[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir stefnt að því að hefja uppbyggingu fyrsta áfanga borgarlínu árið 2021.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir stefnt að því að hefja uppbyggingu fyrsta áfanga borgarlínu árið 2021. Jafnframt verði nýtt leiðakerfi Strætó, sem byggi á fyrirhuguðu leiðakerfi borgarlínu, kynnt á næstu vikum.

Fyrsti áfangi borgarlínu verði leiðin Lækjartorg-Ártún ásamt leiðinni Lækjartorg-Hamraborg. Á næstu dögum verði gengið frá samningum milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um þátttöku í kostnaði við verkefnið. Áætlað hefur verið að fyrstu tveir áfangarnir muni kosta alls 16,3 milljarða króna og borgarlínan alls 42 milljarða til 2033.

Ekki náðist í Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra í gær.

Mun nýtast við umferðarspár

Sigurborg Ósk segir Verkefnastofu borgarlínu hafa boðið út gerð nýs umferðarlíkans af höfuðborgarsvæðinu. Með líkaninu verði afkastageta gatnakerfisins kortlögð og þær upplýsingar notaðar til að spá um þróun umferðarinnar í framtíðinni.

Næsta skref verði að vinna þróunaráætlun fyrir borgarlínu á grunni líkansins. Áætlunin muni skýra útfærslu borgarlínunnar, legu hennar í gatnakerfinu, umferð við gatnamót og staðsetningu biðstöðva. Slíkar ákvarðanir kalli á tölfræðigögn.

Síðan taki við skipulagsvinna hjá Reykjavíkurborg og Kópavogi, en síðarnefnda bæjarfélagið mun tengjast borgarlínu í fyrsta áfanga.

Verkefnastofan hóf störf í júlí, en hún starfar á grundvelli samkomulags Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Sigurborg Ósk segir fyrsta áfanga borgarlínu munu annars vegar liggja frá Lækjartorgi upp Hverfisgötu, Laugaveg og Suðurlandsbraut og svo yfir nýja brú yfir Sæbraut og yfir Geirsnefið. „Brúin yfir Geirsnefið og Elliðaár er tæknilega flóknasti hluti leiðarinnar. Það þarf líka að þvera Sæbrautina,“ segir Sigurborg Ósk, en sú þverun mun tengjast beint inn á Suðurlandsbraut. Handan brúarinnar yfir Elliðaána tekur við lokakaflinn að fyrirhugaðri borgarlínustöð við Krossmýrartorg í nýja Ártúnshverfinu.

Sigurborg Ósk segir deiliskipulag í vinnslu fyrir leiðirnar Lækjartorg-Ártún og Lækjartorg-Hamraborg. Síðarnefnda leiðin kalli á gerð brúar yfir Fossvog. Deiliskipulag brúarinnar sé tilbúið og áformað að efna til skipulagssamkeppni í haust. Óvíst sé hvenær brúarsmíðin hefjist.

Fer í gegnum Vatnsmýrina

Hins vegar mun borgarlínan liggja frá Lækjartorgi, að Háskóla Íslands, í gegnum Vatnsmýrina og yfir brú yfir Fossvog en Hamraborg er endastöð. Áformað er að þétta byggð meðfram borgarlínunni. Þar með taldar eru hugmyndir um þéttingu byggðar í Hátúni og á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar.

Sem áður segir stendur til að kynna nýtt leiðakerfi Strætó. „Strætó er að fara að kynna glænýtt leiðakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið sem byggir á heildarkerfi borgarlínu. Það fer í kynningarferli í september,“ segir hún. Óvíst sé hvenær kerfið taki gildi.

Farið verði úr svonefndu þekjandi kerfi, sem reyni að ná til allra gatna og hverfa svo styttra sé á biðstöðvar, yfir í svonefnt þátttökukerfi. Markmiðið sé að fá mun fleiri farþega á hærri tíðni, sem verði 7-10 mínútur við stofnbrautir. „Samkvæmt fyrstu drögum verður rekstur nýja kerfisins ekki kostnaðarsamari en núverandi kerfis og bind ég miklar vonir við að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði samstíga um innleiðingu þess.“

Tíðni strætóferða verður 7-10 mínútur

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir starfshóp hafa unnið að tillögum um nýtt leiðakerfi strætó í framtíðinni. Skýrsla um málið verði lögð fyrir stjórn Strætó bs. í nóvember.

„Síðan á eftir að taka alla umræðu um fjármögnun og slíkt. Það er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum á leiðakerfinu á næsta ári. Þetta er langtímaverkefni og kemur inn í áföngum, samhliða borgarlínu,“ segir Jóhannes.

Breytingarnar muni taka mið af rannsóknum á íbúaþéttleika og atvinnuþátttöku. Ætlunin sé að hækka hlutfall þeirra sem hafa aðgang að Strætó með meiri tíðni úr 26% í 62%. Miðað sé við að tíðnin verði 7-10 mínútur.

Jóhannes kveðst ekki eiga von á því að skipt verði yfir í tíðnidrifið kerfi í einu vetfangi. „Þá þyrftu sveitarfélögin að auka verulega við fjármagnið. Hugsunin er að samtvinna borgarlínu og strætókerfið. Aðgerðaáætlun fyrir innleiðingu nýja kerfisins er í vinnslu og hefur ekki verið útfærð í smáatriðum,“ segir Jóhannes, sem kveðst aðspurður ekki hafa fengið vilyrði frá sveitarfélögunum, eiganda Strætó, um aukið fjármagn.

Spurður hvar breytingar á leiðakerfinu muni birtast fyrst segist hann gera ráð fyrir að fyrsta skrefið verði að breyta leiðakerfinu innanbæjar í Hafnarfirði á næsta ári. Þegar 1. áfangi borgarlínu komi í gagnið 2023/2024 muni leiðakerfi Strætó smátt og smátt aðlagast innleiðingu borgarlínunnar.

Það sé ekki einfalt mál að breyta leiðakerfinu.

„Almennt eru breytingar erfiðar fyrir fólk, hvort sem það er leiðakerfi eða eitthvað annað. Það þarf að vanda vel til verka og upplýsa fólk. Sýna þarf möguleikana sem nýtt kerfi býður upp miðað við núverandi kerfi. Það er mikið verkefni,“ segir Jóhannes.