Margrét Hallgrímsdóttir
Margrét Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Margréti Hallgrímsdóttur og Þór Magnússon: "Matthías mun aldrei hafa tekið kirkjugripi, né aðra hluti til safnsins, í óleyfi. Hann greiddi ævinlega umsamið verð fyrir gripi eða lét kirkjur fá aðra sams konar gripi í stað þeirra er hann fékk."

Sr. Önundur S. Björnsson, sóknarprestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, nefnir í viðtali í Morgunblaðinu 25. júlí sl. að þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, hafi látið fjarlægja „í heimildarleysi“ lágmyndir úr minnisvarða um Tómas Sæmundsson Fjölnismann í kirkjugarðinum á Breiðabólstað og látið setja eirafsteypur í staðinn.

Matthías kom að Breiðabólstað árið 1911 á skráningarferð, en hann ferðaðist um allt landið og skráði gripi í kirkjum, einnig fornminjar og margt annað það sem honum þótti athyglisvert. Hann skráir þar minnisvarða Tómasar og lýsir lágmyndunum á honum. Ein var vangamynd Tómasar sjálfs, önnur mynd af Tómasi sitjandi þar sem hann nemur af menntagyðjunni, ein var af hjarðmanni, táknmynd prestsins, og hin fjórða sýndi konu sem leggur krans á krukku, táknmynd af geymslu hjarta hins látna.

Matthías skrifar að marmaramyndirnar séu farnar að skemmast og ætti að taka þær úr og varðveita á Þjóðminjasafninu og setja varanlegri afsteypur í staðinn. Einnig kveður hann stöpulinn undir steininum vera orðinn skemmdan og þurfi að setja nýjan. Síðar bætti hann við neðanmáls: „Kom þessu í verk 1929. Marmaramyndirnar eru nr. 22-25 í Höggmyndasafninu. Menntamálaráð lagði fram fje úr Menningarsjóði.“

Hér sá Matthías það sem reyndar víða blasir við; hversu illa marmarinn þolir veðrun. Má vel sjá á gömlum legsteinum hvernig marmarinn tærist og veðrast. Nefna má, að fyrir áratugum var marmarahellan á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar konu hans orðin mjög tærð. Var hún því endurnýjuð og blágrýtishella, nákvæm eftirgerð hinnar, sett í staðinn. Marmarinn er ekki það óforgengilega efni sem menn lengi töldu.

Matthías bjargaði því marmaramyndunum úr minnisvarða Tómasar frá eyðingu og lét setja varanlegri myndir í staðinn, ella væru frummyndirnar líklegast að mestu horfnar nú. Matthíasi voru Fjölnismenn afar hugstæðir. Hann unni minningu þeirra og gaf út öll rit Jónasar Hallgrímssonar, skáldverk, bréf og ritgerðir, og skrifaði ævisögu hans, alls fimm binda ritverk. Einnig hugðist hann rita ævisögu Tómasar Sæmundssonar, en varð ekki af.

Eirmyndirnar voru steyptar í Köbenhavns Metalstöberi í Kaupmannahöfn og kostuðu afsteypurnar 457 krónur.

Jafnframt var gerður ytra nýr undirstöðusteinn undir minnisvarðann. Var hann gerður að beiðni Jóns Helgasonar biskups, er var dóttursonur Tómasar Sæmundssonar, og greiddi hann steininn, sem kostaði 148 krónur. Má því ljóst vera að endurnýjun myndanna hafi verið gerð með vitund og fullu samþykki biskups, enda fékk hann sjálfur þá gert aukaeintak af eirmynd Tómasar og hafði síðan jafnan á vegg á skrifstofu sinni. Biskupinn var yfirmaður þjóðkirkjunnar og einn nánasti afkomandi Tómasar. Engum standa slíkir minnisvarðar nær en ættingjum. Opinber stofnun, menntamálaráð, hafði einnig hér hönd í bagga.

Er illt að núa Matthíasi því um nasir nú að hann hafi tekið myndirnar úr varðanum í óleyfi.

Matthías Þórðarson reyndi að sjálfsögðu að fá góða gripi til Þjóðminjasafnsins, allir safnmenn vilja auka söfn sín, ella væru engin söfn til. En ekki síður reyna þeir að bjarga svokölluðum menningarverðmætum frá glötun. Matthías mun aldrei hafa tekið kirkjugripi, né aðra hluti til safnsins, í óleyfi. Hann greiddi ævinlega umsamið verð fyrir gripi eða lét kirkjur fá aðra sams konar gripi í stað þeirra er hann fékk. Kvittanir fyrir slíkum kaupum eru allar varðveittar í Þjóðminjasafni.

Stundum óskum við safnmenn þess reyndar að Matthías hefði fengið suma gripi sem hann reyndi að fá en fékk ekki, og síðan hafa horfið úr kirkjunum án þess að nokkur viti afdrif þeirra.

Nefnt er í grein í Morgunblaðinu, 23. júlí, að British Museum hafi reynt að eignast kaleikinn í Breiðabólstaðarkirkju, fáséðan dýrgrip. Líklegast hefur hann orðið kunnur ytra eftir að frásögn með mynd af honum birtist í bók enska málarans W.G. Collingwoods um Íslandsferð hans 1899. – Erlend söfn og safnarar ágirntust þá mjög íslenska forngripi og ekki síst kirkjugripi. Margt var þá látið falt, uns fornleifalögin tóku gildi 1908 er Matthías Þórðarson samdi. En ýmsir gripir fóru þrátt fyrir fornleifalögin. Enn voru menn á dögum Matthíasar að selja Guðbrands- og Þorláksbiblíur úr kirkjum, og jafnvel Súmmaríur, og lentu margar til útlanda. Litlu munaði að „kaleikurinn góði“ úr Skálholtsdómkirkju, frá 13. öld og einn mesti dýrgripur hérlendis, lenti til útlanda.

Nefna mætti hér að lokum, að ófáa kirkjugripi, svo sem kaleika, altarisstjaka og jafnvel kirkjuklukkur, hefur Þjóðminjasafnið látið endurbæta á síðari áratugum fyrir kirkjurnar. Sjaldnast hafa þær verið látnar greiða kostnaðinn, enda flestar kirkjur lítt haldnar að lausafé, og kostaði safnið þá viðgerðina sem sjaldnast hefði verið gerð ella. Þessa hefur lítt verið getið en má nefna að gefnu tilefni.

Þjóðminjasafnið metur mikils samstarf við kirkjur landsins og minjasöfn. Árangur þess samstarfs er meðal annars útgáfa ritverksins Kirkjur Íslands, og sýningin sem nú er í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Þangað hafa verið fengnir að láni um stundarsakir gripir úr 42 kirkjum, og þar á meðal er kaleikurinn umgetni í Breiðabólstaðarkirkju.

Margrét er þjóðminjavörður. Þór er fv. þjóðminjavörður.