Stefán Gunnar Sveinsson
Jóhann Ólafsson
Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu hefur fallist á að hún muni taka fyrir landsréttarmálið svonefnda, en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í mars síðastliðnum að ekki hefði verið staðið að skipun fjögurra dómara við Landsrétt með lögmætum hætti. Íslenska ríkið áfrýjaði niðurstöðunni í apríl.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri gott að málið yrði tekið fyrir. Hún býst við að yfirdeildin komist að annarri niðurstöðu en dómstóllinn gerði.
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að ákvörðun yfirdeildarinnar hafi í sjálfu sér enga þýðingu út frá hagsmunum íslenska réttarríkisins. „Hvort sem hún hefði ákveðið að taka málið fyrir eða ekki er það ekki á valdi þessa dómstóls, hvorki undirréttar né yfirdeildar, að skera úr um það hvort íslenskir dómarar eru löglega skipaðir. Það gerir bara Hæstiréttur Íslands, og hann hefur með dómi í maí 2018 kveðið upp úr um það að þeir séu löglega skipaðir,“ segir Sigríður. „Dómstigin hér eru bara þrjú, og Hæstiréttur, hið æðsta þeirra, hefur kveðið úr um að dómararnir séu löglega skipaðir. Það er því engin „réttaróvissa“ hér á landi,“ segir Sigríður.
Aðspurð segist hún ekki hafa skýringu á því hvers vegna tveir af dómurunum fjórum séu nú komnir í launað leyfi. Ekki sé skýr lagaheimild fyrir launuðu leyfi með vísan til álits Mannréttindadómstólsins. „Annaðhvort telja menn sig löglega skipaða eða ekki og ef menn eru í vafa um það, þá er líklega sjálfhætt,“ segir Sigríður. Hún bætir við að dómararnir 15 sem skipaðir voru í Landsrétt hafi haft fordæmalausan stuðning á bak við sig, þar sem allar greinar ríkisvaldsins hafi komið að skipun þeirra.