Á þeim tíma var Tirana eins og stórt sveitaþorp með gamlar byggingar, hestakerrur og uxakerrur á götum og þjóðvegum í kring. Nýtískuleg skrautbygging tileinkuð gamla einræðisherranum Enver Hoxha skar sig úr.
Fólkið í Tirana var vingjarnlegt og forvitið, tók sjaldséðum útlendingi afar vel, nánast bar hann á höndum sér og aðstoðaði þannig að úr varð sennilega eftirminnilegasta vinnuferð mín.
Þegar ég gekk um götur Tirana í gær sá ég fátt sem minnti á árið 1991. Einstaka byggingu sem ég kannaðist aftur við en fann Hoxha-safnið. Það er í niðurníðslu og á það krotuð skammaryrði. Gamla og notalega hótelið sem ég dvaldi á er horfið og verið að byggja á lóðinni.
Tirana er orðin heimsborg með glæsihótelum, bönkum, verslunarmiðstöðvum og flestu öðru sem sést í öðrum borgum í suðurhluta Evrópu. Ég mætti túristahópum og hefði getað verið í nánast hvaða landi sem er.
En eitt hefur lítið breyst. Landslið Albaníu og Íslands eru mjög svipuð að getu í fótbolta. Leikurinn sem ég sá í Tirana fyrir 28 árum var það eina leiðinlega í þeirri ferð. Ísland lék langt undir getu og Albanía vann 1:0 sigur.
Þar sem þessi heimsókn mín til „Lands arnarins“ snýst bara um fótboltann ætla ég rétt að vona að hún skilji eftir jafngóðar minningar og sú fyrri. Þrjú stig verði með í farangrinum þegar við fljúgum til baka til Íslands í nótt.