[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brúðkaup Fígarós (Le nozze di Figaro) K492 eftir W.A. Mozart. Líbrettó: Lorenzo Da Ponte. Leikstjórn: John Ramster. Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason. Leikmynd og búningar: Bridget Kimak. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson.

Brúðkaup Fígarós (Le nozze di Figaro) K492 eftir W.A. Mozart. Líbrettó: Lorenzo Da Ponte. Leikstjórn: John Ramster. Hljómsveitarstjóri: Bjarni Frímann Bjarnason. Leikmynd og búningar: Bridget Kimak. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Sviðshreyfingar: Katrín Gunnarsdóttir. Ísl. skjátextaþýðing: Karl Jóhann Bjarnason. Kór og hljómsveit ÍÓ (kórstj.: Magnús Ragnarsson, konsertmeistari: Nicola Lolli). Söngvarar: Andrey Zhilikhovsky Bar. (greifinn), Eyrún Unnarsdóttir S (greifynjan), Andri Björn Róbertsson B (Fígaró), Þóra Einarsdóttir S (Súsanna), Karín Björg Torbjörnsdóttir S (Cherubino), Davíð Ólafsson B (dr. Bartolo), Hanna Dóra Sturludóttir MS (Marcellina), Sveinn Dúa Hjörleifsson T (Don Basilio), Eyjólfur Eyjólfsson T (Don Curzio), Valdimar Hilmarsson B (Antonio), Harpa Ósk Björnsdóttir S (Barbarina) og Sigurbjartur Sturla Atlason (Zanni). Frumsýning á Stóra sviði Þjóðleikhússins laugardaginn 6. september 2019.

Íslenzka óperan endurfrumsýndi vinsælustu (og að margra haldi beztu) klassísku gamanóperu allra tíma sl. laugardag við fullfermi gesta. Nú – í fyrsta skipti á þessari öld – í Þjóðleikhúsinu. Áður hafði maður séð uppfærslu Íslensku óperunnar (ÍÓ) á sama verki í þáverandi húsnæði hennar í Gamla bíói 2004. S.s. í smærri umgjörð þar sem bauðst t.a.m. ekki notkun hringekju á sviði, sem óhætt má segja að hafi verið fullnýtt að þessu sinni.

Meðal annarra nýjunga má nefna óvenjumargar frumraunir ungra söngvara, er stóðu sig undantekningarlítið vel. Fyrir utan meira sjónrænt „sprell“ en áður hefur sézt í hérlendri óperuuppfærslu, þar sem nánast allar persónur verksins voru á fleygiferð um sviðið frá upphafi til enda, þrátt fyrir á stundum eldkrefjandi aríur (en samt oftast án þess að blása úr nös!)

Það má svo bollaleggja um tilganginn. Á með slíku flaumósa flóasprikli að ná betur til forsenduminni yngri kynslóða í neyzluhelsi markaðsvæðingar á öld augans, þar sem torsýnilegri skilaboð tónlistarinnar sjálfrar mæta afgangi? Ræður nú tízkukall tímans – og kannski líka beinhörð arðsemisjónarmið, í beinni samkeppni við offramboð skyndiafþreyingar?

Hvað sem því líður verður allavega að hrósa einsöngvurum og kór kvöldsins fyrir að standa betur undir kröfum Mozarts en vænta mætti við þessar orkufreku viðbótarkvaðir stjórnenda leiks og sviðshreyfinga, enda stundum nánast á mörkum hins mögulega. Má reyndar stórefast um að fyrri tíma óperustjörnur á við Caruso og Flagstad hefðu látið bjóða sér annað eins! En nú er öldin önnur.

Eins og gefur að skilja um jafn alþekkta óperu beinist athyglin ekki sízt að frammistöðu einstakra einsöngvara, líkt og að afrekum frjálsíþróttamanna í ólympískum leikvangsgreinum. En þá vandast málið – meður því að í mínum eyrum stóð að þessu sinni varla nokkur verulega fram úr samherjum að músíklegri túlkun og færni; allra sízt með afstæðri hliðsjón af aldri og reynslu.

Óneitanlega er spurning hvort auðveldara hefði verið að skilja á milli söngvaranna í sýnu ,hlédrægari‘ sviðsframkomu, samfara auknum fókus á tónrænt inntak á kostnað ytri leiktilþrifa. En í heild sá ég lítinn sem engan afgerandi mun. Öll hlutverkin voru í dágóðum höndum, og þyrfti að leita að algerum smáatriðum til að gera upp á milli hvers og eins.

Einmitt þetta var kannski hið mest sláandi við þessa frumsýningu. Ótrúlega góð og fjölbreytt túlkun allra, þrátt fyrir á köflum ómældar aukakröfur til leikrænna (og líkamlegra) tilþrifa. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig slíkt er hægt – en það gerðist!

Kórinn var hér nokkru fyrirferðarminni en í ýmsum öðrum óperum, en náði samt fullum hæðum fyrri sýninga ÍÓ að krafti og sveigjanleika. Og hljómsveitin – burtséð frá stakri ósamtekt í blábyrjun – hélzt glampandi glæsileg allt til enda í lifandi samstillingu við einsönginn undir greinilega vökulli stjórn Bjarna Frímanns neðan úr gryfju.

Sú samstilling var vitaskuld einnig sviðsnánd Þjóðleikhússins að þakka. Ólíkt gímaldi Eldborgar var heyrðin hér mun „intímari“. Söngvarar gátu leyft sér veikari söng þá við átti en í hinu mikla tónkvikuhólfi Hörpu og stjórnandinn haft beint augnasamband við jafnvel fjærst stöddu persónur. Og áhorfendur gátu fylgzt með hverju fótmáli í öllum bægslaganginum, sem verður varla sagt um öftustu sæti Eldborgar.

Það var engin spurning. Hér átti Fígaró heima!

Hitt er svo annað mál hvernig sjaldkomull gestur Þjóðleikhúss upplifði vægast sagt naumt fótaplássið milli sætaraða, ekki sízt í samanburði við glerkistuna við höfnina, og vakti það illan skyndigrun um að þrengt hefði verið frá upphaflegri hönnun í hagvaxtarskyni.

Minna mál hefði svo verið að tryggja auðlæsari söngtexta á skjám með því að einfalda uppskrúfaða orðaröð þýðandans. Þótt kunni að hafa tekið mið af sönghæfni (virðingarvert í sjálfu sér) varð það hins vegar aðeins til að gera óperugestum lífið leitt á þeim ofsahraða sem flaug um fjalir.

Að því slepptu má engu að síður óska flytjendum og ÍÓ til hamingju með í flesta staði vel heppnaða frumsýningu, er mun án efa laða marga að góðu gamni næstu kvöldin.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson