Fjölskylda Francisco, Ricardo, Sofia, Ólafur og Diego, í Chicago 2014, yngsta systirin Victoria var ekki fædd þá.
Fjölskylda Francisco, Ricardo, Sofia, Ólafur og Diego, í Chicago 2014, yngsta systirin Victoria var ekki fædd þá.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Ólafur Rowell hafði það alltaf á tilfinningunni að hann væri ekki skandinavískur þrátt fyrir íslenska móður og sænskan föður. Ólafur, sem er 36 ára, fæddist á Íslandi árið 1983.

Viðtal

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Ólafur Rowell hafði það alltaf á tilfinningunni að hann væri ekki skandinavískur þrátt fyrir íslenska móður og sænskan föður.

Ólafur, sem er 36 ára, fæddist á Íslandi árið 1983. Móðir hans, sem búið hafði með íslenskum foreldrum í Bandaríkjunum, fór í nokkurra vikna sumarskóla til Þýskalands, þá 19 ára gömul. Hún þurfti einingar í þýsku til að fá inngöngu í hjúkrunarnám á Íslandi.

Á meðan á dvölinni stóð var hún í sambandi við ungan mann frá Ekvador, Francisco að nafni. Eftir að hann lauk námi og fór til síns heima hóf móðirin samband við sænskan mann, Magnus að nafni. Að sumarnámi loknu fór móðir Ólafs til ömmu sinnar á Íslandi og komst hún fljótlega að því að hún væri barnshafandi. Í hennar huga var enginn vafi á að sá sænski væri faðirinn. Hún lét hann vita og skilaboð frá hans hendi voru skýr; honum kom málið ekki við, vildi ekkert með barnið hafa og helst að þungunin yrði rofin.

„Mamma var eitthvað hrædd við að láta foreldra sína í Bandaríkjunum vita af þunguninni og bað ömmusystur mína að láta vita. Hún ákvað að hringja í pabba hennar af því að hún bjóst við að hann tæki fréttunum betur. En það var ekki, afi fékk hálfgert áfall en amma taldi kjark í mömmu,“ segir Ólafur, sem bjó með móður sinni á heimili langömmu sinnar fyrstu tvö ár ævinnar. Hann segir langömmu hafa verið hans besti vinur.

„Afi var föðurímyndin“

„Mamma var ung þegar hún átti mig en hún er hörð af sér. Við höfðum ekki mikið á milli handanna þegar mamma var í námi, en hún sá alltaf til þess að ég fengi nægan mat en stundum var það á hennar kostnað,“ segir Ólafur, sem hlaut mikinn stuðning frá ömmu sinni og afa sem hann heimsótti oft til Bandaríkjanna. Eftir að þau fluttu til Íslands tóku þau mikinn þátt í uppeldi hans.

„Afi var mín föðurímynd en hann dó 58 ára þegar ég var 10 ára,“ segir Ólafur sem er sáttur við góða barnæsku þar sem hann skorti hvorki ást né umhyggju. Hann segist hafa suðað í móður sinni í kringum 10 ára aldurinn um að fá að sjá mynd af Magnusi ef slík mynd væri til. Móðir hans hefði einu sinni sýnt honum mynd af manni sem var dökkhærður og með sólgleraugu en lítið hafi verið á þeirri mynd að græða. Ólafur segir faðernið hafa verið viðkvæmt umræðuefni. Móðir hans sé krabbi og þegar hún hafi ákveðið eitthvað verði því ekki haggað. Móðir hans hafi ekki viljað tala um Magnus og sagt að Ólafur væri sonur sinn og um það væri ekki meira að segja.

„Ég hef heyrt það að faðir Magnusar hafi komið til Íslands þegar ég var á fyrsta ári og hitt mig, en skömmu eftir heimsóknina veiktist hann og dó,“ segir Ólafur, en að sögn hans er móðir hans ekki hrifin af umfjöllun um faðerni hans. Hann vilji samt sem áður segja sína sögu.

Upplifði ekki höfnun

Ólafur upplifir ekki höfnun af hendi hins sænska Magnusar Rowell sem móðir hans sagðist ekki vera í neinum vafa um að væri faðir hans.

„Magnus hafði aldrei séð mig eða kynnst mér þegar hann ákvað að vilja ekki sinna föðurhlutverki sínu. Ég nota enn nafnið Rowell vegna þess að það er á mörgum skjölum og prófskírteinum en Magnusson nafnið tók ég út. Ef atburðarásin hefði verið önnur hefði ég kannski upplifað höfnun,“ segir Ólafur sem eignaðist tvo fósturfeður sem voru honum góðir. Með þeim seinni þeirra fylgdu tveir stjúpbræður og síðar tvö hálfsystkini.

