Elsa Þórisdóttir fæddist í Reykjavík 12. nóvember 1963. Hún lést á Landspítalanum 11. september 2019. Hún var dóttir hjónanna Valsteins Þóris Björnssonar, f. 30. júní 1941, d. 1. febrúar 2013, og Kristbjargar Böðvarsdóttur, f. 18. júlí 1942. Systkini Elsu eru: Dröfn, f. 21. ágúst 1965, gift Bjarka Unnarssyni, f. 1. nóvember 1966. Dætur: Kristbjörg og Ásta Sól; Böðvar, f. 9. nóvember 1968, maki Petrína Freyja Sigurðardóttir, f. 27. janúar 1963. Börn hennar eru Sigurður og Kristín; Þórey Kristín, f. 14. desember 1980, gift Geir Ágústssyni, f. 4. desember 1978. Börn: Rökkvi Þór, Reginn Þór og Karen Pia.

Hinn 23. júní 1983 gekk Elsa í hjónaband með Jóni Birni Hlöðverssyni Thoroddsen, f. 12. mars 1962. Foreldrar hans voru Hlöðver Jónsson, f. 25. júlí 1935, d. 16. apríl 1997, og Kristín Thoroddsen, f. 2. september 1940, d. 18. september 2013, seinni eiginmaður Kristínar er Karl Gunnarsson, f. 31. maí 1951. Dætur Elsu og Jóns Björns eru: 1) Kristín, f. 26. apríl 1992, maki Arnar Guðnason, f. 10. ágúst 1987, hann á eina dóttur, Kristbjörgu. 2) Vala, f. 8. ágúst 1996, maki Fannar Jónsson, f. 28. júlí 1983, hann á þrjú börn; Hörð Loga, Viktoríu Von og Hrafntinnu Líf.

Elsa og Jón Björn bjuggu alla sína tíð á Eskifirði eða þar til Elsa veiktist haustið 2017. Elsa var með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla, BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði lengi í Landsbankanum á Eskifirði en frá 2006 vann hún hjá Fjarðaáli.

Útför Elsu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. september 2019, klukkan 15.

Elsa systir er farin yfir í Sumarlandið, hún er örugglega byrjuð að koma skikki á allt þar íklædd camo-buxum og bleikum bol. Ég er þakklát fyrir tímann sem ég fékk með Elsu þótt stuttur væri. Það eru forréttindi að eiga eldri systur sem leiðir mann í gegnum uppvaxtarárin, kennir manni allt það helsta í samkvæmislífi unglingsins og ekki síst hvernig maður átti að klæða sig til að vera töff, en Elsa var svo sannarlega alltaf töff. Ég get líka þakkað Elsu fyrir götin í eyrun sem hún ákvað að væru alveg málið og litla sys skyldi sko fá göt, þótt hún þyrfti að gera þau sjálf með klaka og nál að vopni. Ég skarta þeim enn og þakka fyrir að göt í nefið voru ekki í tísku á þessum árum. Óneitanlega leit maður upp til stóru systur og það var þægilegt að feta í fótspor hennar.

Hún fór í Alþýðuskólann á Eiðum og að sjálfsögðu fór ég þangað líka. Ármúlaskóli var næstur í röðinni og þangað lá leið mín líka, hún ruddi brautina fyrir mig og lagði mér lífsreglurnar í leiðinni.

Elsa var litríkur persónuleiki, mikill húmoristi og einstaklega hlý. Stundum dálítíð auðtrúa, það var allavega alltaf auðvelt að stríða henni sem ég gerði óspart. Hún var mikill höfðingi heim að sækja, var á algjörum heimavelli í eldhúsinu, mikill listakokkur sem margir nutu góðs af. Hún elskaði að fá fólk í mat og það var rekinn fimm stjörnu veitingastaður í Árdalnum, ekki bara í mat og drykk heldur líka í afburðaþjónustu.

Sælla er að gefa en þiggja átti svo sannarlega við um Elsu og nutu allir í hennar nærumhverfi góðs af elsku hennar. Ekki síst dætur hennar en hún var enn að föndra pakkadagatal í desember handa þeim þótt þær séu komnar vel á legg.

Dætur mínar fóru heldur ekki varhluta af gjafmildi frænku sinnar, sem þær kynntust mjög vel þegar hún bjó hjá okkur meðan hún var í MBA-náminu. „Þú ert engin smá tútta“ heyrðist oft þegar Elsu fannst þær sérstaklega flott klæddar.

