Bakverðir Elias Tamburini rennir sér í tæklingu gegn Davíð Ernil Atlasyni í bleytunni í Víkinni í gærkvöld.
Bakverðir Elias Tamburini rennir sér í tæklingu gegn Davíð Ernil Atlasyni í bleytunni í Víkinni í gærkvöld. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Akureyri/Fossvogur/Akranes Baldvin Kári Magnússon Jóhann Ingi Hafþórsson Kristján Jónsson KA og KR mættust á Greifavellinum á Akureyri í 18.umferð Pepsi-Max deildar karla í gær. Leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Akureyri/Fossvogur/Akranes

Baldvin Kári Magnússon

Jóhann Ingi Hafþórsson

Kristján Jónsson

KA og KR mættust á Greifavellinum á Akureyri í 18.umferð Pepsi-Max deildar karla í gær. Leiknum lauk með markalausu jafntefli. KA menn eru eins og kunnugt er í mikilli fallbaráttu en hafa verið að safna stigum undanfarið, sérstaklega á heimavelli þar sem liðið hefur unnið FH og Stjörnuna í síðustu leikjum.

KR-ingar virtust hafa góðan árangur KA-manna á heimavelli í huga og fóru varlega inn í leikinn. KA liðið gerði það sama.

Leikurinn var fyrir vikið afar lokaður og einfaldlega leiðinlegur að horfa á. Heimamenn náðu ekki skoti á markið og KR-ingar náðu aðeins einu skoti á markið. Ægir Jarl náði skoti úr þröngu færi snemma í fyrri hálfleik en Kristijan Jajalo varði.

Eftir því sem leið á leikinn virtust KA-menn fá aukna trú á að möguleiki væri fyrir liðið að ná í þrjú stig í leiknum og voru þeir sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Þeir áttu fína kafla, voru á undan KR-ingum í flesta bolta sem voru á hælunum um miðbik seinni hálfleiks. Heimamenn fengu föst leikatriði en náðu ekki að valda Beiti vandræðum í marki KR.

Rúnar Kristinsson reyndi að fríska upp á sóknarleik KR með skiptingum sínum. Atli Sigurjónsson og Björgvin Stefánsson komu inn í seinni hálfleik fyrir Tobias og Ægi en hvorki Atli né Björgvin náðu að breyta leiknum fyrir gestina. Rúnar Kristinsson sagði eftir leikinn að sóknarleikur sinna manna hafi verið of hægur og fyrirsjáanlegur. Af viðbrögðum leikmanna og þjálfara að dæma eftir leik virtust bæði lið þó sátt með stigið en stigið hjálpar liðunum í baráttunni í sitt hvorum enda töflunnar.

KA-menn hafa nú náð 9 stigum úr seinustu sex leikjum eftir fjóra tapleiki í röð þar á undan. Þar hefur heimavöllurinn skilað miklu en liðið hefur aðeins náð í 4 af 21 stigi sínum í sumar á útivelli. Liðið náði einnig að halda hreinu en KA-menn hafa fengið á sig 29 mörk í sumar. Aðeins ÍBV hefur fengið fleiri mörk á sig.

KR-ingar eru nú 10 stigum á undan Breiðabliki sem eiga leik til góða gegn FH í kvöld. Vesturbæjarliðið stefnir í átt að fyrsta Íslandsmeistaratitli sínum síðan 2013. Liðið á þó eftir að mæta Breiðabliki, Val og FH á leið sinni þangað. Það er því enn örlítill möguleiki fyrir Blika þó KR-ingar séu með pálmann í höndunum. baldvin13@gmail.com

Víkingur skildi Grindavík eftir

Víkingur R. vann gríðarlega mikilvægan 1:0-sigur á Grindavík á heimavelli sínum í Fossovgi. Ágúst Eðvald Hlynsson skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok og tryggði Víkingi verðskuldaðan sigur. Víkingarnir voru sterkari frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og var ótrúlegt að hugsa til þess að aðeins eitt stig skildi liðin að fyrir leikinn. Víkingur var í sókn í leiknum á meðan hlutskipti Grindvíkinga var að verjast. Upplegg Grindvíkinga var að liggja til baka og sækja hratt, en sóknarleikur liðsins var algjörlega geldur. Liðið gat því í mesta lagi treyst á góðan varnarleik og markalaust jafntefli, en það er erfitt á móti spræku liði Víkinga.

Framan af sumri var Víkingur 1-2 leikmönnum frá því að vera með afar gott lið. Með komu Kára Árnasonar, Guðmundar Andra Tryggvasonar og Óttars Magnúsar Karlssonar er Víkingur orðinn að hörkuliði. Guðmundur var að vísu ekki með í gærkvöldi þar sem hann tók út leikbann, en í hans fjarveru fékk Atli Hrafn Andrason tækifæri og spilaði vel. Ágúst Eðvald var mjög sprækur hinum megin á kantinum og sú ákvörðun Arnars Gunnlaugssonar, þjálfara Víkings, að færa Kára Árnason á miðjuna hefur reynst mjög vel. Kári er algjör jaxl og stöðvar mikið af sóknum andstæðinganna í fæðingu. Hann tekur meiri þátt í leiknum á miðsvæðinu og gefur yngri og sóknarsinnaðri leikmönnum meira frelsi til að sækja. Þeir hafa ekki mikið að óttast þegar eitt stykki Kári Árason bíður og verndar það sem er fyrir aftan þá. Eftir erfiðleika stóran hluta tímabils gæti sumarið hjá Víkingum orðið ansi gott þegar uppi er staðið. Takist liðinu að safna stigum í þeim deildarleikjum sem eftir eru og vinna FH í bikarúrslitum, er alls ekki hægt að kvarta í Fossvoginum.

