Collin Pryor
Collin Pryor — Morgunblaðið/Eggert
Körfuknattleiksdeild ÍR hefur gengið frá samningi við íslenska landsliðsmanninn Collin Pryor. Collin lék síðast með Stjörnunni og var þar í tvö ár, en hann hefur einnig spilað með FSu og Fjölni hér á landi.

Körfuknattleiksdeild ÍR hefur gengið frá samningi við íslenska landsliðsmanninn Collin Pryor. Collin lék síðast með Stjörnunni og var þar í tvö ár, en hann hefur einnig spilað með FSu og Fjölni hér á landi.

Collin varð deildar- og bikarmeistari með Stjörnunni en liðið tapaði einmitt fyrir ÍR í undanúrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð.

Landsliðsmaðurinn er þriðji leikmaðurinn sem ÍR fær til sín á skömmum tíma. Félagið samdi við svissneska landsliðsmanninn Roberto Kovac og Bandaríkjamanninn Evan Singletary á dögunum.

Á hinn bóginn hefur ÍR misst Matthías Orra Sigurðarson, Sigurð Þorsteinsson, Kevin Capers og fyrirliðann Sigurkarl Jóhannesson. Gífurlega miklar breytingar hafa því orðið á leikmannahópi liðsins á milli tímabila.

Collin Pryor er af bandarísku bergi brotinn en hefur búið hérlendis í mörg ár og er kvæntur íslenskri konu. Hann fékk ríkisborgararétt fyrir rúmu ári. sport@mbl.is