Jens Weidmann
Jens Weidmann
Jens Weidmann, bankastjóri þýska seðlabankans, hefur lýst sig andvígan því að kulnun í stærsta hagkerfi Evrópu verði mætt með víðtækum efnahagslegum örvunaraðgerðum.

Jens Weidmann, bankastjóri þýska seðlabankans, hefur lýst sig andvígan því að kulnun í stærsta hagkerfi Evrópu verði mætt með víðtækum efnahagslegum örvunaraðgerðum.

Weidmann sagði við Financial Times að ástæðulaust væri að missa stjórn á sér af hræðslu jafnvel þótt stefndi í samdrátt í þýska hagkerfinu í fyrsta sinn í sex ár. Dróst hagkerfið lítilsháttar saman á öðrum fjórðungi ársins, aðallega vegna spennu í viðskiptasambandi Bandaríkjanna og Kína, veiks hagvaxtar á heimsvísu og vegna ótta við afleiðingar útgöngu Breta úr ESB.

Ummæli Weidmanns þykja endurspegla djúpan klofning meðal leiðtoga helstu hagkerfa heims um hvernig brugðist skuli við merkjum þess efnis að áratugar uppsveiflu í alþjóðahagkerfinu sé að ljúka.

Weidmann sagðist leggjast gegn því að Evrópubankinn (ECB) hæfi að nýju veruleg kaup á skuldabréfum. Hann sagðist einkum og sér í lagi leggjast gegn kaupum á ríkisverðbréfum vegna þess að þau gætu hulið mörkin milli ríkisfjármálanna og peningastefnunnar móðu.

„Spurningin er hvort nýjar aðgerðir séu nauðsynlegar út frá verðbólguhorfum okkar, sérstaklega þó ef hjáverkun ykist og skilvirkni minnkaði,“ sagði Weidmann. agas@mbl.is .