Læknavísindin segja okkur að frumur mannslíkamans endurnýi sig. Hverju líffæri er viðhaldið og stjórnað frá stjórnstöð heilans svo allur líkaminn sé heilbrigður, frískur, heill. Öll líffærin starfa svo öll heildin megi njóta heilbrigðis og vellíðanar saman í sömu verund. Allt starf er innt af hendi til blessunar heildinni, í sömu tilveru, í sama heimi, sömu veru.
Samfélag og þjóðfélag mannanna mætti sannarlega taka sér starf mannslíkamans til fyrirmyndar. Sú vitund og þroski, sem felst í því að starfa heildinni til blessunar myndi skapa hamingjusamt og sambúðarhæft samfélag fólks. En hið ofanritaða þarf að nema og temja sér, ef slíkt samfélag á að ganga eins og regluverk líkamans, gangverk véla mannanna og himinhnatta hönnuðar alheimsins. Sértrúarflokkar hafa lagt áherslu á velferð allra meðlima sinna og beina meðlimum sínum á rétta braut ef eitthvað fer úrskeiðis, svo söfnuðurinn allur megi dafna.
Mannkyn jarðarinnar er tengt sterkum böndum. Við erum ein tegund þó að mislit séum á hörund, eins og tegundir blóma sem birtast í regnbogans litum. Við erum eitt kyn, mannkyn í misjöfnum útgáfum, en skyld blóðböndum um alla heima og geima, því við erum ein fjölskylda, mennskar verur, sem ætlað er að vinna saman, sem frumur sama líkama og að skilja mikilvægi hvers og eins.
Blóðið sem fer út í litlu tá er sama blóðið og berst til heilans. Blóðið sem fer um þarmana er sama blóðið og gefur vörunum sinn líflega lit og svo mætti lengi telja. Margir stórættaðir menn eiga sér sterkan bakhjarl, sem hefur eflst af vinnu verkamanna á lægstu launum í mannlegu samfélagi. Vér skulum því ekki líta niður á annað fólk. Vér erum allir sama tegund, sama blóðið í raun. Vér erum sama kyn, sama blóð, sömu ættar um aldir alda.
Ef við mennirnir gætum komið á þessu vitundarástandi um einingu mannkynsins gæti margt breyst til batnaðar. Þar sem við öll erum í sama líkama eins og frumur ættum við að leggja okkar af mörkum til að vinna heildinni gagn og þar með sjálfum okkur í leiðinni.
Þjóðfélög eru ekki góð og heil, ef þjóðfélagshópar deila og eiga í erjum. Þegar samfélagshópar líða órétt og þjáningar og eigingirndin ræður för er þjóðfélagið sjúkt og mein ræna einstaklingana friði og ró, fjöri og lífsgleði í sjúku deyjandi umhverfi.
Mannkynið er ein fjölskylda og þegar hluti af því líður þjáningar hefur það margvísleg áhrif á heildina. Þess vegna áreita lúxusvandamálin hina efnameiri eða svo lengi, sem fátækir líða óréttlátan skort í ómanneskjulegum aðstæðum. Margan þarf því ekki að undra þótt margir efnameiri sofi ekki á næturnar eða eigi við ýmsan vanda að stríða, þegar þjáningar manna berast þeim eftir brautum, sem tengja mannkynið órjúfanlegum „ósýnilegum“ böndum í tilverunni, því við erum sama veran, sem finnur til því hún er sjúk.
Að elska náungann og líkna þeim sem eru sjúkir eru aðgerðir sem munu öllum að gagni koma. Báðir hóparnir, sá sem gefur og hinn sem veitir móttöku, munu báðir njóta blessana góðverkanna því við erum sama tegund í sama heimi, sömu veru.
Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál. einar_ingvi@hotmail.com