„Við höfum alltaf sagt að við ætlumst ekki til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hlusti á okkur en hann ætti að hlusta á grasrótina, sem vill ekki þriðja orkupakkann,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins, við ummælum...

„Við höfum alltaf sagt að við ætlumst ekki til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hlusti á okkur en hann ætti að hlusta á grasrótina, sem vill ekki þriðja orkupakkann,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins, við ummælum sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, viðhafði á Sprengisandi í gærmorgun. Þar sagðist hann ekki vera búinn að missa alla von um að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafni orkupakkanum.

Gunnar Bragi hefur á tilfinningunni að Sjálfstæðisflokkurinn klofni með einhverjum hætti vegna gríðarlegrar óánægju. Hann segir sárt að horfa á Sjálfstæðisflokkinn sem staðið hafi vörð um sjálfstæði og frelsi Íslands, nálgast Evrópustefnuna æ meir. Gunnar segir ábyrgðina á málinu á hendi Sjálfstæðisflokksins með báða ráðherrana sem leiði för. Gunnar Bragi segist ekki sakna gamla Sjálfstæðisflokksins en það hafi verið gott á árum áður að vita hvar hann stóð. „Umræðunni um þriðja orkupakkan lauk í þinginu í júni og viðhorf þingflokksins að málið sé fullrætt og tilbúið til afgreiðslu hefur ekkert breyst þar sem efnislega hefur ekkert komið fram sem breytt gæti afstöðu okkar,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, um ummæli Sigmundar Davíðs. Birgir segir að þingmönnum sé ljóst að málið sé umdeilt meðal flokksmanna. Mörg þeirra atriða sem fólk hafi áhyggjur af varðandi þriðja orkupakkann séu ekki í pakkanum sjálfum heldur í fyrsta og öðrum pakka og því sem komi í fjórða pakka. Birgir segir samtöl við flokksmenn í sumar gagnleg og nauðsynlegt sé að endurskoða ýmis atriði varðandi orkustefnu.

Birgir vísar „draumórum“ Sigmundar á bug en er þakklátur fyrir umhyggju hans fyrir flokknum.