Það var gott að vera í innsta hring hjá Elsu. Þú gast ekki gert neitt rangt ef þú varst svo heppin að vera þar og að sama skapi var ekki miklu púðri eytt í þá sem ekki náðu þangað.

Við Elsa vorum miklar vinkonur og töluðum saman á næstum hverjum degi áður en hún veiktist. Það var skrítið og tómlegt að hætta okkar daglega spjalli um allt og ekkert. Elsa skilur eftir sig stórt skarð sem erfitt er að fylla, en það er huggun harmi gegn að sjá röggsemina, skopskynið og töffaraskapinn í Elsu koma fram í dætrum hennar Kristínu og Völu. Andi hennar lifir áfram í þeim og brjóstum okkar sem elskuðum hana. Hvíl í friði Elsa mín – elska þig!

Þín systir,

Dröfn.

Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum elskulega frænku, Elsu Þórisdóttur, sem kvödd var úr þessu lífi allt of snemma

Elsa var atorkumikil kona, létt í lund og hláturmild. Hún var ákaflega félagslynd og gestrisin með afbrigðum sem við nutum góðs af í hvert sinn sem við sóttum hana og fjölskyldu heim á leið okkar austur á land.

Það var mikið högg fyrir svona lífsglaða og duglega konu að vera öðrum háð um öll verk eftir að hún veiktist alvarlega fyrir tveimur árum.

Elsku Elsa, þín verður sárt saknað af svo mörgum, heimurinn hefur misst mikið við fráfall þitt.

Jón, Kristín, Vala, Krilla, Dröfn, Böddi og Þórey, við vottum ykkur öllum okkar dýpstu samúð og vonum að Guð gefi ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Það líf var okkur lán, en henni sómi.

Hún leyndist nærri, og var þó stéttar prýði,

og það, sem mörgum sóttist seint í stríði,

það sigraði' hún með brosi og hlýjum rómi.

(Þorsteinn Erlingsson)

Helena, Vala

og Valtýr Björn.

Kallið er komið, liðin er stund þín í hérvist á jörð, kæra Elsa.

Við minnumst þín í auðmýkt og kærleika sem manneskju sem blómstraði eins og blómstrið eina frá morgni til kvölds, alltaf tilbúin að rétta hönd og styðja við sína minnstu bræður. Allra kvenna mest kunnir þú að höndla með mat og kruðerí; eins og þegar Elsa hóf störf hjá Fjarðaráli kom að sjálfsögðu upp í hugann að hún væri orðin yfirmatseljan á staðnum. Hæfileikar Elsu lágu víða, allt sem hún tók sér fyrir hendur var gert af stakri alúð. Við höfum verið svo lánsöm að hafa átt áralöng kynni af þeim hjónum Jóni og Elsu sem leiddi okkur m.a. í ógleymanlegt ferðalag til Helgu systur Brynju, sem býr í himnaríki þeirra Bæverja, Berchtegaten. Alla heillaði Elsa með brosandi alúð og kurteisi og voru þau hjón af staðarhaldara vinsamlegast beðin um að koma fljótt aftur.

Ástin, elskan og minningin um Elsu er einhvern veginn svo umvafin þessari yndislegu persónu að þegar við lítum í sjóð minninganna drúpum við höfði í minningunni. Megi sól ætíð skína yfir ævi þína, elsku Elsa. Vottum eiginmanni börnum og aðstandendum öllum innilega hluttekningu.

Atli og Brynja.

Elsa var alltaf einlæg en þó algjör nagli sem lét ekkert stoppa sig og elskaði af öllu hjarta.

Mér verður alltaf minnisstæðust ástin sem hún bar til Jóns síns og dætra.

Þau voru hluti af flestum okkar umræðum og hversdagslegu spjalli og því fannst mér ég hafa þekkt þau alla ævi þegar ég hitti þau fyrst.

Án elsku Elsu minnar verður lífið tómlegra, ég verð ævinlega þakklát fyrir okkar samleið og auðmjúk yfir minningum sem eiga eftir að hlýja, hvetja og bæta alla ævi.

Elsku Jón, Vala, Kristín og fjölskyldur, megi styrkurinn sem hún bjó yfir veita ykkur aukinn mátt á sorgartímum, núna og alltaf.

Bára.

