Leiðtogafundur Leiðtogar aðildarríkja G7 funduðu um helgina.
Leiðtogafundur Leiðtogar aðildarríkja G7 funduðu um helgina. — AFP
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, sótti leiðtogafund G7-ríkjanna, að beiðni Emmanuels Macron, forseta Frakklands. Koma Zarifs var ekki tilkynnt öðrum þjóðarleiðtogum.

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, sótti leiðtogafund G7-ríkjanna, að beiðni Emmanuels Macron, forseta Frakklands. Koma Zarifs var ekki tilkynnt öðrum þjóðarleiðtogum. Fundinn sóttu einnig leiðtogar Bretlands, Kanada, Þýskalands, Ítalíu, Japan og Bandaríkjanna, að því er fram kemur á fréttavef AFP .

Macron bauð Zarif á leiðtogafund ríkjanna sjö til þess að draga úr vaxandi spennu milli Írans og Bandaríkjanna en þó er ekki gert ráð fyrir því að utanríkisráðherra Írans muni ræða einslega við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Leiðtogafundur G7-ríkjanna fór fram um helgina í Biarritz í suðvesturhluta Frakklands. Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Bretlands lögðu áherslu á að ræða skógareldana miklu sem nú geisa í Amazon-frumskóginum.

Vel fór á með Donald Trump og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á morgunverðarfundi leiðtoganna í Biarritz, þar sem spenna á viðskiptamarkaði, útganga Breta úr Evrópusambandinu og skógareldarnir voru til umræðu.

Áður en Johnson hélt á morgunverðarfundinn sagði hann Bandaríkin verða að afnema höft á bresk fyrirtæki, vildu þau gera fríverslunarsamning við Bretland.

Trump segir viðamikinn fríverslunarsamning við Bretland vera í undirbúningi og eftir morgunverðarfund leiðtoganna tveggja lofaði hann því að samningurinn yrði afar umfangsmikill. veronika@mbl.is