Umhverfismál Ísland nái markmiðum í kolefnisjöfnun fyrr en nú er áætlað, segir Eggert Benedikt.
Umhverfismál Ísland nái markmiðum í kolefnisjöfnun fyrr en nú er áætlað, segir Eggert Benedikt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Aðgerðir, tækni og lausnir sem vinna eiga gegn hlýnun andrúmsloftsins þróast hratt þessi misserin. Við munum því væntanlega sjá miklar breytingar á allri gerð samfélagsins á næstu tíu til fimmtán árum,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, nýr forstöðumaður samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Þann 12. september verður haldinn formlegur stofnfundur þessa vettvangs, sem byggist m.a. á aðild forsætis-, umhverfis, utanríkis- og atvinnuvegaráðuneyta, sem og fyrirtækja og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Aðgerðir, tækni og lausnir sem vinna eiga gegn hlýnun andrúmsloftsins þróast hratt þessi misserin. Við munum því væntanlega sjá miklar breytingar á allri gerð samfélagsins á næstu tíu til fimmtán árum,“ segir Eggert Benedikt Guðmundsson, nýr forstöðumaður samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir. Þann 12. september verður haldinn formlegur stofnfundur þessa vettvangs, sem byggist m.a. á aðild forsætis-, umhverfis, utanríkis- og atvinnuvegaráðuneyta, sem og fyrirtækja og hagsmunasamtaka í atvinnulífinu.

Í lok maí sl. var undirritað samkomulag um málið og vinna sett af stað. Tilgangurinn með starfinu er að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði. Einnig að tryggja virkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs og styðja við markaðssetningu og viðskiptaþróun fyrirtækja sem hasla sér völl á þessu sviði, að sögn Eggerts sem hefur starfsaðstöðu hjá Íslandsstofu.

Markmiðin náist fyrr en áætlað er

Á þessu ári hafa nokkrir stofnaðilanna lagt samráðsvettvanginum til rekstrarfé svo vinna megi ýmsum verkefnum hans framgang. Meðal annars er stefnt að því að setja á laggirnar sérstaka kynningarstofu þar sem fræðsla um áskoranir í loftslagsmálum verða í brennidepli. Samningar gera ráð fyrir að samstarfsvettvangurinn verði starfræktur að minnsta kosti út árið 2021, en um mitt það ár verða áformin sem fyrir liggja endurmetin. „Markmiðin sem Íslendingar hafa sett sér í loftslagsmálum eru háleitari en hjá mörgum öðrum þjóðum. Á mörgum vígstöðvum eru komnar áætlanir um að draga úr útblæstri koltvíoxíðs. Hér á til dæmis að vera búið að skipta út bílum knúnum jarðefnaeldsneyti árið 2030 og á Ísland að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Þetta hefur vakið athygli víða og í heimsókn sinni hingað til lands í síðustu viku nefndi Angela Merkel, kanslari Þýskalands, að hér ætti að ná kolefnisjöfnun tíu árum fyrr en þjóð hennar og Evrópusambandið áforma. Slíkt þætti sér mjög áhugavert,“ segir Eggert og heldur áfram:

Reynsla heillar aldar

„Raunar trúi ég því að Ísland nái markmiðum um orkuskipti og kolefnisjöfnun fyrr en nú er áætlað er. Rafbílar verða æ fullkomnari og langdrægari og hleðslustöðvum er fjölgað hratt. Hér á landi búum við sömuleiðis að því að orkugjafar landsmanna, rafmagn og heitt vatn, eru hreinir og endurnýtanlegir og þar búum við að reynslu heillar aldar. Hvarvetna í atvinnulífinu og hjá almenningi hafa menn áttað sig á því að við verðum að grípa til aðgerða gegn hnattrænni hlýnun.“

Eggert segir að með áherslu á orkuskipti í samgöngum geti Íslendingar fljótt og vel náð miklum árangri og dregið úr losun koldíóxíðs. Einnig þurfi að vinna hratt að lausnum í iðnaði, landbúnaði og losun úrgangs. Þá losun, sem eftir verður, sé nauðsynlegt að binda á einhvern hátt. Landgræðsla, skógrækt og binding í berg séu mjög árangursríkar leiðir að því markmiði, enda hafi Íslendingar í þeim efnum miklu að miðla. Raunar vekur Ísland mikla athygli í öllu sem lýtur að hnattrænni hlýnun, sbr. að jökullinn Ok er horfinn eins og mikið hefur verið fjallað um.

Vel sett með auðlindir

„Á heimsvísu er orkuframleiðsla, einkum til raforku og hitunar, það sem mestri mengun veldur og stuðlar helst að hlýnun. Á Íslandi erum við hins vegar svo vel sett með auðlindir að hér er þetta vandamál ekki til staðar. Öll okkar raforka og kynding kemur frá hreinum orkugjöfum. Því getum við strax beint kröftum okkar að orkuskiptum í samgöngum og það mál ætti að vera auðleyst. Aðrir þættir sem horfa þarf til eru síðan til dæmis sjávarútvegurinn, atvinnugrein sem þegar hefur náð miklum árangri í umhverfismálum eins og ég þekki vel úr fyrri störfum mínum. Lykilatriði í þessu öllu er samt sem áður að ná sem flestum að borðinu. Fá fólk og fyrirtæki til samvinnu í verkefnum sem skipta framtíð okkar miklu og skapa Íslandi sérstöðu og forystu í loftslagsmálum á heimsvísu ,“ segir Eggert.

Hver er hann?

• Eggert Benedikt Guðmundsson fæddist árið 1963. Er með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Þýskalandi auk þess að hafa lokið MBA- og AMP-gráðum á Spáni.

• Eggert býr að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu, m.a. sem forstjóri HB-Granda og síðar N1. Hefur einnig setið í stjórnum fyrirtækja og menningarstofnana.