Herdís Bjarney Steindórsdóttir fæddist 12. desember 1959 í Kópavogi. Hún lést 13. ágúst 2019.

Foreldrar hennar voru Jóhanna María Bjarnadóttir frá Ísafirði og Steindór Marteinsson frá Úlfsdölum í Skagafirði. Þau eru bæði látin. Herdís var yngst þriggja systra. Elsta systirin Guðrún lést 1988 og aðeins er ein þeirra, Guðríður, eftirlifandi.

Herdís ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík og um tíma á Sauðárkróki og svo aftur í Reykjavík. Hún hóf skólagöngu í Árbæjarskóla, síðar á Sauðárkróki og lauk landsprófi frá Skógaskóla.

Hún lauk svo stúdentsprófi frá MH haustið 1978. Öll menntaskólaárin vann hún með skólanum og vegna mikilla veikinda foreldranna var hún á tímabili eina fyrirvinna heimilisins.

Herdís kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, Snæbirni Þór Ingvarssyni frá Kollsvík, árið sem hún útskrifaðist sem stúdent. Þau fluttu til Danmerkur, nánar tiltekið til Árósa á Jótlandi, 1979, þar sem hún lauk námi í kerfisfræði 1982. Þau fluttu til Íslands aftur 1982 og vann Herdís í tvö ár sem kerfisfræðingur hjá Landsbanka Íslands. Þar fæddist þeim elsti sonurinn, Marteinn Þór árið 1981. Marteinn er doktor í sameindalíffræði og hann er kvæntur Wally Bluhm og eru þau búsett í Heidelberg í Þýskalandi. Saman eiga þau börnin Snæbjörn Kára og Emmu Oliviu.

Árið 1984 fluttu þau hjón til Ísafjarðar og þar fæddist þeim dóttirin Lilja Dís árið 1985. Herdís vann þá hjá Pólnum og síðar Pólstækni sem kerfisfræðingur. Lilja er hjúkrunarfræðingur og býr í Kaupmannahöfn ásamt sambýlismanni sínum Teddy Sidelmann Rasmussen.

Árið 1987 lá leiðin aftur suður. Herdís hóf störf sem kerfisfræðingur hjá Eimskipafélagi Íslands þar sem hún starfaði á annan áratug. Síðar vann hún hjá ýmsum hugbúnaðarhúsum. 1994 fæddist þeim yngsti sonurinn, örverpið hennar eins og hún sagði, Guðbjartur Mar. Guðbjartur hefur lokið B.Sc. í stjórnmálafræði og er á leið til Japans í M.Sc. í alþjóðastjórnmálafræði.

Fljótlega eftir aldamótin ákvað Herdís að bæta við sig námi og skipta um starfsvettvang. Hún lauk B.Sc. prófi utan skóla í viðskiptafræði hjá HÍ og lét ekki þar við sitja og lauk M.Sc.-prófi, einnig utan skóla, í mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Akureyri. Snæbjörn og Herdís ráku saman fyrirtækið Blikó ehf. og sá Herdís um bókhald fyrirtækisins og fjölskyldunnar til dánardags.

Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 26. ágúst 2019, klukkan 15.

Nú er komið að kveðjustund hjá okkur ástin mín. Eftir 40 ára samveru og þar af 35 ára hjónaband er hún ólýsanlega sár og erfið. Við vorum svo mikið saman og aðskilnaðurinn var aldrei nema tvær til þrjár vikur í einu.

Það er erfitt að festa hugann við að skrifa kveðjuorð þótt af nógu sé að taka þar sem ég og börnin eigum fjársjóð minninga um þig. En hugurinn er núna tættur og óskipulagður. Já, og talandi um skipulag þá var það nokkuð sem þú sást um þannig að yfirleitt þurfti ekki að leita að nokkrum hlut. Núna þegar við vorum að skoða myndir frá fyrri árum gengum við að öllu skipulögðu með dagsetningum og útskýringum. Það eina sem var að var það að þig vantaði svo oft á myndirnar þar sem þú hafðir séð um myndatökuna.

Við fjölskyldan vorum alltaf í fyrirrúmi hjá þér. Jafnvel á tíðum ferðalögum þínum út um heiminn vegna vinnunnar hjá Eimskip varst þú til staðar. Lilja minnist enn þegar hún var að bíða eftir „talsambandi við útlönd“ og hlustaði á sjóinn á meðan hún beið. Já, þau njóta þess svo sannarlega ennþá börnin okkar enn í dag hve góður grunnur var lagður í heimanáminu og heimakennslunni og oft kom fyrir að fleiri börn voru í tíma hjá þér. Og þó að börnin væru farin að dreifast um heiminn nutu þau enn handleiðslu þinnar í stóru og smáu.

Nú á síðustu árunum leið þér best á Spáni og talaðir um að þú ætlaðir helst ekki að vera fleiri vetur á Íslandi – við munum sjá um það að finna dufti þínu fallegan stað þar.

Þú áttir þína sterku og innilegu trú á Jesú Krist og á annað og betra líf eftir dauðann.

Hvíldu í friði, vina mín.

Þinn að eilífu,

Snæbjörn.

Elsku mamma. Ég trúi því ekki ennþá að þú sért ekki hjá okkur lengur. Hvern á ég að hringja í til að hjálpa mér með lambalærið, eða þegar ég þekki ekki blóm eða plöntu – þá hringdi ég hiklaust í þig. Þú varst með svörin við öllu fannst mér, og ef þú vissir það ekki þá fannstu út úr því. Engin getur huggað eins og þú. Sama hvað amaði að þá gastu fengið mig til að brosa og horfa á björtu hliðarnar – með hæfilegum skammti af kæruleysi – eins og þér einni var lagið.

Ég hef oft hugsað af hverju aldrei var talað um kvenréttindi heima, þar sem þú jú vannst lengi í algjörri karlaveröld og þurftir svo sannarlega að hrópa hærra en karlarnir til að fá sömu athygli. En ég skildi það síðan, kvenréttindi og jafnrétti var svo innilega sjálfsagður hlutur að það var ekki einu sinni þess virði að tala um. Það var ekkert sem bræður mínir gátu sem ég gat ekki. Samt sem áður kenndirðu mér líka hversu innilega stolt ég átti að vera af því að vera kona, við getum allt ef viljinn er fyrir hendi.

Elsku mamma, í svo mörg ár skildi ég ekki sjúkdóminn þinn. Hann gerði mig svo reiða.

Ég lofa þér, elsku mamma, að ég mun passa vel upp á kroppinn minn – eins og þú sagðir svo oft. Ónýta bakið þitt, með ólýsanlegum verkjum endalaust, gerði þér lífið svo leitt. En sama hvað amaði að þá gekkstu hnarreist og stolt – enginn sá verkina þína.

Nú ertu verkjalaus, elsku mamma. Ég sé þig fyrir mér í faðmi Gunnu, Steindór‘afa og Hönn‘ömmu.

Ég hitti þig hinum megin, elsku mamma.

Ég skal mála allan heiminn elsku mamma,

eintómt sólskin, bjart og jafnt.

Þó að dimmi að með daga kalda og skamma,

dagar þínir verða ljósir allir samt.

Litlu blómin, sem þig langar til að kaupa,

skal ég lita hér á teikniblaðið mitt.

Ég skal mála allan heiminn elsku mamma,

svo alltaf skíni sól í húsið þitt.

(Hinrik Bjarnason)

Liljan þín,

Lilja Dís.