie Lam, hugðist leggja fram og hefði heimilað framsal afbrotamanna til Kína. Íbúar Hong Kong töldu fyrirætlanirnar vera skýrt merki um að Kína væri að auka völd sín yfir sjálfstjórnarhéraðinu og hafa því mótmælt á götum Hong Kong síðan í júní. Með vikunum hafa mótmælin hins vegar þróast út í almenn mótmæli gegn stjórnvöldum í Hong Kong. Stærstur hluti mótmælenda eru háskólanemar.

Mótmælafundur hófst um eftirmiðdaginn í gær í Tsuen Wan-héraði í Hong Kong en aukin harka færðist í mótmælin með kvöldinu. Þá kom til átaka milli mótmælenda og óeirðalögreglunnar, sem hafði varla hemil á ungum, grímuklæddum mótmælendum, vopnuðum steinum og bambusspjótum svo fátt eitt sé nefnt.

Lögreglan beitti táragasi til að hafa hemil á mótmælunum en sprautaði síðan vatni á mótmælendur með slökkvidælum í fyrsta sinn í sögu mótmælanna. Ekki er vitað til þess að neinn hafi særst í þeim átökum en mannréttindasamtökin Amnesty International hafa varað við notkun vatnskrana þar sem þeir gætu ógnað öryggi mótmælenda og leitt til enn frekari átaka. Nokkrir særðust í mótmælunum á laugardag en mótmælin halda nú áfram, að liðnu vikuhléi.

Fordæma ofbeldið

Stjórnvöld í Hong Kong fordæmdu meint skemmdarverk og ofbeldi mótmælenda á laugardag, að því er fram kom í umfjöllun South China Morning Post. Þá hafði AFP eftir 19 ára gömlum kínverskum háskólanema að honum sýndist það „ekki bera neinn árangur að mótmæla friðsamlega“. Þá hafa leiðtogar stúdentahreyfinga í Hong Kong hvatt námsmenn til að sniðganga fyrirlestra fyrstu tvær vikur skólaannarinnar sem er nýhafin.