Leiðir okkar Elsu lágu fyrst saman fyrir austan. Ég var að búa til og manna innkaupadeild Fjarðaáls og það hafði gengið á ýmsu í þeirri vinnu. Ráðningarteymið hafði stillt upp fundi í lok dags í enda langrar viku. Ég var mjög þreyttur á leið í flug og langaði helst að fresta þessu viðtali en í öllu falli þá að þetta tæki snöggt af. Þar sem ég sat og beið í viðtalsherberginu í gamla Landsbankahúsinu á Reyðarfirði óraði mig ekki fyrir hvað væri í vændum. Ég var stressaður yfir því að hún myndi mæta seint. En Elsa mætti aldrei seint og kom að þessu sinni korteri fyrr en til stóð. Allt í einu spratt hurðin upp og í gættinni stóð geislandi og brosandi kona, í pels – horfði hvasst á mig og spurði ákveðið: ert þú Óskar? Ég játti því og þá svaraði hún að bragði: „Já, sko, ég veit allt um þig!“ Elsa eins og henni var einni lagið óð á súðum í viðtalinu, leiftraði af lífsgleði og það var alveg sama hvort hún var að tala um keppnisskapið sem hún beitti til að vera afkstamest í síldarpökkun eða við innslátt á gögnum í bankanum. Þegar tíminn sem ætlaður í viðtalið var við það að klárast og ég hafði tæplega komið að orði þá spurði ég hvort hún vildi vita eitthvað um starfið og um leið velti ég því fyrir mér hver væri eiginlega að taka viðtal við hvern. Þetta viðal leiddi til þess að við urðum nánir samstarfsfélagar næstu ár og vináttu sem var í senn ósvikin og skemmtileg.

Við elskuðum að bjóða hvort öðru í matarboð og oft kom þar humar við sögu og meira að segja kom fyrir að haft væri vín með. Við höfðum gaman af því að „þykjast“ spila golf saman og hápunkturinn á ferlinum auðvitað Lostætismótið góða á Akureyri, sú minning mun ekki úr minni líða.

Í vinnunni eins og lofað var reyndist Elsa alger hamhleypa. Það gekk á ýmsu og hún hafði oft eftir Sigga Jóns: „never a dull moment in procurement“ og kímdi svo með sínu einstaka brosi. Hún ávann sér virðingu bæði samstarfsfélaga og viðskiptavina af mörgum ólíkum þjóðernum og úr fjölda ólíkra atvinnugreina. Þar kom að leiðir okkar skildi hjá Fjarðaáli og gerðist það um líkt leyti og veikindin hennar dundu yfir. Hún var einbeitt í því að sigrast á þeim en svo fór að lokum þegar búið var að leggja allt á eina manneskju sem hægt er, jafnvel ennþá meira til, þá gat hún Elsa ekki meir.

Ferðafélagarnir í þessari jarðvist eru margskonar en Elsa var einstök, stór í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, glæsileg og geislandi.

Ég er ríkari fyrir það að hafa kynnst Elsu og átt sem samstarfsfélaga og vin og það er með miklum trega að ég segi „bæ Elsa!“ þar til næst.

Óskar Borg.

Þó að ég hafi vissulega alltaf vitað af Elsu má segja ég hafi kynnst henni þegar við byrjuðum að vinna saman hjá Fjarðaáli og þvílík kona! Hún var sérlega hrífandi persónuleiki, einstaklega kraftmikil og drífandi og var ætíð með svör á reiðum höndum hver svo sem spurningin var. Það var gaman að vera í kringum Elsu.

Alltaf hafði hún tíma fyrir fjölskyldu sína og vini þrátt fyrir að vinnutengd verkefni væru ærin. Það var eiginlega með ólíkindum hvernig henni tókst að hafa yfirsýn og umsjón með þessu öllu í einu en henni var svo margt til lista lagt: Hún var eldklár í vinnu; hún var einstaklega góður kokkur og gestgjafi af bestu gerð.

Við erum ófá sem eigum góðar minningar tengdar veisluhöldum í Árdalnum, heima hjá Elsu og Jóni, þar sem oft var glatt á hjalla og vel veitt.

Þær eru líka margar og góðar minningarnar tengdar ferðum okkar innanlands og utan þar sem hún var gjarnan í aðalhlutverki. Fyrir þær er ég þakklát.

Elsku Elsa. Lífið lagði á þig byrðar sem enginn ætti að þurfa að bera. Kveðjustundin kom alltof snemma og skarðið sem þú skilur eftir þig verður ekki fyllt.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Jón, Kristín, Vala, Krilla, og fjölskyldan öll. Ég votta ykkur öllum mína hjartans samúð. Mikill er missir ykkar en minningin um magnaða konu lifir.

