[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Íslendingar eru komnir í annað sætið meðal Evrópuþjóða í hlutdeild seldra rafbíla af seldum nýjum bílum í hverju landi fyrir sig, samkvæmt nýjum samanburði vefrits EV-Volumes.com. Á Íslandi er hlutdeild hreinna rafbíla og tengiltvinnbíla sögð hafa verið tæp 11% af seldum bílum á fyrri helmingi ársins.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Íslendingar eru komnir í annað sætið meðal Evrópuþjóða í hlutdeild seldra rafbíla af seldum nýjum bílum í hverju landi fyrir sig, samkvæmt nýjum samanburði vefrits EV-Volumes.com. Á Íslandi er hlutdeild hreinna rafbíla og tengiltvinnbíla sögð hafa verið tæp 11% af seldum bílum á fyrri helmingi ársins.

Norðmenn bera höfuð og herðar yfir aðrar Evrópuþjóðir en 47% seldra bíla í Noregi á fyrstu sex mánuðum ársins eru með rafmótor, og að langstærstum hluta er þar um hreina rafbíla að ræða eða 38%.

Sala rafbíla sem eingöngu ganga fyrir rafmagni, er sögð hafa aukist um 52% á Íslandi á fyrri helmingi ársins samanborið við fyrri helming ársins 2018 en sala tengiltvinnbíla, þ.e. bíla sem ganga bæði fyrir eldsneyti og rafmagni og hægt er að hlaða með rafmagnstengli, er sögð hafa dregist saman um 41%.

Svíar eru í þriðja sæti á listanum yfir hlut rafmagnsknúinna bíla af seldum bílum í löndum Evrópu og Hollendingar í því fjórða.

Alls voru seldir 259 þúsund rafmagnsbílar í löndum Evrópu á fyrri helmingi ársins og jókst salan um 34% miðað við sama tímabil í fyrra. Er aukningin langmest í sölu bíla sem eingöngu ganga fyrir rafmagni. Flestir rafmagnsbílar voru seldir í Þýskalandi, sem skaust fram úr Noregi í fjölda seldra rafbíla á fyrstu sex mánuðum ársins. Söluhæsti rafbíllinn á þessu tímabili í Evrópu var Tesla Model-3. Seldust 38 þúsund bílar af þeirri tegund í Evrópu.

4-5% af bílaflota landsins

Í umfjöllun greiningarfyrirtækisins 24/7 Wall Street segir að skv. þessum tölum megi reikna með að á þessu ári muni rafhleðslustöðvum í Evrópu fjölda í um 100 þúsund stöðvar en þær voru 80 þúsund fyrir tveimur árum. Sé við því að búast að í lok þessa árs verði um 3,2 milljónir rafknúinna bíla komnir í notkun í öllum löndum heims og árlegur vöxtur sé um 57%.

Svonefndir hybrid tvinnbílar sem ganga fyrir eldsneyti og rafmagni en er ekki hægt að hlaða með rafleiðslu eru ekki tilteknir í samanburði EV-Volumes á sölu rafbíla, sem birtir eingöngu tölur um raftengilbíla, en skv. tölum yfir skráningu nýrra bíla hér á landi voru hybrid tvinnbílar um 6% af nýskráningum allra bíla á fyrri helmingi ársins. Eins og fram hefur komið hér í blaðinu teljast allar tegundir rafbíla, hreinir rafbílar, hybrid (bensín og rafmagn) og tengiltvinnbílar (bensín og raftengill) um 19% af heildarsölunni á fyrri helmingi ársins.

Skv. skráningartölum sem fengust hjá Bílgreinasambandinu fyrir helgi voru hreinir rafbílar 5% af öllum seldum ökutækjum á fyrri helmingi ársins og tæp 6% af seldum fólksbílum, sem er nokkru hærra hlutfall en fram kemur í tölum EV-Volumes. Markaðshlutdeild tengiltvinnbíla var um 7% af öllum nýjum bílum á fyrri hluta þessa árs og samanlögð hlutdeild allra nýskráðra tvinnbíla (bensín og rafmagn og bensín og raftengill) var 13%.

Rafbílar og tengiltvinnbílar eru komnir í 4-5% af heildarbílaflota landsmanna. Hreinir rafmagnsbílar telja nú tæp þrjú þúsund og er hlutdeild þeirra af bílum í umferð hér á landi 1,3% en hlutur tengiltvinnbíla, sem eru tæplega 6.700 talsins, er um 3%. Bensínknúnir bílar voru samkvæmt seinustu tölum sem fengust hjá Bílgreinasambandinu tæplega 137 þúsund talsins eða tæplega 61% alls bílaflotans og dísilbílarnir 76.566, sem svarar til rúmlega 34% af heildarflotanum hér á landi.

Eldsneyti dýrast hér

Íslendingar eru á toppnum í nýjum samanburði á verðlagningu á bensíni og dísilolíu í 30 löndum (í Evrópu, og Bandaríkin) að því er sagt er frá í nýrri frétt á vefsíðu FÍB. Þar er vitnað í nýjan samanburð Automobile Association í Bretlandi á eldsneytisverði í júlí. Í umfjöllun FÍB kemur fram að Norðmenn eru í öðru sæti listans yfir hæsta eldsneytisverðið. Verðmunur á bensínlítra milli Íslands (237,20 kr) og Noregs (236,09 kr.) er ekki marktækur en verðmunurinn er sagður meiri á dísilolíunni eða tæpar 11 kr. miðað við næst dýrasta dísillítrann sem fæst einnig í Noregi.