Páll Baldvin Baldvinsson
Páll Baldvin Baldvinsson
Eftir Pál Baldvin Baldvinsson: "Dulin ásökun um misrétti í tækifærum til starfa, ábyrgðar og tjáningar á hinu listræna sviði – okkur öllum til tjóns. Konur hafa sitt að segja."

Lítum á verkaskiptingu karla og kvenna í leikhúsi allra landsmanna – leikhúsinu okkar.

Á boðstólum í Þjóðleikhúsinu eru á komandi vetri 27 sviðsverk í fimm sölum hússins og á faraldsfæti. Rúmur helmingur, 15 verk, er á vegum Þjóðleikhússins, önnur eru aðkomin en framleidd á vegum annarra aðila en njóta húsaskjóls og samstarfs við Þjóðleikhúsið á ýmsa vegu.

Athygli vekur hve stór hluti verkanna er afleiddur, þrjár sýningar byggjast á bandarískum kvikmyndum, tíu á bókverkum. Höfundar hugverkanna eru flestir karlar, 19 alls, á móti átta ritfærum konum.

Höfundar leikgerða sem birtast okkur á sviðinu eru tíu karlar á móti fjórum konum. Jafnvel í þýðingum úr erlendum málum er hlutum misskipt milli kynja: þær annast sjö karlar á móti tveimur konum.

Þegar textanum sleppir og athöfnin tekur við þá eru við leikstjórn 15 karlar og sex konur. Einn gestahópurinn er með samstillta stjórn karla og kvenna. Leikmyndir eru unnar af níu körlum og fimm konum. Búningar eru skráðir á 14 konur og einn karl.

Í nokkuð mörgum leiksýningum er flutt tónlist: tónskáldin eru 15. Karlarnir 12 en konurnar þrjár. Til flutnings tónlistar þarf tónlistarmenn og tónlistarstjóra en þeir eru í átta verkum og allir karlkyns.

Öll verk á sviði þurfa lýsingu sem er sérstakt fag sem krefst menntunar, reynslu og tækifæris til að láta ljós sín skína. Engri konu er treyst til þess starfs í Þjóðleikhúsinu okkar.

Í stórum og flóknum sýningum eru kallaðir til listamenn sem kunna að búa til hreyfimynstur fyrir fáa og fjölda. Þar verða að störfum sjö konur og einn karl á komandi leikári.

Í leikhúsi okkar daga er rík tilhneiging til að nota gamla tækni ávarps myndar á tjald eða skjá og skapa heimsókn okkar í leikhúsið hljóðheim. Til þeirra starfa er einungis karlmönnum treyst í Þjóðleikhúsinu.

Aftur er förðun og hár kvennamegin. Það verður að leita áratugi aftur í sögu leikhússins okkar til að finna karlmann við slík störf.

Ofangreindar upplýsingar eru fengnar af heimasíðu leikhússins í þessari viku svo langt sem þær ná, en ekki er ráðið í öll störf við sýningar hússins enda leikárið nýhafið. Ekki var svipast um í öðrum leikhússtofnunum sem njóta styrks af almannafé, ekki litið til þess heldur hver þáttur erlendra manna er í listrænni stjórn sviðsverka á Íslandi um þessar mundir, hvernig skipulega og vísvitandi er gengið hjá menntuðu fólki sem hér býr og þekkir samfélagið betur en miðlungsmenn sem keyptir eru að utan með misjöfnum árangri. Það er efni í aðra grein.

Á heimasíðunni má leita að jafnréttisstefnu leikhússins sem er „í samræmi við gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla“ eins og segir í reglugerð ráðuneytis um starfsemina, en ekki er hún birt þar. Í ársskýrslu 2013 segir: „Stefnt er markvisst að því að gæta jafnræðis milli kynja í hinu listræna starfi í samræmi við jafnréttisstefnu.“

Um allt samfélagið er rík meðvitund um mikilvægi jafnréttis í öllu starfi: samtök launafólks, samtök listamanna, stjórnvöld og stjórnir fyrirtækja hafa sett sér markmið í þeim efnum og fylgja þeim eftir. Ekki veitir af. Sú framtíð bíður dætra okkar að þær búi við skarðari hlut í launum og tækifærum en synirnir.

Nýlega fékk leikhússtjóri breska þjóðleikhússins á sig áskorun skáldkvenna þar í landi þar sem hann var minntur á gefin fyrirheit um að hlutur þeirra á verkefnaskrám leikhússins, sem er þar eins og Þjóðleikhúsið okkar sú stofnun sem nýtur mestra styrkja, yrði helmingur þeirra verka sem á sviðið kæmust.

Nú má búast við því að stjórn Þjóðleikhússins skjóti sér á bak við tölur frá fyrri árum: það var skárra þá. Tvö ár eru liðin frá því upphófst í kvikmynda- og leikheiminum andófsbylgja kvenna gegn misbeitingu valds karla að tjaldabaki. Að baki henni lá dulin ásökun um misrétti í tækifærum til starfa, ábyrgðar og tjáningar á hinu listræna sviði – okkur öllum til tjóns. Konur hafa sitt að segja.

Í vinnu úthlutunar opinberra styrkja til sviðslistanna hefur leiklistarráð skipulega litið til jafnræðis með tegunda verkefna, landfræðilegrar stöðu og samsetningar hópanna sem um sækja. Enda er það í samræmi við áherslur ríkisstjórnar um jafnrétti kynjanna og almennan vilja landsmanna um jafnan aflahlut karla og kvenna.

En á sjötíu ára afmælisári Þjóðleikhússins okkar er boðið upp á mikla karlaveislu eins og tölurnar sýna.

Höfundur er fráfarandi formaður Félags leikstjóra á Íslandi og sat í þjóðleikhúsráði, en er nýskipaður formaður leiklistarráðs. pallbaldvinsson@gmail.com

Höf.: Pál Baldvin Baldvinsson