Lúðvík Gizurarson fæddist í Reykjavík 6. mars 1932. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 29. ágúst 2019.

Foreldrar hans voru Dagmar Lúðvíksdóttir, f. 26.12. 1905, d. 14.9. 1997, húsmóðir og Gizur Bergsteinsson, f. 18.4. 1902, d. 26.3. 1997, hæstaréttardómari. Systkini Lúðvíks eru Bergsteinn, f. 29.11. 1936, d. 9.7. 2008, verkfræðingur og fv. brunamálastjóri, Sigurður, f. 2.3. 1939, hæstaréttarlögmaður og fv. sýslumaður, og Sigríður, f. 2.9. 1942, d. 29.10. 2006, lífeindafræðingur. Blóðfaðir Lúðvíks var Hermann Jónasson, f. 25.12. 1896, d. 22.1. 1976, fv. forsætisráðherra.

Hinn 11.6. 1954 kvæntist Lúðvík Valgerði Guðrúnu Einarsdóttur, f. 17.9. 1935, d. 18.6. 2008, húsmóður og skrifstofumanni. Foreldrar hennar voru Einar Þorsteinsson, f. 20.12. 1906, d. 31.12. 1971, fv. skrifstofustjóri hjá Olíuverslun Íslands, og Dóra Halldórsdóttir, f. 14.7. 1906, d. 28.10. 1989, húsmóðir. Börn Lúðvíks og Valgerðar Guðrúnar eru: 1) Dagmar Sigríður, f. 29.4. 1957, lífeindafræðingur, maki Trausti Pétursson, lyfjafræðingur. Dóttir þeirra er Valgerður Dóra, f. 7.4. 1986, læknir. 2) Dóra, f. 9.5. 1962, lungna- og ofnæmislæknir, maki Einar Gunnarsson, skógfræðingur. Dóttir þeirra er Dagmar Helga, f. 29.3. 1995, laganemi. 3) Einar, f. 14.8. 1963, framkvæmdastjóri Veiðifélags Eystri-Rangár. Dætur Einars eru Valgerður Saskia, f. 4.3. 2003, menntaskólanemi og Lilja Sigríður, f. 19.10. 2007, grunnskólanemi. Barnsmóðir og fyrrverandi sambýliskona Einars er Gina Christie.

Lúðvík varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og cand. juris frá Háskóla Íslands 1958. Ritstjóri Úlfljóts 1954-55 og tók virkan þátt í stjórnmálum á námsárum sínum í HÍ. Héraðsdómslögmaður 13.12. 1958 og hæstaréttarlögmaður 26.6. 1962. Rak síðan lögfræðistofu í Reykjavík. Hann starfaði sem lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu og var formaður varnarmálanefndar og síðan lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu um árabil. Lúðvík rak fasteignasöluna Hús og eignir þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Lúðvík var mikill náttúruunnandi og hafði alla tíð brennandi áhuga á laxarækt og skógrækt og hóf tilraunir með seiðasleppingar í Eystri-Rangá. Lúðvík var annt um þessi áhugamál sín til hinstu stundar og fylgdist vel með. Lúðvík lét sig þjóðmál og mannréttindamál varða og skrifaði fjölda greina í blöð og tímarit.

Útför Lúðvíks fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. september 2019, klukkan 13.

Pabbi fæddist í Reykjavík á ólgutímum í miðri kreppu. Móðir hans Dagmar Lúðvíksdóttir, ættuð frá Norðfirði, var sjöunda í röð ellefu systkina og var pabbi fyrsta barn hennar og Gizurar afa. Amma og afi bjuggu pabba gott heimili á Öldugötunni. Sem barn dvaldi hann líka á sumrin hjá móðurafa sínum Lúðvík Sigurðssyni, útgerðarmanni og kaupmanni á Norðfirði, og móðurömmu sinni Ingibjörgu Þorláksdóttur og fékk hann þar einnig dýrmætt veganesti.