Það er hinsvegar lítið að frétta hjá Grindavík. Liðið er með einn sigur í síðustu þrettán og það var gegn ÍBV. Síðasti deildarsigur gegn öðru liði en langneðstum og föllnum Eyjamönnum kom 20. maí á móti Fylki. Fótbolti Grindavíkur er leiðinlegur og í þokkabót ekki sérstaklega árangursríkur. Liðið tefur oft frá fyrstu mínútu og virðist himinlifandi með markalaust jafntefli í leikjum sem mikilvægt er að vinna. Grindavík mætir KA á heimavelli í næstu umferð í leik sem verður hreinlega að vinnast. Þá verður liðið að þora að sækja til sigurs, en ekki bíða eftir andstæðingnum, tefja og vona það besta. Spili Grindavík ekki betur á heimavelli sínum í öðrum úrslitaleik næsta laugardag, er stutt í að liðið geti farið að pakka saman og kveðja efstu deild. johanningi@mbl.is

Endurtekið efni frá 2006

Eyjamenn eru fallnir úr efstu deild karla eftir afar erfitt sumar í knattspyrnunni. ÍBV féll síðast niður síðsumars árið 2006. Merkilegt nokk þá féll liðið einnig eftir tap fyrir ÍA á Skaganum.

Örlög Eyjamanna gátu varla orðið önnur úr því sem komið var. Eftir átján leiki, sem var leikjafjöldinn í gamla Íslandsmótsinu, þá er liðið aðeins með 6 stig. Það er einfaldlega allt of lítil uppskera til að eiga möguleika á að halda sér uppi.

Frammistaða liðsins á laugardaginn var örugglega ekki sú versta í sumar en Skagamenn voru engu að síður sterkari og sköpuðu sér fleiri marktækifæri. Erfitt er að átta sig á því hvar ÍA gæti endað þegar upp verður staðið. Sigurinn var kærkominn fyrir Skagamenn en þeir eru nú með 25 stig eins og HK. ÍA gæti enn endað í efri hlutanum ef vel tekst til í síðustu umferðunum.

Undirritaður fjallaði einnig um leik liðanna árið 2006 fyrir blaðið. Þá hafði þjálfari tekið við ÍBV-liðinu í ágúst sem ekki var mikið látið með á þeim tíma. Heimir Hallgrímsson heitir hann og reif hann ÍBV upp í toppbaráttu nokkrum árum síðar. Ian Jeffs sem tók við ÍBV á miðju sumri gæti því þess vegna átt flottan feril framundan sem þjálfari. Hver veit? kris@mbl.is

VÍKINGUR R. – GRINDAVÍK 1:0

1:0 Ágúst Eðvald Hlynsson 80.

Gul spjöld

Erlingur Agnarsson, Dofri Snorrason (Víkingi), Gunnar Þorsteinsson, Sigurjón Rúnarsson, Rodrigo Gómez (Grindavík).

Dómari : Erlendur Eiríksson, 7.

Áhorfendur : 606.

M

Atli Hrafn Andrason (Víkingi)

Ágúst Eðvald Hlynsson (Víkingi)

Davíð Örn Atlason (Víkingi)

Erlingur Agnarsson (Víkingi)

Halldór S. Sigurðsson (Víkingi)

Kári Árnason (Víkingi)

Sölvi Geir Ottesen (Víkingi)

Josip Zeba (Grindavík)

Rodrigo Gómes (Grindavík)

Vladan Djogatovic (Grindavík)

KA – KR 0:0

Gul spjöld

Andri Fannar Stefánsson, Iosu Villar, Elfar Árni Aðalsteinsson (KA), Skúli Jón Friðgeirsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson (KR).

Rauð spjöld

Engin.

Dómari : Pétur Guðmundsson, 7.

Áhorfendur : 734.

M

Almarr Ormarsson (KA)

Brynjar Ingi Bjarnason (KA)

Callum Williams (KA)

Iosu Villar (KA)

Finnur Tómas Pálmason (KR)

Kristinn Jónsson (KR)

Skúli Jón Friðgeirsson (KR)

ÍA – ÍBV 2:1

1:0 Einar Logi Einarsson 45.

2:0 Tryggvi H. Haraldsson 62. (víti)

2:1 Gary Martin 72.

Gul spjöld

Oran Jackson ÍBV.

Rauð spjöld

Engin.

Dómari : Þorvaldur Árnason, 7.

Áhorfendur : 519.

MM

Hörður Ingi Gunnarsson (ÍA)

M

Óttar Bjarni Guðmundsson (ÍA)

Einar Logi Einarsson (ÍA)

Sindri Snær Magnússon (ÍA)

Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)

Viktor Jónsson (ÍA)

Felix Örn Friðriksson (ÍBV)

Gary Martin (ÍBV)