Apparat Hljómsveitin Apparat, frá vinstri Arnar, Hörður, Sighvatur og Úlfur.
Apparat Hljómsveitin Apparat, frá vinstri Arnar, Hörður, Sighvatur og Úlfur.
Orgelkvartettinn Apparat hélt í gær upp á 20 ára afmæli sitt en hinn 9. september árið 1999 hélt kvartettinn sína fyrstu tónleika í Tjarnarbíói á vegum Tilraunaeldhússins og Jazzhátíðar Reykjavíkur.

Orgelkvartettinn Apparat hélt í gær upp á 20 ára afmæli sitt en hinn 9. september árið 1999 hélt kvartettinn sína fyrstu tónleika í Tjarnarbíói á vegum Tilraunaeldhússins og Jazzhátíðar Reykjavíkur. Hann var þá skipaður Herði Bragasyni, Jóhanni Jóhannssyni, Sighvati Ómari Kristinssyni og Úlfi Eldjárn og bættist síðar við trommuleikarinn Þorvaldur Gröndal en árið 2001 tók Arnar Geir Ómarsson við af honum sem trymbill. Jóhann hætti í hljómsveitinni árið 2016 en hann lést í fyrra.

Hljómsveitin hefur gefið út tvær breiðskífur, annars vegar Apparat Organ Quartet árið 2002 og Pólýfóníu árið 2010. Hún hefur einnig gefið út plötu með endurhljóðblöndunum, Pólifóníu Remixes árið 2012.

Hljómsveitin hefur komið fram víða bæði hér á landi og erlendis og í tilefni af afmælinu í gær sendi hún frá sér nýtt lag, „Alfa partý“, sem kemur út á vegum danska tónlsitarútgáfufyrirtækisins Crunchy Frog. Er það fyrsta útgáfa hljómveitarinnar í heil sjö ár og er laginu lýst í tilkynningu sem laufléttum samkvæmissmelli og að honum fylgi nýtt dansspor sem kvartettinn hafi verið að þróa. Dans þessi verður kynntur tónleikagestum í Danmörku á næstunni þar sem Apparat mun koma fram á tónleikum í Kaupmannahöfn um næstu helgi, 13. september, á tónleikastaðnum Alice og degi síðar, 14. september, í Pumpehuset.