Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Fasteignasalar einir munu geta selt félög þar sem megineign er fasteign eða fasteignir, verði áform stjórnvalda um breytingu á lögum um sölu fasteigna og skipa að veruleika.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Fasteignasalar einir munu geta selt félög þar sem megineign er fasteign eða fasteignir, verði áform stjórnvalda um breytingu á lögum um sölu fasteigna og skipa að veruleika. Í samráðsgátt stjórnvalda er málið kynnt og er fyrrnefnd tillaga meðal breytinga sem helst er fjallað um í fimm umsögnum sem bárust um málið. Samráði er lokið og eru niðurstöður þess nú í vinnslu.

Einkaréttur fasteignasala á sölu fyrirtækja var afnuminn árið 2015, en í samráðsgátt kemur fram að nokkur atriði þarfnist endurskoðunar. Meðal annars geti verið til staðar hætta á peningaþvætti við sölu félaga þegar fasteignir eru megineign umræddra félaga.

Rökin fyrir breytingunni eru að fasteignasalar séu tilkynningaskyldir samvkæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Stór hluti bundinn í fasteignum

Meðal þeirra sem gagnrýna þessi áform eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök fjármálafyrirtækja, laganefnd Lögmannafélags Íslands og endurskoðunarfyrirtækin Deloitte og KPMG. Viðskiptaráð segir vandséð hvernig fasteignasalar eigi á þessum grundvelli að öðlast einkarétt til sölu umræddra félaga þar sem þeir séu langt frá því eina stéttin sem sé tilkynningarskyld þegar komi að peningaþvætti. Í þeim hópi séu meðal annars fjármálafyrirtæki, lögmenn, endurskoðunarfyrirtæki, endurskoðendur, leigumiðlarar, aðilar á sviði fjárvörslu og fyrirtækjaþjónustu o.fl.

Viðskiptaráð bendir á að horft sé fram hjá því að fasteignasalar öðlist mögulega einkarétt á sölu margra íslenskra fyrirtækja sem standi ekki beinlínis í fasteignarekstri.

„Fasteignamat atvinnuhúsnæðis fyrir árið 2019 var 1.116 milljarðar króna og til samanburðar voru allir rekstrarfjármunir allra fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu metnir á 3.327 milljarða króna árið 2017,“ segir í umsögn Viðskiptaráðs. Því megi varlega áætla að um þriðjungur allra rekstrarfjármuna íslenskra fyrirtækja sé fólginn í fasteignum. Í ljósi þess hve hátt hlutfallið sé, sé ekki hægt að útiloka að einkarétturinn nái til fyrirtækja sem vill svo til að eiga stóran hluta fjármuna sinna bundinn í fasteign en stundi og hafi tekjur fyrst og fremst af annarri starfsemi en rekstri fasteigna.