Í Lúðvíkshúsi, sem enn stendur á Norðfirði, var líf og fjör og spilaði Lúðvík afi gjarnan á harmonikku. Hann hafði létta lund en var líka hygginn stjórnandi og sagt var að „hver sá, sem til hans leitaði ráða eða hjálpar, fór eigi bónleiður til búðar“. Amma Ingibjörg var líka dugnaðarforkur og var sagt að hún ynni á við þrjá. Öll fengu systkinin tækifæri til að mennta sig, eins og hugur þeirra stóð til, sem hlýtur að teljast einstakt, fyrir svo stóran hóp. Pabbi erfði marga góða eiginleika úr móðurættinni og var hann atorkusamur og skapandi í hugsun alla tíð.

Móðursystkinin voru honum og síðar okkur systkinunum, fyrirmyndir ásamt ömmu og afa, hvert á sinn hátt og gildin úr Lúðvíkshúsi urðu einnig gildin okkar.

Lögmennskan og síðar rekstur fasteignasölunnar Hús og eignir hentuðu pabba vel og naut hann þess að hafa mömmu, þar sér við hlið. Pabbi átti auðvelt með að koma fyrir sig orði og var kurteis og einstaklega varkár. Hann var náttúrubarn og unni landinu sínu en þó fyrst og fremst fólkinu sínu sem hann fylgdist svo vel með. Mesta gæfa pabba var að kynnast mömmu og þau voru stóra ástin í lífi beggja, en hann var einnig vakandi yfir velferð barna sinna og afastelpnanna alla tíð.

Sérstakan sess skipuðu Árgilsstaðir í Hvolhreppi þar sem Ólafur Bergsteinsson föðurbróðir hans bjó og var afar kært með þeim alla tíð. Þangað var farið í tjaldferðir og 1967 var byggt sumarhús og hafin skógrækt. Oft var pabbi á undan sinni samtíð og þannig var það einnig þegar hann hóf seiðasleppingar í Eystri-Rangá. Þetta var byrjunin á laxaævintýrinu í Eystri-Rangá. Seinustu árin naut hann þess að sitja á pallinum í sumarbústaðnum og horfa yfir ána og skógi vaxið landið, hlusta á fuglana syngja og leggja á ráðin um nýjar framkvæmdir. Seinasta ferðin okkar pabba var farin á sólbjörtum degi um hvítasunnuna.

Líf okkar pabba hefur verið samofið í meira en hálfa öld. Við deildum mörgum áhugamálum og nutum ávallt samvistanna hvort við annað. Líf hans var viðburðaríkt og oft skáldsagnakennt og hann veitti mörgum innblástur. Mér er efst í huga þakklæti til allra þeirra sem með margvíslegum hætti studdu hann í að staðfesta faðerni sitt og gerðu honum kleift að ná sátt. Mál hans ruddi brautina fyrir þá, sem á eftir komu.

Að kveðja föður sinn er að segja skilið við hluta af sjálfum sér. Ég þakka fyrir samfylgdina og allar góðu minningarnar. Hann lifir áfram í afkomendum sínum. Megi minningin um einstakan mann lifa.

Dóra Lúðvíksdóttir.

Ég vildi ég fengi flutt þig skógur,

heim í fjallahlíð og dala rann,

svo klæða mættir mold á stöðvum

þeim,

er mest ég ann.

Þannig orti Hannes Hafstein skáld og Íslandsmálaráðherra, ein af fyrirmyndum Lúðvíks, til heimahaganna frá höfuðborg Íslands, Kaupmannahöfn. Ljóðið er Vor, upphaf nýs lífs. Ég var nýkominn heim frá námi í Noregi þegar fundum okkar Lúðvíks bar saman. Áhugamál og tengsl okkar við sveitina hafa eflaust stuðlað að því hve gott samband myndaðist á milli okkar. Lúðvík og fjölskylda voru með mikla skóg- og laxarækt á mótum Fiskár og Eystri-Rangár og þó var ævintýrið rétt að byrja. Lúðvík hafði lengi haft efsta svæði Eystri-Rangár ásamt Fiská á leigu og hafði gaman af að bjóða vinum og kunningjum að veiða og segja til við veiðarnar. Ekki hafði hann mikla trú á veiðiaðferðum sem tengdasonurinn hafði lært á bökkum Hofsár svo kenna þurfti stráknum að veiða. Við kölluðum það að veiða með lúðvísku aðferðinni. Oftar en ekki reyndist hún vel.

