Jaðar Djúpivogur liggur lengst frá kjarnanum, Egilsstöðum, en þar verður sett á fót heimastjórn sem fær völd yfir málum í nærsamfélaginu.
Jaðar Djúpivogur liggur lengst frá kjarnanum, Egilsstöðum, en þar verður sett á fót heimastjórn sem fær völd yfir málum í nærsamfélaginu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sveitarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi mun, verði sameining samþykkt, fela heimastjórnum í gömlu sveitarfélögunum hluta af valdi sínu.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sveitarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi mun, verði sameining samþykkt, fela heimastjórnum í gömlu sveitarfélögunum hluta af valdi sínu. Heimastjórnirnar munu fara með ákvörðunarvald varðandi nærþjónustu á viðkomandi svæðum, meðal annars um deiliskipulag og til að veita umsagnir um veitinga- og verslunarleyfi og um friðlýsingar, svo dæmi séu tekin.

Þessi tilfærsla á valdi grundvallast á tilraunaákvæði í núgildandi sveitarstjórnarlögum. Komi til sameiningar á Austurlandi verður þessu ákvæði beitt í fyrsta skipti.

Mega vísa til bæjarstjórnar

Þrír menn verða í hverri heimastjórn, tveir sem kosnir eru beinni kosningu af íbúum á hverju svæði og einn fulltrúi sem sæti á í bæjarstjórn. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði og formaður samstarfsnefndar, segir að verði ágreiningur um mál í heimastjórn geti hvaða fulltrúi sem er vísað málinu til bæjarstjórnar til úrlausnar. Hann bendir á að kveðið sé á um það í lögunum.

Heimilt er að nýta þetta tilraunaákvæði í tvö kjörtímabil, samkvæmt lögunum. Björn segir mikilvægt að horfa til lengri tíma og segir að það kæmi ekki á óvart að ákvæðið yrði fest í sessi í sveitarstjórnarlögum ef það gengur vel í nýja sveitarfélaginu. Segir hann að það sé einnig skilningur ráðuneytisins.

Samstarfsnefndin vinnur að undirbúningi sameiningar Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Borgarfjarðar eystri og Djúpavogs. Endanlegar tillögur nefndarinnar verða kynntar á íbúafundum í byrjun október og kosið verður um sameiningu 26. október.

Björn segir að heimastjórnum sé ætlað að mæta þeim sjónarmiðum sem oft hafi komið upp við sameiningar að fólkið á jaðrinum kvarti yfir því að það hafi lítil áhrif. Einnig sé talið að stjórnsýslan verði skilvirkari með því að hafa ákveðna þætti á valdi nærsamfélagsins í stað þess að ákveða allt á miðlægum fundum.

Stjórnskipulagið verður einnig einfaldað á þann hátt að aðeins verða þrjú fagráð starfandi, þ.e. byggðaráð, fjölskylduráð og umhverfisráð. Þar fyrir utan verða ýmsar nefndir, svokölluð notendaráð. Hlutverk og ábyrgð fagráðanna verður veigameira en áður. Þau funda vikulega, á dagvinnutíma. Björn segir að með því skapist möguleiki fyrir fulltrúa að sinna sveitarstjórnarmálum í hlutastarfi.

Þurfa að sameinast

Nú eru 26 fulltrúar í sveitarstjórnunum fjórum en verða 11 í nýrri bæjarstjórn. Ef litið er til alls stjórnkerfisins sitja þar nú 113 fulltrúar í stjórnum, ráðum og nefndum en þeim fækkar í 42.

Borgarfjarðarhreppur er með rúmlega 100 íbúa og þarf að sameinast öðru sveitarfélagi í síðasta lagi fyrir kosningar 2022. Sama er að segja um Fljótsdalshrepp, sem ekki er í þessum sameiningarviðræðum, en er með liðlega 70 íbúa. Djúpavogshreppur og Seyðisfjarðarkaupstaður eru með færri en 1.000 íbúa og þurfa að sameinast öðrum fyrir kosningar árið 2026. Eina sveitarfélagið í þessum potti sem ekki verður knúið til aðgerða er Fljótsdalshérað með 3.600 íbúa.

Mælt með lögþvingun

Sérstakt landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti á föstudag að mæla með því að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu ráðherra sveitarstjórnarmála um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga til 2033 og aðgerðaáætlun. Verði lögum breytt í þessa veru mun sveitarfélögum, sem nú eru 72, fækka um 14 við kosningar 2022 þegar lágmarksfjöldi íbúa verður 250 og enn meira fjórum árum síðar þegar íbúafjöldi sveitarfélags þarf að vera yfir 1.000. Eftir það gætu sveitarfélögin orðið um 30 talsins. Nokkur sveitarfélög mótmæltu áformum um lögþvingun við sameiningu sveitarfélaga í umsögnum í samráðsgátt sveitarfélaga og hvöttu ríkisstjórn og Alþingi til að virða sjálfsákvörðunarrétt íbúa.