Ég hitti karlinn á Laugaveginum, þar sem hann stóð við Frakkastíginn og horfði upp á Skólavörðuholtið.

Ég hitti karlinn á Laugaveginum, þar sem hann stóð við Frakkastíginn og horfði upp á Skólavörðuholtið. Það var glampi í augunum þegar hann skaut höfðinu afturábak til vinstri og sönglaði með föstum takti:

Mín kerling var kekk, hún var skvetta

og hvenær sem var til í þetta

sem orð fá ei lýst

og samt allt um snýst

ef ég segði þér allt af létta.

Og áfram sönglaði hann:

Mín kerling var kerling ekki

né karl var ég þar sem á bekki

við sátum og þá

hvort öðru hjá

við hölluðumst, – bölvans í trekki.

Þannig fór það, – Sigurlín Hermannsdóttir lýsir því í föstudagslimru:

Frá Járngerðarstöðum var Jóka

sem játaðist honum Flóka.

Í kirkjuna mætt' hann

en kvensan þá grætt' hann:

„Elskan mín, ég var að djóka.“

RÚV skýrði svo frá: „Ekkert Brexit án samnings“. Kötturinn Jósefína Meulengracht Dietrich fylgist vel með og veit lengra nefi sínu:

Nú er þörf að senda Sigmund

svo að Boris fái ráð

og svo hann drepist ekki úr ólund

eins og margir hafa spáð.

Jón Atli Játvarðarson svaraði um hæl:

Örlög fundin frum- nú burði

finnst samt annar tilnefndur.

Einhver dauður úti í skurði

ekki mun það Sigmundur.

Hér er öfugmælavísa eftir Bjarna Borgfirðingaskáld:

Í eld er best að ausa snjó

eykst hans log við þetta.

Gott er að hafa gler í skó

þá gengið er í kletta.

Magnús Einarsson Tjörn orti á Grund í Eyjafirði:

Sit ég hér við sultarhnjask,

suma trú ég það hrelli,

miklu stærri átti ég ask

uppá Möðrufelli.

Hallmundur Kristinsson kvað:

Snert mig hefur snilldin tær,

snöggt var bundin letri.

Vísan sem ég gerði í gær

gat ekki orðið betri!

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is