Það eru óneitanlega spennandi tímar fram undan, að minnsta kosti fyrir okkur áhorfendur

Lögmál Murphys er um þau álög sem menn upplifa stundum að allt það sem getur hugsanlega farið úrskeiðis í einhverri atburðarás geri það. Dæmi um slíkt óstuð eru mörg, sum gömul og sum ný og standa mislengi. Sum eru úr heimi ævintýranna og knúin áfram af ímyndunaraflinu. Eða eru falin í ræmum kvikmyndanna, eins og Naked Gun 2½ þar sem allt fer öfugt frá fyrsta ramma til hins síðasta. Stundum verða aðeins örfáir vitni að því þegar lögmálið kvíðvænlega tekur völdin, en stundum eru það full 50 þúsund sem verða vitni að mætti þess á staðnum og milljónir fastar við sjónvarpsskerminn.

Dæmi um þetta síðasta var landsleikur Frakklands og Albaníu, andstæðinga okkar í riðli knattspyrnunnar. Við upphaf leiks Frakkands og Albaníu stóðu liðin í heiðursstellingum ásamt dómgæslumönnum, fyrirfólki og fimmtíu þúsund öðrum. Þjóðsöngur Andorra var leikinn. Langflestir áheyrenda gátu ekki vitað að neitt væri að. En skyndilega var minnihluti viðstaddra orðinn algjörlega æfur og lét það ekki fara framhjá neinum.

Það tók samtals yfirgengilega langar 10 mínútur til að komast að því hvað hefði farið úrskeiðis.

Eftir að ró komst á og mannskapurinn hafði stillt sér upp á ný gerði þulur gestgjafanna vart sig. Hann bað leikmenn og áheyrendur Armena! afsökunar, en nú mættu þeir treysta því að hinn rétti þjóðsöngur þeirra yrði leikinn. Kveikjuþráðurinn var orðinn mjög stuttur þegar þarna var komið og dugði ekkert minna en að Macron forseti Frakklands talaði beint við starfsbróður sinn í Albaníu án millilendingar í Andorra og Armeníu og bæði hann og þjóðina fyrirgefningar frá innstu hjartans rótum.

Fyrirrennari Macron var grátt leikinn af lögmáli Murphys, svo eftirminnilegt varð. Fyrst bárust fréttir af ástarbralli Hollande forseta og töldu sumir fréttaskýrenda að fréttunum hefði verið lekið til að styrkja veika stöðu forseta Frakklands, því að afstaða Frakka til slíkra mála sé allt önnur en gengur og gerist hjá gegnköldum þjóðum Skandinavíu. En svo ágerðust lekarnir og ljóst orðið að Murphy sjálfur hélt um spottana. Kannanir sýndu að Rómeó í forsetahöllinni væri ekki að hafa neitt upp úr krafsinu. Þá lak ljósmynd af forseta Frakklands þar sem hann sat hokinn á bögglabera vespuhjóls aftan við hnarreistan leyniþjónustumann, sem stýrði. Þarna þóttu endaskipti hafa verið höfð á hátigninni sem leika á um franskan forseta. En fylgið minnkaði ekki mikið þrátt fyrir það. En daginn eftir birtist sama myndin aftur og hafði verið stækkuð og þá kom í ljós að vespan var ekki einu sinni frönsk heldur ítölsk og eftir það voru Hollande allar bjargir bannaðar og veikar vonir hans um endurkjör gufaðar upp.

Íhaldsmönnum í Bretlandi þykir Murphy hafa límt sig óþægilega fast á foringjann í forsætisráðherrabústaðnum fræga þessa 40-50 daga sem hann hefur búið þar leigulaust.

Hin lánlausa frú May náði að bæta sex prósentustigum við fylgi Íhaldsflokksins í skyndikosningum sem hún efndi til 8. júní 2017. Það var ekki svo lítið afrek.

En hún stefndi í þær kosningar með fremur nauman meirihluta, bætti við sig sex prósentustigum en missti þó meirihlutann og varð í kjölfarið að kaupa sér stuðning frá systurflokki á Norður-Írlandi til að geta sagst hafa starfhæfan meirihluta. Á hann gekk í hennar tíð og hélt svo áfram að hrökkva af honum eftir að Boris Johnsons axlaði ábyrgð og nú er hann kominn í verulegan mínus.

Að stórum hluta til er það vegna þess að honum var nauðugur sá kostur að reka fimmtu herdeild flokksins í einu lagi úr flokkshúsum eftir að hún lagðist á sveif með Verkamannaflokknum. Slíkt er pólitísk dauðasök. Af hverju var sá brottrekstur óhjákvæmilegur? Vegna þess fordæmis sem ella hefði verið gefið. En einkum og sér í lagi þó vegna þess að þótt forsætisráðherranum tækist fljótlega að merja í gegn nýjar kosningar yrði hann að byrja á að vinna 21 auka þingmann til að jafna við fimmtu herdeildina, sem situr á svikráðum, áður en hann reyndi að vinna viðbótar þingmenn til að komast aftur í meirihluta og svo enn allmarga til að vera kominn með sæmilega öflugt bakland. Það þyrfti mjög mikla heppni til að ná öllum þeim markmiðum. Og það yrði óhugsandi nema ljóst væri að lögmáli Murphys hefði verið ýtt algjörlega til hliðar um nægilega langt skeið.