Sem barn var Lúðvík í sveit hjá föðurbróður sínum Ólafi Bergsteinssyni bónda á Árgilsstöðum, skógræktar- og hugsjónamanni af hinni merku og dugandi aldamótakynslóð. Þegar tími gafst frá bústörfum var veitt í Fiská sem þá var full af sjóbirtingi og urriða auk þess sem eitthvað var um bleikju og lax. Svo kom Heklugosið 1948. Skóglaust landið varð varnarlaust þegar Hekluvikurinn og askan tók að fjúka til og frá. Vatnavistin varð ekki síður fyrir þessari mulningsvél en veikburða búsetulandslagið. Það þurfti stórhuga mann, þor og kænsku til að takast á við það að rækta skóg og lax við þessar aðstæður.

Þar nutu hæfileikar Lúðvíks sín hvað best. Lögmennska var honum þó í blóð borin og nýttist mörgum vel. Enginn skortur var þó á ráðgjöfum er lögfræði bar á góma. Man ég ljóslifandi stundina þegar Lúðvík hafði tapað í annað sinn máli fyrir Hæstarétti. Flestir töldu að hér skyldi staðar numið, nú væri þetta endanleg niðurstaða. „Ætlið þið nú að fara að kenna mér lögfræði.“ Svo var farið í að handskrifa nýja stefnu. Niðurstaðan er mörgum kunn og ruddi braut fyrir marga sem áttu svipuð sár á sálinni. Nei, Lúðvík lét ekki segja sér fyrir verkum og fór gjarnan sínar eigin leiðir. Þannig eru brautryðjendur.

Við áttum einnig fjölmargar ánægjustundir með Dagmar Helgu litlu á bökkum Fyrisár í Uppsölum. Oft minntist Lúðvík Uppsalaáranna með eftirsjá. En umfram allt elskaði Lúðvík fólkið sitt og landið sem hann taldi að mætti gera svo mikið betra með ræktun og uppbyggingu frá auðn og örbirgð fyrri alda. Afastelpurnar veittu honum trú á framtíðina og fátt gladdi hann meira en að frétta af góðum áföngum í lífi þeirra.

Til hinsta dags var hugurinn til staðar og Lúðvík fylgdist með og sagði fyrir um hvernig hann vildi bæta landið í höll sumarlandsins.

Fegin vildi ég fósturjörð,

fært þér geta hlut af slíkum gæðum.

Sé ég í hug þín háu fjöll

hjúpuð þessum dökku skógum,

undir hreinni hnjúka mjöll

hlíðar frjóvar, vaxnar blómum nógum.

Með þessum ljóðlínum Hannesar Hafstein kveð ég tengdaföður minn með þakklæti og trega.

Einar Gunnarsson.

Stundin líður, tíminn tekur,

toll af öllu hér,

sviplegt brotthvarf söknuð vekur

sorg í hjarta mér.

Þó veitir yl í veröld kaldri

vermir ætíð mig,

að hafa þó á unga aldri

eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi,

viti á minni leið,

þú varst skin á dökkum degi,

dagleið þín var greið.

Þú barst tryggð í traustri hendi,

tárin straukst af kinn.

Þér ég mínar þakkir sendi,

þú varst afi minn.

(Hákon Aðalsteinsson)

Það tekur mig sárt að kveðja afa Lúlla, því í rauninni fannst mér eins og hann myndi lifa að eilífu. Það var sama á hverju gekk, alltaf stóð hann eins og klettur og kvartaði aldrei.

Þegar ég var lítil og bjó í Uppsölum í Svíþjóð kom afi stundum í heimsókn til okkar. Þá gengum við oft saman niður í bæ, skoðuðum hunda á leiðinni, fórum á kaffihús og gáfum öndunum brauð.

Best var þó þegar við áttum notalegar stundir heima og ég fékk að skríða upp í fangið á afa og kúra á afabumbu í stól sem við kölluðum „stólinn“ með ákveðnum greini.

Seinna, þegar ég flutti heim til Íslands, var ég daglegur gestur á heimili ömmu og afa eftir skóla. Afi kenndi mér ótal margt – allt frá því að teikna Óla prik og yfir í að slást.

