Páll Breiðdal Samúelsson fæddist 10. september 1929 í reisulegu timburhúsi sem stóð við Túngötu 1 á Siglufirði. Hann gekk fáein ár í barnaskóla Siglufjarðar og vann aukavinnu á síldarplönunum og í ýmsu snatti í bænum enda líf og fjör á síldarárunum. En lífið var ekki alltaf auðvelt, 11 ára gamall hefur hann misst báða foreldra sína. Móðuramma Páls, Málfríður Anna, býr á heimilinu og annast fjölskylduna eftir bestu getu meðan hún lifði. Páll fer því ungur að heiman til vinnu og er m.a. sendur í sveit í Skagafjörð, bæði inni í Fljótum sem og á Sauðanesi.
Veturinn 1947-48 fer hann í héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði en ekki er til peningur til frekara náms þar svo hann kemur aftur norður á Siglufjörð. Fer síðar í Iðnskólann á Siglufirði og eftir stutt nám þar liggur leiðin suður til Reykjavíkur með viðkomu á Skagaströnd þar sem hann bætir við sig meiraprófsskírteini til að geta ekið fólksflutningabílum meðal annars.
Páll kemst í vinnu hjá stórfyrirtækinu Íslenskum fiski hf. sem er í eigu Vigfúsar Friðjónssonar fjölskylduvinar og velgjörðarmanns. Hjá honum lærði hann viðskipti auk þess að sitja einn vetur verslunarnám samhliða vinnunni sem og ýmis námskeið bæði í Reykjavík og London. Páll stofnar ásamt tengdaföður sínum félagið B. Sigurðsson sf. sem seldi fisk til Danmerkur og flutti inn marmelaði, baunir og krydd og ýmsa matvöru. Síðar fékk félagið umboð fyrir innflutning á plastkössum frá framleiðandanum Superfoss Emballage. Voru þeir brautryðjendur í innflutningi og sölu á þessum plastkössum sem breytti miklu í fiskvinnslu á Íslandi.
Toyota á Íslandi
Það var snemma sem áhugi fyrir bílum vaknaði og voru Páll og tengdafaðir hans Bogi hluthafar í Japönsku bifreiðasölunni hf. og unnu þau Páll og Elín hjá fyrirtækinu og sáu um rekstur þess um tíma. Svo fór að undir lok 7. áratugarins bauðst Páli að kaupa fyrirtækið en þá gekk reksturinn erfiðlega og japanskir bílar ekki hátt skrifaðir hér á landi. Þau slá til, selja íbúð sína og bíl fyrir kaupunum og svo fór að Páll varð þjóðþekktur og ávallt kenndur við Toyota.P. Samúelsson ehf. Toyota-umboðið á Íslandi var síðar formlega stofnað 17. júní 1970 af Páli og Elínu og voru þau einu starfsmennirnir þegar fyrstu bílarnir eru afhentir frá fyrirtækinu sem þá var til húsa á Ránargötu í Reykjavík. Síðar bættust við starfsmenn bæði úr fjölskyldunni og vinahópnum. Með mikilli eljusemi og framtíðarsýn byggðu þau hjónin, ásamt fjölskyldu og samstarfsfólki, upp eitt af stærstu fyrirtækjum landsins sem varð þekkt fyrir nýjungar í markaðs- og starfsmannamálum. Samhliða rekstri Toyota-umboðsins komu þau að stofnun Lexus-umboðsins, Arctic Trucks á Íslandi og í Noregi sem og vinnuvélaumboðsins Kraftvéla. Árið 2005 má segja að Páll og Elín ákveði að skila ævistarfi sínu áfram til nýrra aðila og næstu kynslóðar til frekari uppbyggingar þegar þau selja fyrirtækin.
Framtíðarsýn og framkvæmdagleði hafa einkennt Pál í öllu hans starfi, hafa þar skógrækt og umhverfisvernd af ýmsum toga skipt hann mestu máli. Einnig hefur hann stutt með mikilli ánægju margskonar menningarverkefni víða um land, þó hvað mest sennilega í sínum gamla heimabæ Siglufirði.