„Móðursystir mín var stundum að ýja að því að það gæti verið að ég ætti annan pabba. En ég tók lítið mark á því. Nokkru eftir að langamma dó og farið var í gegnum dótið hennar, hringdi systir ömmu í mig og bað mig að hitta sig. Ég fór til hennar og hún sýndi mér bréf, einhverskonar ástarbréf, frá manni sem þá var við nám í Chicago og hét Francisco. Með bréfinu fylgdi mynd af manni um tvítugt. Þegar ég sá hana fannst mér ég horfa á sjálfan mig á sama aldri. Hann var dekkri en ég, en að öðru leyti fannst mér hann alveg eins,“ segir Ólafur sem skildi þá af hverju hann upplifði sig ekki sem Skandinava. Hann segist verða brúnn á öðrum degi í sólarlanda-ferðum og hætti að nota sólarvörn á þriðja degi. Auk þess sem augu hans séu brún og skipti litum.

Reyndi að hafa samband

Í bréfinu sem Ólafur fékk að sjá án vitneskju móður sinnar kom fram að ungi maðurinn frá Ekvador hafði reynt að hringja til Íslands en í hvert skipti svaraði kona sem skildi ekki ensku. Með bréfinu fylgdi líka mynd af Francisco og móður hans. Á bakhlið bréfsins var ritað heimilisfang sendanda.

„Nú var komið að þætti dóttur ömmusystur minnar og enn vissi móðir mín ekkert hvað var í gangi. Við leituðum á öllum samskiptamiðlum að Francisco í Chicago. Fyrir tilviljun fundum við út að heimilisfangið aftan á umslagi bréfsins var nálægt háskóla í Illinois,“ segir Ólafur og bætir við að frænka hans hafi fundið á heimasíðu skólans frásögn Francisco eftir að hann lauk námi um það hvernig var að vera í skólanum. Hann hafi einnig sagt frá því hvað hann hefði gert frá því að hann hætti í skólanum og að hann væri á leið til Ekvador að stofna fyrirtæki með föður sínum og nefndi nafn fyrirtækisins.

Kynntist þú íslenskri konu?

„Ég bað frænku mína að senda póst á fyrirtækið og hafa mig í „BCC“ svo ég gæti fylgst með samskiptunum. Í fyrsta póstinum árið 2012 spurði frænka mín hvort maður að nafni Francisco Cucalon starfaði hjá fyrirtækinu. Í öðrum pósti spurði hún hvort viðtakandi hefði kynnst íslenskri konu í Þýskalandi 1982. Francisco svaraði, daginn eftir, að hann kannaðist við það. Fyrstu viðbrögð voru að hann hélt að það væri verið að biðja hann um að koma henni á óvart í afmælisveislu,“ segir Ólafur og bætir við að eftir nokkra pósta segi frænkan frá því að hann eigi að öllum líkindum son á Íslandi. „Hann fær smá áfall, því hann taldi sig aðeins eiga þrjú börn í Ekvador sem hann hafði lagt allt kapp á að hugsa vel um. Á þeim tíma var hann að standa í skilnaði og bað um að þetta yrði ekki upplýst fyrr en að honum loknum,“ segir Ólafur sem komst í tölvupóstsamskipti við hugsanlegan föður sinn í október 2012. Þar sem Francisco var á leið í viðskiptaferð til Evrópu stakk hann upp á því að koma við á Íslandi og stoppa þar í einn sólarhring svo þeir gætu farið í blóðprufur saman, hann myndi greiða 150.000 kr. kostnað við prufurnar. Ólafur samþykkti og segir að tilfinningin hafi verið eins og að hitta gamlan vin þegar þeir hittust.

Nokkrum vikum síðar kemur í ljós að líkindi á skyldleika þeirra séu 99,999, sem séu hæstu líkur.

„Við pabbi erum báðir hæstánægðir með þetta en pabba gremst örlítið að hafa misst af öllum árunum í mínu lífi, því hann er faðir sem lifir fyrir börnin sín,“ segir Ólafur sem fór í boði föður síns til Ekvador árið 2013 þar sem hann hitti ömmu sína, systur og son hennar. Auk þess sem faðir hans gekk frá því að hann yrði löglegur erfingi og sótti um banda-rískan ríkisborgararétt fyrir hann. Bræður hans fengu ekki að kynnast honum fyrr en skilnaður við eiginkonu föður hans var um garð genginn. Feðgarnir flökkuðu um Ekvador og Ólafur segir að tilfinningin hafi verið eins og að þarna ætti hann heima. Ólafur hefur farið aftur til Ekvador og einnig hitt föður sinn í Miami, Chicago og London. Einnig hefur faðir hans komið aftur í heimsókn til Íslands, eldri systir hans hefur komið í heimsókn og eldri bróðir hans líka. Ólafur segir að faðir hans hafi gifst aftur og eignast dóttur með seinni eiginkonunni. Þá segist Ólafur vel getað hugsað sér að flytja til Ekvador og að hann gæti ekki verið heppnari með föður.