Hulda Alexandersdóttir fæddist í Hafnarfirði 6. ágúst 1937. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 2. september 2019.
Foreldrar hennar voru Alexander Guðjónsson og Sigrún Júlía Sigurjónsdóttir. Systkini Huldu eru Guðjón, f. 21.5. 1931, d. 23.5. 1931, Aðalheiður, f. 23.2. 1933, og Svanhildur, f. 23.9. 1942.
Hinn 4. febrúar 1956 giftist Hulda Magnúsi Nikulássyni, f. 30.1. 1934, d 15.8. 2017, syni hjónanna Nikulásar Magnússonar og Elísabetar Eggertsdóttur.
Hulda og Magnús eignuðust fjögur börn: 1) Hörður, f. 23.11. 1959, m.h. Margrét Auður Þórólfsdóttir. 2) Sigrún Júlía, f. 19.9. 1963, m.h. Ólafur Haukur Magnússon. 3) Elísabet, f. 12.9. 1970, m.h. Einar Pétur Heiðarsson. 4) Alexander, f. 15.5. 1972, m.h. Melkorka Otradóttir. Barnabörn Huldu eru Heiðar, m.h. Hildur og eiga þau þrjú börn, Lára Huld m.h. Sverrir Ósmann, eiga þau eina dóttur, Kassöndru Líf, m.h. Gunnar Geir og eiga þau þrjár dætur, Rebekka Rós og á hún tvo syni, unnusti hennar er Þorgeir, Mónika Sól, Agatha, Verónika Sif, Birta Ösp, unnusti hennar er Jóhann, Tinna, Tanja, Hulda, Ólöf Amelía og María Ynja.
Hulda gekk í Lækjarskóla og eftir gagnfræðipróf vann hún ýmis störf, lengst af við aðhlynningu á Sólvangi.
Magnús og Hulda hófu búskap í Dvergasteini í Hafnarfirði, þau byggðu sér svo framtíðarheimili að Mávahrauni 27 og bjuggu þar í yfir 40 ár. Síðustu árin bjó Hulda á Sólvangsvegi 3.
Útför hennar fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 10. september 2019, klukkan 13.
Elsku mamma mín.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Hjartans þakkir fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.
Með kveðju og þakklæti, þinn sonur
Hörður Magnússon.
Það var alltaf jafn gaman á hverjum fimmtudegi þegar afi kom að sækja okkur frænkur upp í skóla og ferðinni var alltaf heitið á Mávahraunið þar sem gleðin var aldrei langt undan. Efst í okkar huga núna eru allar góðu minningarnar sem við áttum með þér bæði á Mávarhrauninu og Sólvangsveginum. Það sem stendur helst upp úr er sunnudagskaffið sem var í hverri viku og það var alltaf jafn gaman að koma.
Takk fyrir allt, elsku amma okkar.
Þín barnabörn
Agatha og Hulda.
Takk fyrir allt, elsku amma, við elskum þig og þú munt alltaf eiga þinn stað í hjarta okkar.
Alltaf þínar,
Mónika Sól og Verónika Sif.
Rebekka R. Rósinberg Harðardóttir og Birta Ösp R. Harðardóttir.
Þínar
Lára Huld,
Tinna og Tanja.
Ég naut góðs af því að vera fyrsta barnabarnið og var það lengi vel. Fékk að fara með þér og afa tvisvar sinnum til Benidorm. Svo fæddist Lára systir og í kjölfarið kom hrúga af stelpum í nokkur ár. Næsti strákur í fjölskyldu okkar var Haukur Máni, sonur minn, það varð því 27 ára bið eftir næsta strák. Ég var svo mikið með ykkur meðan ég var að alast upp, man hvað það var mikið áfall þegar við fluttum til Danmerkur. Að hitta ykkur ekki daglega, venjast því að senda ykkur fax og bíða eftir svari til baka.
Mikið var það gott að við fjölskyldan náðum öll að kveðja þig vel, þú brostir til okkar og krakkana og það gefur þeim hlýju í hjartað á þessum erfiðu stundum. Nú ertu komin á góðan stað og vonandi búin að hitta afa. Þér finnst ekki leiðinlegt að sjá um hann. Við munum sakna þín og elskum þig heitt.
