Sem betur fer eru flestir þeirrar skoðunar að allir eigi að njóta mannréttinda og þar séu engar undantekningar. Í tillögum stjórnlagaráðs var langur listi.

Sem betur fer eru flestir þeirrar skoðunar að allir eigi að njóta mannréttinda og þar séu engar undantekningar. Í tillögum stjórnlagaráðs var langur listi. Ekki skyldi mismuna á grunni „kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Gott fólk er sammála þessari hugsun. En hvaða réttur er heilagri en rétturinn til atvinnu og virðingar?

Stórt skref í jafnréttismálum var stigið þegar frumvarp Viðreisnar um jafnlaunavottun var samþykkt. Sífellt erum við minnt á að útrýma fordómum vegna fötlunar, kynhneigðar og litarháttar. Aldursfordómar lifa þó enn góðu lífi og lítið spornað við þeim.

Nýleg dæmi eru um að í umræðu í samfélaginu sé gert lítið úr andstæðingunum vegna þess að þeir séu „rugluð gamalmenni“. Er ekki nóg að segja að þeir séu ruglaðir , ef velja þarf niðrandi lýsingu? Sjálfum varð mér það á í fyrra að tala um ógeðslega gamla karla sem gerðu lítið úr konum sem höfðu orðið fyrir kynferðisárásum. Þarna var ég með enska hugtakið Dirty old men í huga, en auðvitað var nóg að tala um ógeðslega karla, ef ég vildi á annað borð fara á þetta plan. Ég fékk vinsamlega ábendingu um orðfærið, en ekki þá holskeflu sem ég átti skilið, eins og gerst hefði ef ég hefði vísað í kynhneigð eða litarhátt karlanna.

Sagt er í gríni að fólk sem er orðið 67 ára sé þar með „löggilt gamalmenni“. En öllu gamni fylgir nokkur alvara. Ástæðan er sú að við þennan aldur öðluðust margir rétt til þess að taka lífeyri frá Tryggingastofnun.

En talan 67 er núna ekkert annað en tala. Hjá bæði TR og lífeyrissjóðum er hægt að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun, eða flýta til 65 ára aldurs gegn lækkun. Það er engin heilög tala í ellilífeyri.

Önnur tala og alvarlegri er 70 ár. Þá er fólki sem vinnur hjá ríkinu ýtt út af vinnumarkaði. Bankar hafa jafnvel miðað við 65 ára ellilífeyrisaldur. Sú viðmiðun nær þó ekki til bankaráða sem er illskiljanlegt, því að ef fólk hefur ekki lengur andlega burði til þess að vinna í banka, hvernig getur það stjórnað honum?

Algengt er að þeir sem hafa misst vinnu á almennum vinnumarkaði verði leiðsögumenn fyrir erlenda ferðamenn sem er auðvitað hið besta mál. En hvers vegna mátti fólkið ekki einfaldlega nýta þekkingu sína þar sem það hafði unnið megnið af ævinni?

Auðvitað á að miða við hæfni til starfa en hvorki aldur, kyn, litarhátt né nokkuð annað. Viðreisn vill afnema þvinguð starfslok vegna aldurs, þannig að þeir sem vilja og geta haldi sínu striki án tillits til fjölda afmælisdaga.

Hættum að stimpla fólk sem löggilt eða rugluð gamalmenni. Berum virðingu fyrir öllum, óháð aldri.

Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.