Hallgrímur Óðinn Pétursson fæddist í Stykkishólmi 14. júní 1969. Hann lést á heimili sínu 17. ágúst 2019. Foreldrar hans eru Jakobína Elísabet Thomsen, f. 24.9. 1953, og Jens Pétur Högnason, f. 7.9. 1950.

Fyrstu 10 árin ólst hann upp hjá móðurömmu sinni Bergljótu Gestsdóttur, f. 9.9. 1928, d. 11.11. 1999, og fósturafa, Hallgrími Péturssyni, f. 23.7. 1924, d. 27.10. 1989. Þá fluttist hann til móður sinnar og fósturföður, Níelsar Friðfinnssonar, f. 28.9. 1946, d. 12.5. 2007.

Hallgrímur átti sjö hálfsystkin og var hann elstur. Sammæðra eru: Friðfinnur, f. 20.9. 1971, Guðbjörg Jóhanna, f. 27.10. 1974, Birna Björk, f. 8.6. 1976, og Margrét Eyrún, f. 27.7. 1979. Samfeðra eru Sigurveig Stella, f. 5.3. 1974, Ása Jane, f. 14.10. 1976, og Helena Joan, f. 17.6. 1981.

Hallgrímur Óðinn hóf sambúð með Jóhönnu Ingimundardóttur árið 1987. Börn þeirra eru: 1) Sonja Súsanna, f. 20.1. 1988, sambýlismaður hennar er Eggert Kr. Brynleifsson, barn þeirra er Árný Lind. 2) Kristbjörn Lúther, f. 22.9. 1993, sambýliskona hans er Aníta D. Reimarsdóttir, barn þeirra er Sigurjón Níels. 3) Hallmar Logi, f. 3.10. 1997. 4) Petra Dögg, f. 15.10. 2009. Hallgrímur ólst upp á Grundarfirði. Hann fluttist til Þórshafnar 1987 þar sem hann stundaði vinnu bæði á sjó og landi.

Útför Hallgríms Óðins fór fram frá Þórshafnarkirkju í gær, 25. ágúst 2019.

Ég fékk þær hroðalegu fréttir um síðustu helgi að góðvinur minn og fv. skipsfélagi hefði orðið bráðkvaddur. Hallgrímur Óðinn, eða Óddi sterki eins og hann var jafnan kallaður af vinum sínum, var aðeins fimmtugur að aldri þegar hann lést. Hann sleit barnsskónum í Grundarfirði en bjó mestan part ævi sinnar á Þórshöfn þar sem leiðir okkar lágu saman á frystitogaranum Stakfelli ÞH 360 árið 1990.

Það þurfti ekki lengi að tala við Ódda til að sjá að þar fór enginn venjulegur maður. Óddi gat verið alger hamhleypa til vinnu, duglegur og handfljótur. Hann var eiginlega mennsk pökkunarvél og fannst manni eins og mörg flök væru á lofti í einu þegar sá gállinn var á honum. Óddi var hraustmenni og fannst eiginlega mest gaman að taka trollið þegar sjórinn gekk upp rennuna og skall á honum með þunga og kappinn var á kafi í sjó. Óddi var alveg sérlega góður skipsfélagi. Léttur í skapi og stutt í glensið. Við fífluðumst mikið um borð enda áhöfnin að mestu leyti ungir menn.

Óddi var eins og áður sagði ekki venjulegur maður. Hann var til að mynda ótrúlega liðugur þótt hann væri vel við vöxt og er mér sérstaklega minnisstætt þegar við vorum að vinna í frystilestinni þar sem var 25 stiga frost. Þar var Óddi á sjóbuxum sem verða glerharðar og óþjálar í kuldanum og ég nefndi við hann meira í gríni en alvöru hvort hann gæti sparkað upp í loftið á lestinni og upp í frystispírala sem þar voru alhrímaðir. Minn maður horfir upp í loftið og segir „ekkert mál“, bakkar aðeins, hendir sér upp og sparkaði langt yfir hausinn á sér svo fast að við höggið losnaði hrímið af spíralnum og það snjóaði yfir okkur í lestinni. Þá kastar minn maður sér í splitt á lestargólfinu í pinnfrosnum sjóbuxunum sprettur á lappir og klifrar upp úr lestinni. Ég klöngraðist á eftir honum og kominn upp á dekkið spurði ég: „Hvar í andskotanum lærðir þú þetta?“ Þá sagði sá sterki: „Í Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar,“ og tók alveg ógurlegan smók af sígarettunni og blés honum glottandi frá sér. Sem sagt mikið ólíkindatól hann Óddi.

Óddi var hjálpsamur og óspar á sitt. Það var gott að eiga hann að.

Hann var mikill fjölskyldumaður og mikill vinur barna sinna og var þeim afar góður. Óddi var mikill áhugamaður um veiðar hvers konar og stundaði þær grimmt. Skotveiðar með strákunum sínum og vinum og silungsveiðar með allri fjölskyldunni. Óddi var sjómaður nánast alla sína starfsævi og sigldi á alls konar skipum. Var á bátum, togurum, nótaskipum og frögturum. Síðustu tvö árin glímdi Óddi við lungnasjúkdóm sem hefti hann talsvert. Læknar höfðu nefnt að nú væri kominn tími til að hætta að reykja en minn maður lét sem hann heyrði ekki þær athugasemdir enda var hann ekkert sérstaklega hrifinn af læknum og fór sínar eigin leiðir í þeim málum sem öðrum.

„Óddi var töffari sem hélt kúlinu fram í andlátið,“ skrifaði sameiginlegur vinur okkar til mín um daginn.

Fyrir mína hönd og fyrrverandi skipsfélaga á Stakfellinu segi ég, far þú í friði, vinur kær, og takk fyrir skemmtilegar samverustundir. Sjáumst í sumarlandinu.

Elsku Hanna, Sonja, Kristbjörn, Hallmar og Petra. Megi góður Guð varðveita ykkur í sorginni.

Ölver Arnarsson.