Í Smáranum Alexandra Jóhannsdóttir skoraði síðara mark Breiðabliks gegn Stjörnunni í gær.
Í Smáranum Alexandra Jóhannsdóttir skoraði síðara mark Breiðabliks gegn Stjörnunni í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smárinn/Árbær/Keflavík/Akureyri Stefán Stefánsson Edda Garðarsdóttir Skúli B. Sigurðsson Einar Sigtryggsson Blikakonur létu hressilega haustlægð ekki slá sig útaf laginu þegar þær fengu Stjörnuna í heimsókn í 15.

Smárinn/Árbær/Keflavík/Akureyri

Stefán Stefánsson

Edda Garðarsdóttir

Skúli B. Sigurðsson

Einar Sigtryggsson

Blikakonur létu hressilega haustlægð ekki slá sig útaf laginu þegar þær fengu Stjörnuna í heimsókn í 15. umferð Pepsí Max deildar kvenna í gær og unnu sannfærandi 2:0 sigur, sem er þeim afar nauðsynlegur til að verja Íslandsmeistaratitil sinn því Valskonur eru með tveimur stigum meira nú þegar þrjár umferðir eru eftir af mótinu.

Breiðablik byrjaði með látum þar sem Agla María Albertsdóttir og Karólína Lea létu vörn Stjörnunnar hafa nóg að gera en mörkin létu á sér standa fram að 20. mínútu þegar Agla María afgreiddi frábæra sendingu Karólínu í netið. Garðbæingar voru þó alveg með í leiknum og fengu nokkur færi þegar vörn Blika brást en þegar leið á leikinn tóku heimakonur leikinn að mestu yfir.

„Við elskum svona veður, uppáhalds veðrið okkar og við fengum góð þrjú stig. Þær komu með nýtt kerfi og við keyrðum bara á þær, náðum góðu marki í fyrri hálfleik og spiluðum mjög vel,“ sagði Karólína Lea eftir leikinn en hún átti mjög góða spretti í leiknum.

Spurð hvort fjöldi marka skipti máli eða hvort hugurinn sé örlítið að spá í mikilvægan leik við Val í 17. umferð, sem gæti skilið milli feigs og ófeigs, þvertók Karólína fyrir það.

„Við vitum að Valur er rétt á undan okkur en erum ekkert að einblína á það, við einbeitum okkur bara að okkar leik og sjáum hvað það gefur okkur. Við erum ekkert að spá í mörkin, förum bara í alla leiki til að ná í þrjú stig og ekkert annað.“

Ekki vantaði færin hjá Blikakonum og flest fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir en henni virtist fyrirmunað að hitta markið. Eitthvað sem gæti skipt máli síðar ef markatalan fer að skipta máli. Sagan segir að lið hafa fallið, farið upp um deild eða unnið deild á markamun. Ef hinsvegar þjálfara og leikmönnum tekst að halda einbeitingunni og fara ekki framúr sér, eins og Þorsteinn þjálfari Blikakvenna sagði, þá er allt mögulegt.

Stjarnan, sem komst á gott skrið í byrjun móts, varð að sætta sig við að færast niður í 7. sæti eftir tapið. stes@mbl.is

Skemmtileg spilamennska Vals

Fylkiskonur mættu öflugar til leiks þegar þær mættu toppliði Vals í gærdag. Varnarskipulagið var gott, þéttleikinn mikill og voru þar af leiðandi duglegar að stela boltum af Valstám, sérstaklega á miðsvæðinu. Framan af náðu þær Ída Marín, Bryndís Arna ásamt Radojicic og Þórdísi Elvu að tengja vel og sköpuðu usla í varnarlínu Vals. Það þurfti tæpan rangstöðudóm til að trekkja öflugustu sóknarlínu landsins í gang. Elín Metta virðist óstöðvandi í vítateigum andstæðinganna og ef þeir reyna að stöðva hana þá koma kollegar hennar í sóknarleiknum askvaðandi með knöttinn og skapa hættu úr öllum áttum. Frísk Fanndís lagði upp fyrstu tvö mörk Elínar Mettu með því að vaða upp kantinn inn að endalínu og leggja hann út á markteigslínu. Í millitíðinni átti Margrét Lára fullkomna sendingu inn fyrir á Hlín sem þurfti lítið annað að gera en að leggja boltann í markið. Staðan var 0:3 í hálfleik og Valur með fullt vald á leiknum, héldu boltanum vel og gáfu ekki færi á sér.