Honum var umhugað um að mér gengi sem allra best í skólanum og þegar ég ákvað að fara í Verzlunarskóla Íslands en ekki Menntaskólann í Reykjavík, eins og flestir í fjölskyldunni, stóð afi með mér þó að aðrir væru handvissir um að ég væri að gera algjöra vitleysu. Við afi áttum nefnilega sameiginlegt áhugamál sem var viðskipti og fylgdist afi vel með því sem ég lærði í skólanum.

Þegar ég var 17 ára fór ég sjálf út í rekstur og gaf afi mér góð ráð og hvatti mig áfram. „Hvernig gengur business?“ var hann vanur að segja og svo fórum við yfir málin.

Á síðustu árum bættist lögfræðin við sameiginlegt áhugasvið okkar afa þegar ég fetaði í hans fótspor og hóf nám við lagadeild Háskóla Íslands. Við lesturinn ráðlagði hann mér og gat oft dýpkað skilning minn á ýmsum málum sem var afar dýrmætt.

Við grínuðumst stundum með það að afi fengi 100 hugmyndir á dag en það voru í rauninni engar ýkjur. Hugur hans var ótrúlega frjór og hann kenndi mér að ekkert verkefni er of stórt ef þú virkilega trúir á það.

Takk fyrir allt saman, elsku afi minn. Ég geymi minningarnar, öll góðu ráðin og væntumþykjuna vandlega innra með mér.

Dagmar Helga Einarsdóttir.

Lúðvík afi minn, eða afi Lúlli eins og við kölluðum hann, var hlýr og góður maður sem alltaf var tilbúinn að aðstoða ef eitthvað bjátaði á. Hann fylgdist grannt með lífi barna sinna og barnabarna og stóð þétt við bakið á sínu fólki.

Afi var einstaklega fróður og skemmtilegur. Það var notalegt að heimsækja hann og ræða um allt milli himins og jarðar, gjarnan yfir ostaköku og tei úr kisubollunum hennar ömmu Ninnu. Afa þótti sérstaklega gaman að segja sögur og hann sagði þær af mikilli innlifun. Afi brosti með augunum, rétt eins og amma. Hann hafði brennandi áhuga á laxveiði og fiskrækt og hann var klókur veiðimaður. Það var gaman að vera með afa og ömmu í sveitinni og þar naut hann sín best.

Afi var duglegur að skrifa greinar í blöðin og lét sig varða málefni líðandi stundar allt fram á síðasta dag.

Honum voru pólitísk mál hugleikin en einnig var hann mikill náttúruverndarsinni. Afi hafði gaman af því að leysa flókin vandamál og hann hugsaði hlutina oft öðruvísi en aðrir. Hann hafði víða yfirsýn og gífurlega hugmyndaauðgi.

Þegar litið er yfir greinasafnið hans má sjá fjölmörg dæmi um það hvernig hann hafði rétt fyrir sér, þótt sumar hugmyndirnar hafi ef til vill virst langsóttar í fyrstu. Hann var afburðagáfaður, stórhuga og framsýnn og hann hafði næman skilning og yfirgripsmikla þekkingu á flóknum þjóðfélagslegum málefnum.

Ég er lánsöm að hafa átt afa að og hef lært mikið af honum. Hann var hugrakkur, gafst aldrei upp og stóð alltaf með sjálfum sér. Hann hafði sterka réttlætiskennd og lét ekkert stoppa sig. Þessir eiginleikar lifa í minningunni um afa Lúlla.

Valgerður Dóra

Traustadóttir.

Bróður míns, Lúðvíks Gizurarsonar, langar mig að minnast nokkrum orðum. Þegar hann var skírður vorið 1932 austur á Norðfirði stóð til að hann hlyti fullt nafn Lúðvíks Sigurðar afa síns, en sóknarprestinum, sr. Jakobi Jónssyni, urðu á þau mistök, að við skírnina féll niður síðari hluti nafnsins, Sigurður. Fjórum árum síðar var Bergsteinn bróðir okkar skírður í höfuðið á hinum afa okkar, og þegar röðin kom að mér sjö árum síðar, var nafnið Sigurður enn þá laust og hlaut ég það. Kunni ég þessum helmingaskiptum okkar Lúðvíks á nafni afa okkar á Norðfirði afar vel.

