Rakarinn Skagamaðurinn Gísli Jens Guðmundsson spilar og syngur fyrir viðskiptavini ef vill.
Rakarinn Skagamaðurinn Gísli Jens Guðmundsson spilar og syngur fyrir viðskiptavini ef vill. — Morgunblaðið/RAX
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Skagamaðurinn Gísli Jens Guðmundsson er yngsti rakarinn á Akranesi en engu að síður hokinn af reynslu eftir að hafa starfað við iðnina í 29 ár.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Skagamaðurinn Gísli Jens Guðmundsson er yngsti rakarinn á Akranesi en engu að síður hokinn af reynslu eftir að hafa starfað við iðnina í 29 ár.

Eins og algengt er var Gísli óráðinn hvað gera skyldi á yngri árum. „Ég reyndi fyrir mér á sjónum og í ýmsum störfum en svo langaði mig til þess að prófa að vera rakari, skapa eitthvað, dreif mig suður í skólann, fékk samning hjá Hárgreiðslustofunni Permu á Eiðistorgi, líkaði vinnan vel og eftir að hafa starfað í Reykjavík í 17 ár opnaði ég eigin stofu hér á Akranesi og hef notið þess að vinna á heimaslóðum undanfarin 12 ár.“

Áður en Gísli opnaði Hársnyrti- og rakarastofu Gísla réðu Jón Hjartarson og Hinrik Haraldsson hárríkjum á Skaganum. Hann athugaði með að fá vinnu hjá rakara- og hárgreiðslustofunum á Akranesi og þar sem þær voru ekki tilbúnar að bæta við sig fólki á þeim tíma ákvað hann að fara út í sjálfstæðan rekstur. „Ég var orðinn leiður á því að keyra nær daglega í bæinn á morgnana og heim á kvöldin og taldi að nægt rými væri fyrir þriðja hjólið hérna. Það reyndist rétt og það hefur verið æðislegt að hafa þessa eldri rakara í næsta nágrenni. Ég get ekki hugsað mér að þeir fari að hætta enda er þessi þríhyrningur svo menningarlegur og skemmtilegur.“

Tvær flugur í einu höggi

Það sem helst skilur rakarastofur frá hárgreiðslustofum er að menn koma almennt beint inn af götunni á rakarastofu án þess að panta tíma, þótt pantanir séu líka í heiðri hafðar. Margir koma eingöngu til þess að spjalla, hanga á húninum á morgnana þar til opnað er, fá sér kaffisopa og leggja línurnar fyrir daginn. „Svona er þetta á rakarastofum víða um heim og þessar samræður og rökræður gera starfið og lífið bara skemmtilegra,“ segir Gísli. Diana Carmen Lorenz vinnur hjá honum og því er stofan jafnframt hárgreiðslustofa. „Þannig sláum við tvær flugur í einu höggi,“ segir sundmaðurinn fyrrverandi og núverandi hjólreiðamaður í frístundum.

Myndir af Elvis Presley og gítar með eiginhandaráritun snillingsins hanga á vegg á stofunni. „Ég spila á gítar, á þrjá gítara, og þar sem ég var með myndirnar af goðinu í tengslum við hárvörur sem ég sel fannst mér tilvalið að láta áritaðan gítarinn hanga við hliðina,“ segir Gísli. Áritunin er reyndar ekki handskrifuð heldur fengin á netinu, svo því sé haldið til haga. „Það kemur fyrir að menn taki lagið á meðan þeir eru að bíða eftir klippingu og ég á það til að syngja og spila afmælissöng þegar afmælisbörn koma til mín í tilefni tímamótanna. Annars leik ég mest fyrir sjálfan mig.“