Jóhanna.

Kæra Elsa, að þú skulir vera farin er einhvern veginn óraunverulegt. Þessi mikli orkubolti og fjörkálfur sem þú varst, þá fékkstu þinn skerf af hindrunum sem þú þurftir að yfirstíga. Þú tókst á við þær eins og að drekka vatn, að mér fannst. Kannski það sé það sem gerir fráfall þitt óraunverulegt, þú varst alltaf staðin upp aftur, alveg sama hverju var hent á þína slóð.

Eftirminnilegt er þegar þú komst til baka eftir eina hindrunina, þá vildu allir fá að strjúka nýsprottna hárið sem var eins og flauel viðkomu.

Við vorum búin að þekkjast lengi, allar götur síðan við vorum bæði í Landsbankanum og síðar við nám, vinnu og leik. Ég vil þakka þér þær móttökur sem mér ávallt stóðu til boða hjá þér, ekki síst heimboðið sem við hjónin fengum í febrúar 2008 þegar við vorum á hraðferð til Neskaupstaðar. Þó að það hafi sloppið til, þá var það ómetanlegt að vita að hægt væri að reiða sig á þig þegar á hólminn var komið.

Það hafa verið erfiðir tímar hjá þér undanfarið og átakanlegt var að hitta þig þá en jafnframt ánægjulegt. Alltaf trúði maður að þú myndir koma öllum á óvart og koma til baka á einn eða annan hátt. En ég sannarlega vona að þú hvílir nú á betri stað eftir að þú yfirgafst þetta líf. Þinn vinur,

Sveinbjörn.

„Þið eruð ekkert að fara að banka í glerþakið, þið eigið að taka tilhlaup og mölbrjóta það.“

Þetta voru þín ráð til okkar og eftir að við kynntumst þér betur vissum við að þín leið að settu marki væri tekin á fullri ferð.

Þú komst á fullri ferð inn í þennan samheldna bekk okkar sem hóf saman nám við Háskólann í Reykjavík haustið 2012. Þú stóðst upp, kynntir þig og opinberaðir það sem þú taldir þína helstu áskorun í komandi námi. Við hlustuðum öll og kinkuðum kolli, svolítið heilluð af dirfskunni.

„Og þið ætlið að hjálpa mér!“ – og þar með varð öllum ljóst að hér færi hreinskiptin kona sem kæmi til dyranna eins og hún væri klædd.

Og það gerðir þú. Þú varst einlæg, en hispurslaus, sagðir það sem þér lá á hjarta og varst fullkomlega laus við spéhræðslu og smámunasemi. Þú bjóst yfir innsæi í mannlegt eðli, horfðir út fyrir kassann og komst inn í umræður með óvænt og fersk sjónarhorn sem aðeins gátu komið frá manneskju sem var óhrædd við að sýna á spilin, hafa rangt fyrir sér og gera mistök. Og þannig leiddir þú hópinn að betri lausn og gerðir lífið bæði betra og skemmtilegra.

En þó þú hafir tekið keppnina um mesta töffarann í bekknum með hendur í vösum, þá bjóstu yfir einlægri hlýju og samkennd. Þú vissir hvað það var að berjast fyrir hlutunum, sem þú og gerðir.

Þegar við hin áttum fullt í fangi með krefjandi námið og vorum við það að vorkenna okkur þá ávarpaðir þú bekkinn og upplýstir að þú þyrftir kannski að sleppa einum eða tveimur kennsludögum. Þú værir með krabbamein og þyrftir að fara í brjóstnám og smá geislameðferð.

Og þar með var það afgreitt og þú hélst bara áfram. Mættir, tókst þátt, skilaðir þínu, með heimili á Eskifirði, í námi í Reykjavík ásamt því að takast á við erfiðan og krefjandi sjúkdóm og allt það sem honum fylgdi. Rétt eins og þetta væri ekkert mál. Af því að það var þín leið, að fara alla leið. Á fullri ferð.

Og nú skilja leiðir um stund. Eftir sitjum við og hugsum, söknum og minnumst, og kannski á síðasta séns með að þakka þér fyrir allt sem þú gafst okkur.

Elsku Elsa okkar. Takk!

Drottningin yfir F öllu hefur dregið sig í hlé.

Megi allar góðar vættir styðja og styrkja ættingja og vini Elsu Þórisdóttur.

Fyrir hönd bekkjarfélaga í MBA - árgangi 2014,

G. Andri Bergmann.