Gróðureldar í Amazon eru áhyggjuefni, en gífuryrði hjálpa ekki til

Skógareldar í Amazon-regnskóginum urðu óvænt að einu helsta umræðuefni leiðtoga sjö helstu iðnríkja heims þegar þeir funduðu í franska strandbænum Biarritz um helgina. Féllu í aðdraganda fundarins mikil gífuryrði, og hótuðu helstu leiðtogar Evrópusambandsins, þar á meðal Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Donald Tusk, fráfarandi forseti leiðtogaráðs sambandsins, að ekkert yrði úr fríverslunarsamningi Evrópusambandsins og Mercosur, samtaka ríkja í Suður-Ameríku, ef Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, tæki ekki harðar á skógareldunum.

Þrýstingurinn virðist hafa virkað að einhverju leyti og Bolsonaro ákvað um helgina að skipa brasilíska hernum að aðstoða við slökkvistörf.

Engu að síður stóðu öll spjót á forsetanum, þar sem hann og ríkisstjórn hans voru sögð bera ábyrgð á því að um 75.000 skógareldar, mismiklir að stærð og umfangi, hefðu verið tilkynntir það sem af er ári. Er sá fjöldi sagður hafa slegið öll met síðan byrjað var að halda utan um þá tölfræði, en sjaldnast fylgir sögunni að fjöldi skógarelda í Brasilíu var fyrst talinn árið 2013.

Öðru sem flíkað hefur verið í umræðunni er að „lungu“ heimsins séu að brenna, og um leið haldið fram að Amazon-skógurinn framleiði 20% af öllu súrefni jarðarinnar. Þessi tölfræði er vafasöm, svo ekki sé meira sagt, en meira að segja Macron Frakklandsforseti gat ekki stillt sig um að „tísta“ henni á samfélagsmiðlum fyrir helgi. Hin raunverulega tala er nær 6% og segja þeir fræðimenn sem gleggst þekkja til að súrefnisframleiðsla jarðarinnar sé ekki í hættu vegna eldanna.

Þar með er ekki sagt að skógareldarnir séu ekki mikið áhyggjuefni fyrir umhverfið. Þar má fyrst nefna að eldarnir leysa úr læðingi mikið af kolefnum, sem aftur geta ýtt undir gróðurhúsaáhrif. Þá er fjölbreytt lífríki í Amazon-skóginum með um þremur milljónum tegunda dýra og plantna, og tilvist þess er teflt í hættu þegar gengið er á skóginn. Það er því brýnt að það takist að draga úr tíðni skógareldanna. Gífuryrði og skálduð tölfræði hjálpa hins vegar ekki málstað umhverfisins á neinn hátt.