Sigmundur Franz Kristjánsson fæddist á Róðhóli, Sléttuhlíð, Skagafirði 1941, yngstur fimm systkina. Hann lést á Landspítala, Hringbraut, 11. ágúst 2019.

Sigmundur kom til Reykjavíkur 16 ára, vann í bókabúðum í nokkur ár og þar kviknaði áhugi hans á bókum og bókasöfnun sem entist út ævina. Hann vann ýmis tilfallandi störf til lands og sjávar árin þar á eftir eða allt þar til hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki og starfaði eftir það við eigin rekstur við inn- og útflutning.

Á sínum yngri árum hafði hann ákafan áhuga á fuglum og byrjaði snemma að merkja og skrá fugla vítt og breitt um landið. Í gegnum tíðina áskotnaðist honum yfirgripsmikið safn af uppstoppuðum fuglum ásamt eggjum. Fuglasafn hans er nú að finna í Sjálandsskóla en hann gaf skólanum safnið. Einnig stundaði hann stangveiði af miklum áhuga.

Hann kvæntist Helgu Gunnarsdóttur árið 1962 og eignuðust þau eitt barn, Gunnar Kristján, sem kvæntur er Guðnýju Sverrisdóttur, en þau eignuðust tvo syni, Sverri Franz, sem lést 2008, og Ara Þór, sem á tvö börn. Sigmundur og Helga slitu samvistum. Seinna giftist Sigmundur Hrafnhildi Vilhelmsdóttur og eignaðist með henni tvö börn: Vilhelm Sigfús, sem kvæntur er Herdísi Gísladóttur, og þau eiga þrjú börn, Hrafnhildi, Andra Hauk og Martein Þór, og Hörpu Iðunni, sem gift er Björgvini Elvari Björgvinssyni og eiga þau tvo syni, Björgvin Franz og Ágúst Atla. Sigmundur og Hrafnhildur slitu samvistum 1991. Bjó Sigmundur eftir það með Jónínu Helgu Jónsdóttur þar til hún lést árið 2015. Sigmundur lætur eftir sig sambýliskonu, Ernu Sveinbjörnsdóttur.

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 26. ágúst 2019, klukkan 15.

Kæri bróðir.

Elsku Franz. Mig langar að minnast þín nokkrum orðum og þá byrjar maður á komu þinni í þennan heim. Auðvitað fæddumst við í sama rúmi, rúminu hennar mömmu, í gamla bænum á Róðhóli. Stefáni bróður var falið það verkefni að dvelja fyrir mér frammi í fjósi en ekki vissi ég þá hvers vegna ég mætti ekki fara inn. Var ég þó búinn að kemba og pússa kýrnar, sem voru víst ekki nema tvær, drepa allar flugurnar í fjósglugganum og svæfa kálfinn. En á endanum var okkur hleypt inn. Man ég er ég leit þig í holunni minni fyrir ofan mömmu hvað ég var undrandi þegar fólkið var að dást að þessu hrukkótta kríli. Enda varst þú væntanlega fyrsta nýfædda barnið sem ég sá. Svo minnist ég þegar þú varst fimm eða sex ára, fékkst botnlangabólguna og botnlanginn sprunginn. Þið mamma eydduð megninu af sumrinu á sjúkrahúsi Sauðárkróks, en á einhverjum tímapunkti fékkst þú að koma heim en af einhverjum ástæðum þurfti að takmarka vatnsdrykkju þína og var þér sagt að lækurinn hefði þornarð. Það væru búnir að vera svo miklir þurrkar. Þú hafðir nú litla trú á því, það væri þá að minnsta kosti vatn í dýinu fyrir neðan Blákoll.

Já, margs er að minnast þó að ég færi snemma að heiman og borgin togaði líka snemma í atorkusaman strák úr Sléttuhlíðinni, hann Sigmund Franz.

Svo minnist ég þess er þú áttir dag í Héðinsfjarðará. Var ég þá flutt til Akureyrar og þú hringdir, gafst í skyn að gaman væri að koma við um kvöldið á Róðhóli því suður þyrftir þú að komast um kvöldið. Ég mætti á Róðhól og þið komuð um fjögurleytið með öngulinn í rassinum, urðuð ekki varir. Lögðuð ykkur í tvo tíma, steiktur framhryggur á borðum, þú stynur af vellíðan og segir það leynir sér ekki að það er Róðhólsbragð af þessu.

Svo ætla ég að þakka ykkur Ernu fyrir yndisstund á afmælinu mínu í sumar þar sem þú raunar viðurkenndir að kjötsúpan væri góð en saknaðir að það væri ekki hægt að fara í hnútukast (engin bein).

Svo mun ég sakna þess að það hringir enginn bróðir og heilsar ekkert endilega en segir: „er ég að tefja þig, ég vil þér ekkert“. Ég man raunar aldrei eftir því að ég hafi haft það mikið að gera að ég mætti ekki vera að því að tala við þig.

Svo hringi ég á föstudag, þú segist vera slappur. Talast okkur svo til að þú ættir að leita til læknis. Ég hringi svo á laugardag og við spjöllum saman, á sunnudag varstu allur.

Ég sakna þín, bróðir, og vil kveðja þig með fallega ljóðinu sem Kiddi smiður mælti fram eitt júníkvöld er hann leit út um gluggann hjá sér á Skálá:

Sólguðinn ungi hann lausbeislað lét

ljósflæðið skella á bænum.

Húsið á Róðhóli fet fyrir fet

flaut eftir litbrigðar sænum.

Það var eins og sæi í brennandi bál,

það braust út úr sérhverjum glugga.

Er rénaði kætin í sólguðsins sál

þá setti hann bæinn í skugga.

Og þegar var ljósnættið gengið í garð

glamparnir dvínuðu á sænum.

Regnboga stubbur til vegsauka varð

sem lýsandi tákn yfir bænum.

Far vel, vinur

Jóhanna systir.