Snemma bar ég ómælda virðingu fyrir þessum stóra bróður mínum. Hann var óvenju bráðger bæði til líkama og sálar. Aðeins fimmtán ára réðst hann sem háseti á nýsköpunartogarann Ingólf Arnarson, sem kom til landsins vorið 1947. Sigldi hann m.a. með togaranum á England, þar sem aflinn var seldur. Annað sumar var hann í vinnu við að reisa Sogslínuna, sem var heilmikil framkvæmd til rafvæðingar landsins. Oft var hann og við heyskap á Árgilsstöðum í Hvolhreppi, Rangárvallasýslu, hjá föðurbróður okkar, Ólafi Bergsteinssyni.

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1952 hélt hann til náms í Bandaríkjunum og nam veturinn 1952-53 rafmagnsverkfræði og stærðfræði við Ohio University í Athens.

Eftir heimkomuna frá Bandaríkjunum 1953 kynntist hann sinni ágætu eiginkonu, Valgerði Einarsdóttur, og varð það til þess að hann sneri sér að lögfræðinámi hér heima og gengu þau í hjónaband í júní 1954. Embættisprófi í lögfræði lauk Lúðvík vorið 1958. Réttindi héraðsdómslögmanns hlaut hann í desember sama ár og réttindi hæstaréttarlögmanns vorið 1962. Á árinu 1959 réðst hann til starfa í utanríkisráðuneytinu og varð framkvæmdastjóri varnarmálanefndar. Sá hann þá um öll opinber samskipti íslensku ríkisstjórnarinnar við yfirmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Kom þá að góðu gagni enskukunnátta hans og þekking á Bandaríkjunum. Helsta áhugamál hans var hins vegar fiskrækt. Sagði hann því starfi sínu lausu í utanríkisþjónustunni og setti á stofn lögmannsstofu, auk þess sem hann sneri sér af alefli að því að breyta Eystri-Rangá úr sjóbirtingsá í laxá.

Mikið kaldavermsl í ánni hafði staðið vexti laxaseiða fyrir þrifum. En með stórvirkum vinnuvélum útbjó hann eldistjörn á eyrunum í Fagradal þar sem Fiská rennur í Rangá fyrir neðan Tungufoss. Þar döfnuðu seiðin vel áður en þeim var hleypt út í Rangá til niðurgöngu í sjó. Þetta framtak hans breytti Eystri-Rangá í eina gjöfulustu laxveiðiá landsins.

Okkur Lúðvík kom alltaf afar vel saman. Hann var hugmyndasmiður sem reyndist mér oft góður ráðgjafi. Í vinahópi lumaði hann ávallt á skemmtilegri sögu. Margir munu sakna Lúðvíks og þar á meðal þeir sem lásu stuttar en hnitmiðaðar greinar hans í Morgunblaðinu jafnt um mikilvægustu málefni sem um fuglalífið við Reykjavíkurtjörn. Ég votta börnum hans, Dagmar Sigríði, Dóru og Einari, innilega samúð á skilnaðarstundinni, sem og mökum þeirra, börnum og venslaliði. Blessuð sé minning hans.

Sigurður Gizurarson.

Hann var stóri frændi minn, f. 1932, jafnaldri Ingibjargar systur minnar og leikfélagi hennar í bernsku. Af þeim á ég margar ljósmyndir. Þau voru fyrstu barnabörn ömmu, Ingibjargar Þorláksdóttur, ættaðrar frá Álftanesi, og afa, Lúðvíks Sigurðar Sigurðssonar útgerðarmanns á Norðfirði, sem eignuðust 11 börn. Sumum okkar yngri barnabarnanna, þar á meðal mér, fannst sem Ingibjörgu ömmu þætti langvænst um þessi tvö elstu, af öllum þeim mikla skara barnabarna sem hún eignaðist.

Honum þótti alla tíð innilega vænt um Norðfjörð, um Lúðvíkshús, sem afi reisti þar og enn stendur, en ekki var hann oft sammála pólitíkinni hjá kommunum fyrir austan.