Seinni hálfleikur byrjaði með mótspyrnu Fylkis en það nægði ekki. Margrét Lára átti fallega krullu í slána við klukkutímamarkið en var litlu seinna svo almennileg að leggja upp mark fyrir Elísu systur sína sem skoraði með langskoti úr vítateig 0:4. Fanndís lagði svo upp í þriðja sinn með því að spretta niður að endalínu og leggja boltann út í teig, í þetta sinn á Hlín sem kláraði einsog sá sem valdið hefur 0:5. Stuttu seinna kemur langur og hár bolti af miðjunni á varnarlínu Vals sem Lillý misreiknar hroðvirknislega og misskilningur verður í vörninni eftir þetta sem Radojicic nýtir sér til fulls og minnkar muninn. Það hægðist mikið á leiknum eftir þetta mark og tilraunir beggja liða til að skora voru bragðdaufar.

Undir blálokin sneri hin serbneska Vesna Smiljkovic aftur til leiks fyrir Val en hún spilaði síðast í september 2017. Valsliðið spilar stöðugan og skemmtilegan bolta með því að nýta töfra Dóru Maríu og útsjónarsemi Margrétar Láru í sóknarleiknum, nýta alla leikmenn í varnarleiknum og án efa með besta markmanninn á Íslandi í dag. eddagardars@gmail.com

Lánleysið algert

Keflavík og KR mættust á Nettóvellinum í Keflavík þar sem suðvestan rok og blautt veður setti svip sinn leikinn. Keflavík hafði í fyrri umferðinni sigrað KR 4:0 í vesturbænum og því áttu KR harma að hefna. Þrátt fyrir það voru KR taldar sigurstranglegri fyrir leik þar sem ansi laskað lið Keflavíkur mætti til leiks. Natasha Anasi, Sophie Groff og Katla Þórðardóttir voru allar í banni vegna gulra spjalda og þá höfðu Aníta Lind Daníelsdóttir og Ísabel Almarsdóttir haldið til Bandaríkjanna í nám. Telur þetta 5 byrjunarliðsmenn liðsins megnið af sumrinu.

KR hófu leik af krafti og sóttu hart að marki Keflavíkur og skoruðu fljótlega. Gegn gangi leiksins skoruðu og jöfnuðu Keflavík með skyndisókn. Það var svo vítaspyrna í seinni hálfleik sem Katrín Ómarsdóttir skoraði úr sem skildi liðin að lokum og dýrmætur sigur KR í botnbaráttunni staðreynd. Keflavík stendur hinsvegar eftir í ansi erfiðri stöðu og án kúvendingar í þeirra leik blasir fátt annað en fall úr Pepsideildinni við hjá þeim. Sem er í raun heldur sorglegt því liðið hefur á köflum leikið feikna vel í sumar en lánleysið algert. KR tryggði sér ákveðið svigrúm til að njóta afgangsins af mótinu með þessum sigri en mun þó aldrei gera neitt meira en að sigla lygnan sjó. En staðan er einnig þannig að úr lygnum sjó gæti komið brotsjór.

skulibsig@mbl.is

Selfoss upp fyrir Þór/KA

Þór/KA og Selfoss höfðu sætaskipti í Pepsi Max-deild kvenna í gær. Liðin áttust við á Akureyri og hafði Selfoss sigur, 2:1. Sem stendur er Selfoss í þriðja sæti en Þór/KA í því fjórða.

