Ingólfi Ómari segist svo frá: „Skrapp í Skagafjörð og dvaldi þar eina viku og þá varð þessi til um fjallið Glóðafeyki sem mér finnst svo tignarlegt“: Dröngum gyrtur himinhár héraðsjöfur fríði, Glóðafeykir fagurblár fáguð drottins smíði.

Ingólfi Ómari segist svo frá: „Skrapp í Skagafjörð og dvaldi þar eina viku og þá varð þessi til um fjallið Glóðafeyki sem mér finnst svo tignarlegt“:

Dröngum gyrtur himinhár

héraðsjöfur fríði,

Glóðafeykir fagurblár

fáguð drottins smíði.

Svo gerði ég þessa eftir að ég kom suður eitt kvöldið þegar sólin var að setjast, himindýrðin var svo fögur og veðrið var kyrrt og milt og ládauður sjór:

„Skærum logum skýjahöll

skreytir himinvegi,

aftanblikið baðar fjöll

blundar hrönn á legi.“

„Óvænt heimsókn,“ segir Guðmundur Arnfinnsson á Boðnarmiði. „Sólarlagið í gær var óvenju fagurt, þegar kvöldsólin myndaði breiða geislarák á sjónum:“

Sólin boðar svefnsins ró

senn til viðar hnígur,

rauðan borða á djúpið dró,

Drottinn á hann stígur.

Pétur Stefánsson var líka í sólskinsskapi:

Förum um með friði og spekt,

fjarri grimmd og reiði

því veðrið er gott og glæsilegt

með glampandi sól í heiði.

Helgi Ingólfsson yrkir af því tilefni að Trump hætti við heimsókn sína til Danmerkur þar sem kaup á Grænlandi yrðu ekki rædd:

Nú Danir, svo leiðir og lens,

lúta, því Trump bremsar skrens.

En annars fæst veiði,

á Íslandi er heiði

seld fyrir sosum 1 pence.

Helgi hélt síðan áfram með þeirri athugasemd að gárungarnir segðu að Trump hefði ætlað að senda 50 cent í Tívolí sem fyrstu útborgun fyrir Grænland:

Að Grænlandi gaman vér hentum,

í gangsteraklóm samt við lentum.

Nú bregðumst við stappi

og bófanna rappi:

Þeir borga í 50 centum.

Indriði Aðalsteinsson segir ekki von á góðu:

Bandaríkja djúpt er díki.

Djöflast karl þar enn.

Vont er þegar voldug ríki

velja svona menn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is