[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Phoebe Locke. Árni Óskarsson þýddi. Veröld 2019. Kilja, 373 bls.

Margt óvænt leynist í myrkrinu og hryllingssagan Stóri maðurinn eftir Phoebe Locke dregur ekki úr óvissunni. Frásögnin er sérlega spennandi og eftir stendur að víða er styttra í brjálæðið en margan grunar.

Flökkusögur og ímyndun geta verið eitruð blanda, eins og berlega kemur í ljós í þessari spennusögu. Annars vegar snýst frásögnin um mikilvægi ungra breskra kvenna að vera útvaldar og þóknast stóra manninum í skóginum eða að komast undan valdi hans. Hins vegar er um að ræða lýsingu á gerð heimildamyndar um viðburðina, nálgun kvikmyndagerðarfólks við Amber Banner, helstu sögupersónuna.

Sagan er ósköp saklaus til þess að byrja með en þunginn og alvarleikinn eykst jafnt og þétt. Margt er óljóst enda ekki vilji til þess að greina frá sannleikanum, sem veldur bæði innri og ytri spennu. Óvissan eykur óöryggið og eftir stendur spurning um hvað sé rétt og hvað sé rangt, sekt eða sýknu.

Frásögnin er að mörgu leyti óhugnanleg. Mikið er lagt á ungar sálir og sú byrði er erfið viðureignar. Hins vegar kemst Amber vel frá sínu í samskiptum við kvikmyndagerðarfólkið og fyrir bragðið kemur upp undarleg staða innan þess hóps.

Uppbyggingin er markviss og helstu persónur eftirminnilegar. Höfundur blandar saman ólíku fólki, misjafnlega andlega sterku, sem kallar á að einhver verður óhjákvæmilega undir. Það skýrist ekki fyrr en í lokin hver nær yfirhöndinni, en hvað sem því líður hefur Stóri maðurinn mikil áhrif.

Steinþór Guðbjartsson

Höf.: Steinþór Guðbjartsson