Þegar á heildina er litið þá var sigur Selfyssinga sanngjarn þrátt fyrir að Þór/KA hafi verið í sókn stóran hluta leiksins. Það vantaði alla yfirvegun í leik heimakvenna og á köflum í fyrri hálfleik náðu norðankonur varla að senda boltann á samherja. Þrátt fyrir það þá fengu þær þrjú algjör dauðafæri sem ekki nýttust. Sunnankonur voru heppnar að lenda ekki undir áður en þær fengu sín færi. Þeim tókst að nýta tvö þeirra og svaf vörn Þórs/KA illa á verðinum í báðum tilvikum. Staðan var 2:0 í hálfleik og Þór/KA varð að blása til sóknar í seinni hálfleik. Norðankonur gerðu það en asi og agaleysi einkenndi sóknarleik þeirra, sem gerði það að verkum að lítið kom út úr honum. Selfyssingar lágu með sitt lið aftarlega á vellinum og áttu ekki í teljandi erfiðleikum. Þór/KA minnkaði muninn þegar kortér lifði leiks en komst ekki lengra og Selfoss fagnaði innilega í leikslok.

Það var eitthvert slen yfir öllum leikmönnum Þórs/KA. Sumarið hefur skilað litlu öðru en vonbrigðum á meðan stemningin er mikil hjá Bikarmeisturum Selfyssinga. Þar sýndu leikmenn vilja og baráttu og uppskeran var eftir því. einar@ma.is

FYLKIR – VALUR 1:5

0:1 Elín Metta Jensen 26.

0:2 Hlín Eiríksdóttir 30.

0:3 Elín Metta Jensen 37.

0:4 Elísa Viðarsdóttir 62.

0:5 Hlín Eiríksdóttir 69.

1:5 Marija Radojicic 70.

Gul spjöld

Margrét Björg Ástvaldsdóttir (Fylki), Elísa Viðarsdóttir (Val).

Dómari : Arnar Þór Stefánsson, 8.

Áhorfendur : 210.

MM

Elín Metta Jensen (Val)

M

Ída Marín Hermannsdóttir (Fylki)

Þórdís Elva Ágústsdóttir (Fylki)

Dóra María Lárusdóttir (Val)

Fanndís Friðriksdóttir (Val)

Hlín Eiríksdóttir (Val)

Margrét Lára Viðarsdóttir (Val)

ÞÓR/KA – SELFOSS 1:2

0:1 Grace Rapp 29.

0:2 Magdalena Anna Reimus 44.

1:2 Stephany Mayor 74.

Gul spjöld

Anna María Friðgeirsdóttir (Selfossi).

Rauð spjöld

Engin.

Dómari : Kristinn F. Hrafnsson, 8.

Áhorfendur : Ekki gefið upp.

M

Arna Sif Ásgrímsdóttir (Þór/KA)

Barbára Sól Gísladóttir (Selfossi)

Halla Helgadóttir (Selfossi)

Cassie Lee Boren (Selfossi)

Allison Murphy (Selfossi)

Magdalena Anna Reimus (Self.)

BREIÐABLIK – STJARNAN 2:0

1:0 Agla María Albertsdóttir 20.

2:0 Alexandra Jóhannsdóttir 60.

Gul spjöld

Kristín Dís Árnadóttir (Breiðabliki), María Eva Eyjólfsdóttir (Stjörnunni).

Dómari : Gunnar F. Róbertsson, 8.

Áhorfendur : 182.

M

Agla María Albertsdóttir. (Breið.)

Heiðdís Lillýardóttir (Breiðabliki)

Karólína Lea Vilhjálmsd. (Breið.)

Kristín Dís Árnadóttir (Breiðabliki)

Hildigunnur Ýr Benediktsd. (Stjör.)

Sóley Guðmundsdóttir (Stjörn.)

Anna María Baldursd. (Stjörnunni)

KEFLAVÍK – KR 1:2

0:1 Grace Maher 8.

1:1 Amelía Rún Fjeldsted 35.

1:2 Katrín Ómarsdóttir 78. (víti)

Gul spjöld

Maired Fulton, Sveindís Jane Jónsdóttir (Keflavík), Hugrún Lilja Ólafsdóttir, Katrín Ómarsdóttir (KR).

Dómari : Ásmundur Þ. Sveinsson, 8.

Áhorfendur : Óuppgefið.

M

Amelía Rún Fjeldsted (Keflavík)

Aytac Sharifova (Keflavík)

Maired Fulton (Keflavík)

Gloria Douglas (KR)

Guðmunda Brynja Óladóttir (KR)

Katrín Ómarsdóttir (KR)

Tijana Kristic (KR)