Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Í dag hefst af krafti skólastarf í nýrri stoðdeild Háaleitisskóla, Birtu, sem sérstaklega er sniðin að erlendum börnum sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd hér á landi.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Í dag hefst af krafti skólastarf í nýrri stoðdeild Háaleitisskóla, Birtu, sem sérstaklega er sniðin að erlendum börnum sem sækjast eftir alþjóðlegri vernd hér á landi. Undanfarnar vikur hefur skólastarfið verið undirbúið, en deildin er talsvert ólík hefðbundnum bekkjum í grunnskóla.

Í deildinni er unnið að mati á námslegri stöðu nemenda og hlúð að félagslegum og sálrænum þáttum þeirra. Auk barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd er mögulegt að einnig verði í deildinni börn sem hafi að baki mjög rofna skólagöngu erlendis.

Sjö börn til að byrja með

Kostnaður Reykjavíkurborgar við deildina fyrir árið 2019 verður rúmlega fjórtán milljónir króna, en heildarkostnaður er rúmlega 24 milljónir króna og er framlag ríkisins 10 milljónir króna.

Fyrir liggur að sjö börn muni hefja nám við deildina til að byrja með, en fjöldi nemenda gæti þó orðið fljótandi yfir skólaárið að sögn Aðalheiðar Diego deildarstjóra í ljósi þess að um 70% umsókna hælisleitenda sé vísað frá. Ný börn gætu einnig hafið nám.

Börnin sjö sem hefja nám í dag eru frá Sýrlandi, Írak, Nígeríu og El Salvador, að hennar sögn. Deildin byggist að miklu leyti á sambærilegri deild sem starfrækt hefur verið í Hafnarfirði. Birta verður starfrækt í skóla Háaleitisskóla í Álftamýri sem hét Álftamýrarskóli áður en hann sameinaðist Hvassaleitisskóla. Í Álftamýri er skóli fyrir 1.-7. bekk og unglingadeild í Hvassaleiti.

„Við erum spennt að sjá hvernig til tekst. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að veita þessum börnum öryggi og láta þeim finnast þau tilheyra einhverju og byggja síðan ofan á það,“ segir Aðalheiður, en í deildinni verða börn í 3.-10. bekk. Yngstu börnin verða í skólum í sínum hverfum.

„Börnin verða í bekk hjá mér í staðinn fyrir að vera í hefðbundnum bekkjum. Eins og er eru þrír starfsmenn og einn stuðningsfulltrúi,“ segir hún, en námskráin verður einstaklingsmiðuð enda eru börnin á öllum aldri og færni þeirra misjöfn.

Aðalheiður segir að þótt börnin verði að miklu leyti til í stoðdeildinni sjálfri muni þau einnig sækja kennslustundir með öðrum bekkjum skólans. „Fyrsta vikan verður róleg inni í okkar deild. Síðan munum við leitast við að koma þeim í sund, leikfimi og annað, eftir því hvar þau eru stödd,“ segir hún. „Þau taka þátt í verkgreinum þar sem tungumálakunnáttan þarf ekki að vera mikil til að geta verið með. Það er okkar markmið. Þetta er þróunarverkefni og nú erum við bara að reyna að finna út hvernig við gerum þetta sem best. Við tökum starfið út vikulega til að sjá hvernig okkur gengur,“ segir Aðalheiður.