Páll er mikill íþróttamaður og æfði ungur að árum hlaup og var langhlaupið hans besta grein. Skíðin hefur hann stundað alla tíð og nýtur þess að vera til fjalla bæði hér heima og víða í Ölpum Evrópu og laxveiði hefur hann stundað í áratugi. Ennfremur hefur Páll verið í hinum merka leikfimihópi Valdimars Örnólfssonar sem æfði saman um margra ára skeið í íþróttasal Háskóla Íslands.
Samhliða vinnu hefur hann fundið tíma til að taka þátt í félagsstörfum, hér áður fyrr með Skíðafélagi Reykjavíkur en sennilega fyrst og fremst með Skógræktarfélagi Íslands. Páll var sæmdur riddarakrossinum 17. júní 2005 fyrir framlag sitt til viðskiptalífs og menningar. Í dag er skógræktunin honum mest hugleikin og þá helst í landi þeirra Elínar í Biskupstungum þar sem þau hafa byggt upp sitt annað heimili.
Fjölskylda
Eiginkona Páls er Elín Sigrún Jóhannesdóttir, f. 11.5. 1934, verslunarmaður og húsmóðir. Foreldrar:Móðir hennar var Sigurlaug Auður Eggertsdóttir f. 9.6. 1914, d. 23.7. 2012, frá Vindheimum í Skagafirði. Uppeldisfaðir Elínar var Bogi Óskar Sigurðsson, f. 20.12. 1910, d. 14.3. 1980, frá Rafnseyri í Vestmannaeyjum. Sigurlaug og Bogi voru gift og lengst af búsett í Reykjavík. Faðir Elínar var Jóhannes Sigmarsson ógift, f. 19.5. 1916, d. 13.6. 1973, frá Steinsstöðum í Skagafirði. Barnsmóðir Páls er Berta Guðrún Björgvinsdóttir, 14.4. 1935.
Börn: 1) Jón Sigurður f. 24.9. 1953, verslunarmaður, maki Rakel Ólafsdóttir bókari, f. 30.6. 1963, búsett í Reykjavík og eiga saman 28 afkomendur; 2) Bogi Óskar, f. 6.12. 1962, viðskiptafræðingur, maki: Sólveig Dóra Magnúsdóttir læknir, f. 17.1. 1967, búsett í Denver í Colorado ásamt tveimur börnum; 3) Anna Sigurlaug, f. 9.12. 1974, mannfræðingur, maki: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, f. 12.3. 1975, alþingismaður, búsett í Garðabæ og eiga eina dóttur.
Systkini Páls: Anna f. 6.1. 1919, d. 7.1.2017, snyrtifræðingur og bankastarfsmaður í Reykjavík; Ólafur Breiðdal, f. 16.2. 1920, d. 10.9. 2006, verslunarmaður í Garðabæ; Jón Einar Breiðdal, f. 8.8. 1921, d. 1.5. 2002, múrarameistari í Reykjavík; Agnar Breiðdal, f. 17.12 1924, d. 4.12 2009, verslunarmaður í Kaupmannahöfn; Páll Breiðdal, f. 15.7. 1926, d. 7.1. 1927; Guðbjörg Sigríður, f. 26.1. 1932, húsmóðir í Reykjavík.
Foreldrar Páls voru hjónin Einarsína Kristbjörg Pálsdóttir, f. 29.7 1891, d. 10.2. 1941, húsfreyja Siglufirði, og Samúel Ólafsson f. 3.4. 1887, d. 31.3. 1935, verkstjóri og síldarsaltandi á Siglufirði.
Í tilefni afmælisins ætlar Páll að hafa opið hús og taka á móti vinum og ættingjum í dag í golfskála GKG við Vífilsstaði í Garðabæ milli klukkan 18 og 20.