Takk fyrir allt,
Heiðar, Hildur, Haukur Máni, Helma og Hilmir Magnús.
Ég man svo vel þegar ég fékk að gista hjá þér og afa á Mávahrauninu og þegar ég bað um að fá að hafa það kósý þá var mér pakkað inn í þykka fjólubláa og bleika teppið í sófanum á meðan þú útbjóst besta heita kakó í heimi. Ég mun aldrei gleyma þessari tilfinningu, allri ástinni og umhyggjunni sem þú og afi höfðuð að gefa, mér fannst ég aldrei jafn mikilvæg eins og þegar ég var hjá ykkur.
Ég ólst upp við það að mæta í kaffi hjá þér á sunnudögum ásamt stórfjölskyldunni og það að fylgjast með þér galdra fram hvern réttinn á fætur öðrum á hverjum einasta sunnudegi sýndi mér hversu mikið þér þótti vænt um fólkið þitt. Við áttum líka svo ótal margar stundir bara tvær saman þar sem við gátum talað um allt eða bara ekki neitt og stundum sofnuðum við báðar í sófanum. Það er svo ótrúlega sárt að hugsa til þess að þú sért farin frá okkur, en ég er svo ótrúlega þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á um þig og líka allt sem þú gerðir fyrir mig og stelpurnar mínar.
Takk fyrir allt, elsku amma, elska þig alltaf.
Kassandra Líf.
Á mínum fullorðinsárum hélt ég áfram að fara í heimsóknir í Fjörðinn. Þegar sonur minn var tveggja ára vorum við mamma í heimsókn hjá Huldu, ég með frumburð minn og miklar kræsingar á borðum eins og venjulega. Ég skrapp frá á salernið og drengurinn var í umsjón systranna í nokkrar mínútur. Drengurinn bað um að fá að smakka þennan svarta drykk sem var á borðum og auðvitað mátti barnið smakka smá kóksopa! Við hlæjum ennþá að þessum atburði í fjölskyldu minni því drengurinn átti ekki von á gosi sem í kókinu var og kom það allt út til baka, en í gegnum nefið. Þó hann sé orðinn 20 ára í dag þá drekkur hann ekki ennþá gos eftir þessa reynslu sína af kóksopanum.
Djúpavatn er okkur systkinabörnunum kært, þaðan eigum við margar og góðar minningar. Þó veiðikofinn sé ekki stór þá komum við okkur öll fyrir. Við systkinabörnin röðuðum okkur á gólfið í borðkróknum og oftar en ekki var einhver sem lá undir eldhúsborðinu. En allir voru sáttir og glaðir og þó svo að plássið væri ekki mikið og veiðin lítil, þá var það samveran sem stóð upp úr og gerði Djúpavatnsferðirnar að svo góðum minningum.
Hulda var flink í höndunum og passaði hún upp á að hvert barn sem fæddist innan fjölskyldunnar eignaðist húfu, en þær voru listaverk hjá henni, bæði klæðilegar og fallegar. Bæði mín börn fengu húfu sem við munum varðveita. Kannski eiga mín barnabörn eftir að fá að nota þær húfur frá henni Huldu sem munu þá veita þeim yl og hlýju.
Mikill kærleikur er á milli systranna og það er mikill missir að henni Huldu okkar og tómlegt verður á systraborðinu á jólaboðinu í ár. Systurnar hafi lagt mikið upp úr samveru okkar systkinabarnanna og er hefð fyrir góðu jólaballi sem halda þarf í sal þar sem fjölskyldan hefur stækkað mikið.
Nú er hún Hulda okkar farin og komin í faðm hans Magga síns en þau kynntust ung og áttu gott líf saman. Ég veit að samfundur þeirra hefur verið þeim kær.
Elsku Hörður, Sigrún, Elísabet og Alexander og fjölskyldur, missir ykkar er mikill og votta ég ykkur innilegar samúðarkveðjur. Megi góður Guð leiða ykkur og styrkja í sorginni.
Rut G. Magnúsdóttir.