Gleði Ari Freyr Skúlason, Kolbeinn Sigþórsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson fagna í Laugardal.
Gleði Ari Freyr Skúlason, Kolbeinn Sigþórsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson fagna í Laugardal. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Í Tirana Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Dagsskipunin hjá Erik Hamrén fyrir leikinn gegn Albönum í Elbasan í kvöld er ákaflega einföld. Sigur.

Í Tirana

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Dagsskipunin hjá Erik Hamrén fyrir leikinn gegn Albönum í Elbasan í kvöld er ákaflega einföld. Sigur.

Í þeim þriggja liða slag sem nú er kominn upp í H-riðli undankeppni EM í fótbolta, um tvö laus sæti í lokakeppninni á næsta ári, er einfaldlega bannað að misstíga sig.

Ísland, Tyrkland og Frakkland eru öll með 12 stig eftir fyrri umferðina. Þau unnu hvert annað og lögðu öll hina þrjá andstæðingana, Albaníu, Moldóvu og Andorra.

Mótherji Íslands í Elbasan í kvöld er sá erfiðasti af þessum þremur síðasttöldu. Við sáum vel hversu sterkt albanska liðið er á Laugardalsvellinum í sumar þegar Ísland marði 1:0 sigur með glæsilegu einstaklingsframtaki Jóhanns Bergs Guðmundssonar. Hann er því miður fjarri góðu gamni núna vegna meiðsla.

Albanar fengu talsverða gagnrýni fyrir slaka frammistöðu þegar þeir töpuðu 4:1 í Frakklandi á laugardagskvöldið. Metnaður þeirra er eflaust að rétta hlut sinn með sigri á Íslandi, auk þess sem hann myndi gefa þeim örlitla von um að komast í slaginn um annað sætið. Leikir Íslands og Albaníu eru alltaf jafnir og tvísýnir og engin ástæða til að ætla að annað verði uppi á teningunum í kvöld.

Kolbeinn eflir vopnabúrið

Vopnabúr Íslands er hins vegar orðið öflugra á ný með Kolbein Sigþórsson í fremstu víglínu. Við sáum gegn Moldóvu á laugardaginn hve stór skref hann hefur stigið í sumar í átt að sínu gamla góða landsliðsformi. Liðið er þrautreynt eftir velgengni undanfarinna ára og þarf að taka út úr reynslubankanum í kvöld til að ná í þau þrjú stig sem það þarf á að halda.

Íslensku landsliðsmennirnir vita manna best hvað bíður þeirra. Þeir vita mætavel að ekki er hægt að reikna með hjálp frá Andorra og Moldóvu. Það yrði í hæsta máta óvænt ef Moldóva næði stigi af Tyrklandi, þó á heimavelli sé, hvað þá að litla Andorra geti gert frönsku heimsmeisturunum skráveifu í Frakklandi en þessir leikir í sjöttu umferðinni fara fram á sama tíma í kvöld. Ef allt fer eftir bókinni verða Tyrkland og Frakkland bæði með 15 stig í leikslok í kvöld og kappsmálið er því að halda jöfnu við þau áfram og komast líka í 15 stigin með sigri í Elbasan.

Hér í Albaníu er heitt, hitinn í gær var nálægt 30 gráðum og spáð er 34 stiga hita í Elbasan dag. Sem betur fer verður klukkan orðin 20.45 að staðartíma þegar flautað verður til leiks og þá ættu aðstæður að vera orðnar þægilegar með um 20 gráðu hita. Allt aðrar og betri en þegar Ísland vann hér afar mikilvægan sigur í haugarigningu fyrir sjö árum og Gylfi Þór Sigurðsson smellti boltanum í stöngina og inn úr aukaspyrnu tíu mínútum fyrir leikslok.

Allir með á æfingunni

Íslenska liðið hóf æfingu í Elbasan klukkan 18 í gærkvöld að staðartíma og þar voru allir með og allir virðast heilir og klárir í slaginn. Hamrén sagði á fréttamannafundi fyrir æfinguna að engin vandamál virtust í hópnum þó að alltaf væru einhverjir með hnjask hér og þar.

Ólíklegt er að Hamrén breyti miklu varðandi byrjunarliðið, en þó er viðbúið að hann spili 4-5-1 í staðinn fyrir 4-4-2 gegn Moldóvu. Þá gæti Emil Hallfreðsson komið inn á miðjuna, Gylfi farið framar, og þá gæti það orðið hlutskipti Jóns Daða Böðvarssonar að hefja leik á bekknum þrátt fyrir flottan leik, mark og stoðsendingu, á laugardaginn. Albanar hafa spilað með fimm manna vörn í tveimur síðustu leikjum, gegn Moldóvu og Frakklandi, og kannski þarf landsliðsþjálfari Íslands að bregðast sérstaklega við því.