Hann var hávaxinn, grannur, glaðlegur, hlýlegur, talaði mikið og hátt, sat lengi, glettinn, pólitískur, mikill krati og alþýðuflokksmaður, eins og faðir minn, Jónas Guðmundsson. Ræddi við hann langtímum saman um málefni líðandi stundar, um þjóðina, um pólitíkina á Íslandi eða hjá krötunum í útlöndum, um pólitíkina á Norðfirði, Íslandssöguna eins og hún lagði sig, um landið okkar, um Árgilsstaði i Rangárþingi, þaðan sem hann var ættaður í föðurætt. Sat því oft lengi í djúpa græna stólnum gegnt skrifborði föður míns í húsinu okkar við Reynimel. Mamma, móðursystir hans, færði þeim kaffi, jólaköku og kleinur. Þannig eru þessar gömlu og kærustu minningar mínar um Lolla frænda, eins og við frændsystkinin mörgu kölluðum hann og gerum enn.

Eftir standa nú aðeins minningar, einkum þessar gömlu frá löngu liðnum góðum dögum, en þó einnig minningin um einu heimsókn mína til hans í hjúkrunarheimilið Sóltún, þar sem hann dvaldi veikur svo lengi.

Hann lá þá þar með lokuð augu í rúmi sínu, sagði fátt, eiginlega ekki neitt, var kannski dálítið hissa á heimsókn minni, en bað mig að tala. Ég reyndi að tala og tala, minntist þess sem tengt hafði okkur saman í lífinu; stórfjölskyldunnar, Norðfjarðar, pólitíkurinnar, Vesturbæjarins og gamla skólans okkar, Menntaskólans í Reykjavík, sem ég þekkti ennþá svo vel til. Sagði frá gömlu kennurunum, skólastofunum og öllu þar sem við áttum sameiginlegar minningar um.

Ég minnist Valgerðar Einarsdóttur, látinnar eiginkonu hans, og sendi börnum hans, elsku Dagmar, Dóru og Einari, og fjölskyldum þeirra samúðarkveðjur.

Guðný Jónasdóttir.

Árið er 1982, laganáminu lokið. Hvar á að leita fanga með starf? Niðurstaðan var að opna lögfræðistofu, sem var nú umhendis, engin lögmannsréttindi þá í höfn. Anna systir og Konráð heitinn, maður hennar, þekktu Lúðvík Gizurarson, hrl., sem nú er kvaddur. Lúðvík rak þá með Valgerði heitinni, konu sinni, fasteignasöluna Hús og eignir í Bankastræti. Úr varð að Lúðvík studdi mig í stofurekstrinum, þannig að ég varð lögfræðilegur fulltrúi hans og gat þar með rekið mál fyrir dómi fyrir umbjóðendur skrifstofunnar. Þessi mikilvægi atbeini Lúðvíks við mig, fyrstu tvö ár starfa minna í lögmennsku, var bara af einskærri greiðasemi hans við mig. Varð samvera mín og minna á skrifstofu minni, með þeim hjónum ávallt elskuleg og skemmtileg. Lúðvík mundi tíma tvenna og hafði frá mörgu að segja og naut þess mjög að vera sögumaðurinn. Í Bankastræti 5 ráku þá líka Haukur Bjarnason lögmaður og Kornelíus Jónsson kaupmaður og synir hans starfsemi sína. Svo var Magnús Karl Antonsson afgreiðslumaður niðri í versluninni Bristol líka eftirminnilegur og Karl Lúðvíksson apótekari sem átti þá verslun og var líka leigusali minn. Allt skilur þetta eftir sig góðar minningar. Eftir að ég kynntist Lúðvík heyrði ég elstu kjaftasögu bæjarins, sem var sú að hann væri launsonur Hermanns forsætisráðherra. Í ljós kom löngu síðar að sagan reyndist sönn. Held að það mál hafi reynst Lúðvík erfitt. Hugsa ætíð hlýlega og með þakklæti til þessa velgjörðarmanns míns. Bið ástvinum hans Guðs blessunar.

Tryggvi Agnarsson.