Makríllöndun Deilt hefur verið um aflahlutdeild þjóðanna. Mynd úr safni.
Makríllöndun Deilt hefur verið um aflahlutdeild þjóðanna. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) upp á 318 þúsund tonn af makríl var gefin út í október 2018.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) upp á 318 þúsund tonn af makríl var gefin út í október 2018. Vitað var að hún var ekki gallalaus og þarfnaðist endurskoðunar, að sögn Kristjáns Freys Helgasonar, formanns samninganefndar Íslands um deilistofna strandríkja.

Evrópusambandið (ESB), Færeyjar og Noregur mynduðu bandalag um skiptingu makrílkvótans í N-Atlantshafi árið 2014. Hvorki Íslendingum né Grænlendingum, sem sannarlega eru strandþjóðir þegar kemur að makríl, né heldur veiðiþjóðinni Rússum hefur verið hleypt inn. Makrílbandalagið ákvað síðasta haust að miða heildarmakrílaflann við 653 þúsund tonn, sem var 20% minna en ákvörðun síðasta árs. Samkvæmt aflareglu þeirra geta þeir ekki lækkað kvótann meira á milli ára. Þeir sögðust skilja eftir um 100 þúsund tonn (15,6%) fyrir aðila utan samningsins, þ.e. Ísland, Grænland og Rússland.

Ósammála um heildaraflann

ICES kom með nýja ráðgjöf í byrjun maí upp á 770 þúsund tonna heildarafla. Annar kostur var að miða við 709 þúsund tonn, samkvæmt aflareglu samningsaðilanna. Makrílbandalagið ákvað að halda sig við fyrri ákvörðun. Eftir að þessi ráðgjöf ICES lá fyrir var haldinn fundur strandveiðiþjóða í makríl. Kristján sagði að þar hefði verið unnið í aflareglu en makrílbandalagið ekki náð niðurstöðu um heildarafla.

„Okkur Íslendingum var gert fyllilega ljóst að á þessum fundi yrði ekki rætt um skiptingu heldur væri verkefnið aðeins að finna út úr hámarksveiðinni,“ sagði Kristján. Hann sagði að makrílbandalagið hefði klofnað í afstöðu sinni. Færeyingar vildu veiða 770 þúsund tonn, Norðmenn 653 þúsund tonn og ESB var á milli.

Annar fundur strandríkjanna um hámarksafla í makríl var boðaður í júní en hvorki Ísland né Rússland mættu. Ísland hafði tilkynnt fyrir 1. maí í vor 107 þúsund tonna heildarafla, sem var 16,5% hlutur Íslands miðað við 653 þúsund tonna heildarafla. Þegar ný ráðgjöf kom frá ICES ákváðu Íslendingar að heildaraflinn yrði 140 þúsund tonn, eða 16,5% af áætlaðri heildarveiði allra makrílveiðiþjóða. Skömmu síðar juku Grænlendingar einnig sinn makrílkvóta og Rússar sömuleiðis kvóta sinn um 16.517 tonn þann 18. júlí sl. og miðuðu við ráðgjöf ICES.

Ísland fékk bréf frá framkvæmdastjórn ESB þar sem lýst var miklum vonbrigðum með okkar ákvörðun. ESB kvaðst vera að fara yfir málin og m.a. yrði skoðað hvort beitt yrði reglugerð um viðskiptaþvinganir.