Netsvik G. Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður hjá LRH, telur að meira en milljarður hafi verið svikinn út úr Íslendingum undanfarið ár.
Netsvik G. Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður hjá LRH, telur að meira en milljarður hafi verið svikinn út úr Íslendingum undanfarið ár. — Morgunblaðið/Golli
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Íslendingar hafa sennilega tapað meira en einum milljarði króna í netsvikamálum á síðustu tólf mánuðum, að mati G. Jökuls Gíslasonar, rannsóknarlögreglumanns hjá LRH. Hann sagði að mörg aðskilin mál væru að baki heildarupphæðinni, flest lítil en í einstaka málum væri um háar fjárhæðir að ræða.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Íslendingar hafa sennilega tapað meira en einum milljarði króna í netsvikamálum á síðustu tólf mánuðum, að mati G. Jökuls Gíslasonar, rannsóknarlögreglumanns hjá LRH. Hann sagði að mörg aðskilin mál væru að baki heildarupphæðinni, flest lítil en í einstaka málum væri um háar fjárhæðir að ræða.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að erlendum tölvuþrjótum hefði tekist að brjótast inn í tölvukerfi HS Orku og svíkja út á fjórða hundrað milljóna króna. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, vildi ekki staðfesta þá upphæð í samtali við mbl.is. Hann sagði málið snúast um greiðslur til aðila sem hefði komist inn í samskipti félagsins við aðra aðila. Starfsfólk HS Orku komst að innbrotinu fyrir nokkru og lögreglan var strax látin vita. Í tilkynningu HS Orku sagði að félagið hefði ástæðu til að ætla að hægt yrði að endurheimta stóran hluta fjárhæðarinnar. Efnahagsbrotadeild héraðssaksóknara stýrir rannsókn málsins hér á landi. Auk þess koma erlend lögregluyfirvöld að málinu.

Jökull sagði algenga svindlleið að senda tölvupósta með fjárkröfum af einhverju tagi. Póstarnir eru flokkaðir í lágstig og hástig. Á lágstigi berst einföld beiðni um greiðslu en á hástigi hafa svikahrapparnir komist inn í tölvukerfi fyrirtækis og búa til trúverðuga reikninga og allar færslur á bak við þá. „En það er ekki nóg að komast inn í tölvu, það þarf alltaf einhver í fyrirtækinu að gefa greiðslufyrirmæli,“ sagði Jökull.

Hann vildi ekki svara því hvort fyrrgreint mál HS Orku væri það stærsta sinnar tegundar. Ef rétt væri að upphæðin væri á fjórða hundrað milljóna kvaðst Jökull vita um annað netsvikamál gagnvart íslenskum aðila af svipaðri stærðargráðu. Hann vann samantekt um netglæpi á Íslandi og helstu brotaflokka.

Fyrirmælasvindl (BCE) er einn algengasti og varasamasti flokkurinn. Þá er sendur falsaður tölvupóstur með fyrirmælum til gjaldkera um að borga. Látið er líta út fyrir að sendandi sé forstjóri eða stjórnarformaður fyrirtækisins.

Góð venja er að hafa samband við sendandann eftir annarri leið en að svara tölvupóstinum beint og fá staðfestingu á greiðslufyrirmælunum. Einnig þarf að hafa varann á þegar reglulegur viðskiptavinur erlendis vill breyta greiðslufyrirkomulagi.