Nýtt kjarnorkuver Rússa vekur umtal

Rússneska skipið Akademik Lomonosov hélt úr heimahöfn í Múrmansk á föstudag til norðausturhluta Síberíu. Sigling skipsins um heimskautahöfin væri ef til vill ekki í frásögur færandi nema fyrir þá sök, að um borð er kjarnorkuver, og hyggjast Rússar nota það til að framleiða rafmagn fyrir afskekktari byggðir hins víðáttumikla lands.

Viðbrögðin við þessu tiltæki Rússa hafa verið blendin, en umhverfisverndarsamtök á borð við Greenpeace hafa meðal annars vísað í bæði Tsjernóbíl-slysið og jómfrúsiglingu Titanic til þess að vara við þeim hættum sem fylgja starfsemi hins fljótandi kjarnorkuvers. Er það ekki síst ákvörðun rússnesku kjarnorkumálastofnunarinnar Rosatom, um að úrgangurinn úr verinu verði geymdur um borð sem hefur vakið ugg um að færi eitthvað úrskeiðis, gæti það haft mikil og alvarleg áhrif á lífríki norðurslóða.

Þá er líka umhugsunarefni, að skipinu er ætlað að starfa á slóðum þar sem veðurfar er mislynt og ótryggt, og engir innviðir til hreinsunar- og björgunarstarfa eru til staðar. Vert er að gefa öllum slíkum áhyggjum góðan gaum, en á sama tíma má hafa í huga, að kjarnakljúfarnir um borð í Lomonosov eru ekki mikið stærri en þeir sem þegar eru notaðir um borð í sumum kjarnorkuknúnum skipum, þar á meðal ísbrjótum, sem Rússar nota nú á þessum slóðum.

Frá sjónarhóli rússneskra stjórnvalda er það því kannski stigsmunur frekar en eðlismunur hvert orkunni er beint, og eflaust er nokkur hagræðing fólgin í því að þurfa ekki að reisa slíkt orkuver á landi. Um leið opnar hið fljótandi kjarnorkuver tækifæri fyrir Rússa á norðurslóðum. Stjórnvöld í Moskvu hafa þegar lýst því yfir að þau hyggist smíða fleiri skip af þessu tagi og nota meðfram norðurströnd Rússlands. Þar mun þeim meðal annars ætlað að knýja olíuborpalla og aðra nýtingu auðlinda í Norður-Íshafi.

Fylgjast þarf grannt með þessari þróun, og eiga Íslendingar ekki síst mikið undir því að fyllsta öryggis verði gætt við þetta framtak Rússa. Beislun kjarnorku getur fylgt mikill ávinningur, en fari eitthvað úrskeiðis geta afleiðingarnar orðið bæði langvarandi og geigvænlegar.