Lögregla Ekki virðist samstaða milli embætta um starfsaðferðir.
Lögregla Ekki virðist samstaða milli embætta um starfsaðferðir. — Morgunblaðið/Eggert
Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, hefur sagt sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur, eftir 41 árs veru í því. Hann greindi frá því í samtali við mbl.

Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, hefur sagt sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur, eftir 41 árs veru í því. Hann greindi frá því í samtali við mbl.is í gær að ástæðan væri ummæli formanns félagsins um kvartanir um ógnar og óttastjórnun innan embættis ríkislögreglustjóra og meðvirkni í efsta lagi stjórnenda.

Eins og Morgunblaðið hefur greint frá ályktaði stjórn Landssambands lögreglumanna að sú ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að láta fara fram stjórnsýsluúttekt á embætti ríkislögreglustjóra væri löngu tímabær. Embætti ríkislögreglustjóra svaraði með yfirlýsingu þar sem meðal annars sagði að sú endurskoðun ætti að vera heildarendurskoðun lögreglumála í landinu. Hentugast væri að hafa einn lögreglustjóra á landinu öllu.

Mbl.is greindi frá því í gær að deildarstjórar við embætti ríkislögreglustjóra sendu um miðjan júní yfirlýsingu til dómsmálaráðherra þar sem lýst var yfir fullum stuðningi við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra. Segja þeir hann hafa stýrt embættinu af fagmennsku og festu. „Haraldur Johannessen hefur stýrt umbótastarfi innan embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar, og í krafti embættisins staðið fyrir breytingum, framþróun og auknu jafnrétti,“ sagði meðal annars í yfirlýsingunni. „Fjárhagsvandi lögreglunnar verður eingöngu leystur á vettvangi Alþingis og ríkisstjórnar. Opinberar deilur innan lögreglunnar eru fallnar til þess eins að grafa undan trausti til hennar. Við hvetjum starfsmenn og stjórnendur lögreglu til að setja niður deilur sínar og snúa saman bökum samfélaginu til heilla,“ sagði þar enn fremur.

Lögreglustjórafélag Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagði að togstreita um fjármuni ætti sér ekki stað milli lögregluembætta í landinu. Nýlegar breytingar á skipan lögreglumála hefðu gefist vel.

Þá lýsa Lögreglufélag Austurlands, Lögreglufélag Norðurlands vestra og Lögreglufélag Suðurlands yfir stuðningi við ályktun Landssambands lögreglumanna. Hugmyndir um að lögreglan í landinu verði ein stofnun séu til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna.