Vilmundur Þorsteinsson fæddist í Brekknakoti í Þistilfirði 18. nóvember 1925. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 12. september 2019.

Foreldrar hans voru Þorsteinn Stefánsson, f. 1894, d. 1957, og Jóhanna Sigfúsdóttir, f. 1899, d. 1969. Systkini Vilmundar eru Guðný Soffía, f. 30. apríl 1921, d. 26. október 1996, Ásmundur, f. 18. júlí 1923, d. 24. október 2013, Fjóla, f, 8. apríl 1930, Jakob, f. 24. maí 1934, d. 6. ágúst 2019, og Kolbrún, f, 26. ágúst 1936.

Vilmundur kvæntist Gunnhildi Vilhelmínu Friðriksdóttur, f. 15. desember 1926, d. 8. maí 2013, frá Felli í Finnafirði hinn 27. júlí 1952. Börn þeirra eru: 1) Helga, f. 13. maí 1952, d. 19. maí 2010. Börn hennar eru Gunnhildur Jóhanna, f. 17. júní 1975, og Hlífar Vilhelm, f. 19. mars 1987. 2) Þorsteinn Jóhann, f. 23. október 1953, kvæntur Ragnheiði Lúðvíksdóttur, f. 17. maí 1954. Börn þeirra eru Vilmundur, f. 7. nóvember 1975, Edda Lydia, f. 4. maí 1978, og Auður Ósk, f. 31. október 1984. 3) Oddur Friðrik, f. 12. apríl 1962, kvæntur Önnu Jónsdóttur, f. 29. apríl 1964. Börn Odds af fyrra hjónabandi eru Karl Svanur, f. 1. desember 1984, Jóhanna Stella, f. 14. janúar 1987, Friðrik Jóhann, f. 31. október 1989, og Helga Guðrún, f. 7. maí 1992. Dóttir Önnu af fyrra sambandi er Sigrún Harpa, f. 22. janúar 1983. Vilmundur átti orðið góðan hóp af langafabörnum.

Vilmundur ólst upp í Brekknakoti og fór ungur að heiman að vinna. Hann vann mest við viðgerðir, vélgæslustörf og smíðar.

Vilmundur og Gunnhildur hófu búskap á Þórshöfn þar sem þau bjuggu í tæp 10 ár. Þaðan fluttu þau til Þorlákshafnar þar sem þau bjuggu næstu 17 árin. Þá lá leiðin í Garðabæinn, þar sem þau bjuggu til dánardags.

Útför Vilmundar fer fram frá Vídalínskirkju, Garðabæ, í dag, 20. september 2019, klukkan 13.

Elsku pabbi. Þú vildir vera mikið lengur hjá okkur pabbi minn, en veikindin sem þú lentir í urðu þess valdandi að þú náðir ekki árunum sem þú stefndir á. En nú ert þú á góðum stað þar sem við vitum að þér líður vel. Mig langar að segja svo margt en það kemur best frá mér í þessu fallega ljóði, Föðurminningu, sem segir allt pabbi minn.

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi

pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst

ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum

okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum

virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar

ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og

góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur

okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara

það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann

skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku

pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú

á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig

sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið

út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Hvíl í friði, elsku pabbi.

Þinn

Oddur.

Elsku afi og langafi. Við erum heppin að hafa átt svona góðan afa eins og þig. Þú varst alltaf til staðar með ömmu Gógó. Við gerðum svo margt saman; fórum í ferðalög um Ísland, veiðiferðirnar óteljandi, kenndir okkur umferðarreglurnar þegar við vorum að taka bílprófið og heimsóknirnar í Kirkjulundi. Það var alltaf hægt að koma og fá að vera eða læra þegar maður var yngri.

Varst alltaf að segja okkur frá því hvað þið amma gerðuð þegar þið voruð yngri, náðir í bílprófið til Húsavíkur um vetur hlaupandi, keyrðir suður til að vinna, byggðir húsin í Þorlákshöfn, ferðirnar til Evrópu.

Við munum sakna þín, elsku afi, allar sögurnar þínar munu lifa áfram í okkur.

Hvíldu í friði og amma tekur á móti þér.

Nú sefur þú í kyrrð og værð

og hjá englunum þú nú ert.

Umönnun og hlýju þú færð

og veit ég að ánægður þú sért.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn

Ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Blessun drottins munt þú fá

og fá að standa honum nær.

Annan stað þú ferð nú á

sem ávallt verður þér kær.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn

Ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Við munum hitta þig á ný

áður en langt um líður.

Sú stund verður ánægjuleg og hlý

og eftir henni sérhvert okkar bíður.

Við kveðjum þig í hinsta sinn

Við kvöddum þig í hinsta sinn.

(Þursi 1981)

Þín barnabörn og barnabarnabörn,

Karl Svanur, Jóhanna Stella, Friðrik Jóhann, Helga

Guðrún, Elías Oddur

og Odin Neva.

Elsku afi Villi er látinn. Frísklegri, jákvæðari og glaðlegri afa er erfitt að finna. Hann var einstaklega hraustur allt fram á síðustu stundu, hugsaði vel um heilsuna og fór út að ganga á hverjum degi. Er við horfum til baka þá minnumst við hans alltaf á iði, að huga að þessu eða hinu, fyrir sig eða aðra og alltaf með bros á vör.

Hann var einstaklega handlaginn og vandaði vel til verka, það voru aldrei nein vandamál því alltaf fann hann lausnir enda virtist hann geta allt. Honum fannst einstaklega gaman að ferðast og voru þau amma mjög dugleg að fara í ferðalög jafnt innanlands og utan og var alltaf gaman að heyra ferðasögurnar þeirra. Ófáar voru einnig veiði- og berjamósferðirnar sem við fórum saman í en alltaf vissi hann hvar best væri að tína ber og hvar vænlegast væri að veiða fisk.

Það var alltaf gaman að kíkja til hans í heimsókn og átti hann alltaf heitt á könnunni og var þá mikið spjallað.

Síðustu árin hafði hann ósjaldan orð á því hversu vænt honum þætti um heimsóknirnar og það var svo sannarlega gagnkvæmt enda var það alltaf góð samverustund með yndislegum manni. Hann var afskaplega stoltur af okkur barnabörnunum og mjög áhugasamur um allt sem við tókum okkur fyrir hendur. Það sama á við um langafabörnin sem hann hafði mjög mikla ánægju af og spurðist oft fyrir um.

Hann sagði við okkur rétt áður en hann lést að hann væri afskaplega sáttur við líf sitt og þau spil sem honum höfðu verið gefin. Við erum þakklátar fyrir allar góðu minningarnar sem við munum alltaf eiga um yndislegan afa.

Við eigum minningar um brosið

bjarta,

lífsgleði og marga góða stund,

um mann sem átti gott og göfugt hjarta

sem gengið hefur á guðs síns fund.

Hann afi lifa mun um eilífð alla

til æðri heima stíga þetta spor.

Og eins og blómin fljótt að frosti falla

þau fögur lifna aftur næsta vor.

(Guðrún Vagnsdóttir)

Með ást og söknuði kveðjum við þig, elsku afi.

Edda Lydía og Auður Ósk.

Vilmundur Þorsteinsson á engan sinn líka. Hann var uppalinn í afskekktri sveit í Þistilfirði. Villi var í okkar huga einn þeirra sem náðu að upplifa hvað mestar breytingar á samfélagi og háttum. Sveitin mótaði hann og þar kynntist hann Gógó, stúlku úr næsta firði. Heimili var stofnað á Þórshöfn og fjölskyldan stækkaði. Síðan lá leiðin í Þorlákshöfn, byggt hús í svörtum sandinum og gjöfult svartbaksvarpið dásamað þar sem ættmenni komu og sóttu sér egg.

Svo ekki sé talað um alla sjóbirtingsveiðina á Hrauni. Gógó og Villi vissu upp á hár hvar hann gæfi sig og hvenær, hvernig ætti að veiða og beita. Ef vel veiddist var ekki beðið með að njóta fengsins, soðið og etið áður en farið var í háttinn.

Eftir að flutt var í nýbyggt hús í Garðabænum upp úr 1970 ríkti lengi helgidómur yfir veiðiferðum á Hraun. Sögur sem gengu til barna og barnabarna þegar Ölfusáin var enn og aftur reynd á aðfallinu. Þessar veiðar vöru vísindi. Villi spígsporaði í sandinum, vildi sitt kaffi og spjall um daginn og veginn undir gargi mávanna á meðan Gógó dró hvern fiskinn á eftir öðrum.

Villi var annars annálaður dugnaðarforkur og lét sér fátt fyrir brjósti brenna. Vinnusamari mann var vart hægt að hugsa sér. Það lék allt í höndunum á honum. Sjálfmenntaður grúskari og gafst aldrei upp. Var eftirsóttur í fiskimjölsbræðslum um landið. Lærði á vélarnar og sinnti þeim.

Gat eiginlega allt. Sagði okkur eitt sinn þá sögu að um áramót á byggingartíma Búrfellsvirkjunar hefði fólkið verið sent heim í frí. Gerði grimmdarfrost og allar lagnir í vinnubúðunum við það að frjósa. Hóað var í mannskap til að stöðva leka og frostskemmdir. Hjá Villa var þetta verkefni sem þurfti að ljúka. Held á þriðja sólarhring og ekki hætt fyrr en miðstöðin komst í lag.

Sjálf nutum við verkgleði Villa. Skömmu fyrir aldamótin fylgdi hann eftir flutningi og smíði sumarbústaðar okkar. Allt sem áður og tekið alla leið. Þá var nú oft gaman og Gógó móðursystir hvatti, en gerði gott úr öllu á sinn einstaka hátt. Þusaði líka góðlátlega í Villa eins og vant var. Samband Gógóar og Villa við Sigga mág sinn var einkar náið og fallegt alla tíð. Öll börn löðuðust að Villa. Þegar hlé var gert á vinnu og borðaðar pönnsur fór Villi í boltaleiki og kaffið drukkið standandi.

Fjölskyldan var stór og Kirkjulundur í Garðabæ var í raun félagsmiðstöð. Brást aldrei að ættmenni héðan og þaðan af landinu litu inn hjá Gógó og Villa.

Þar til undir það síðasta var Villi á gangi. Margir hér í Garðabæ könnuðust við hann í sjón. Gekk hratt, oft upp og niður Vífilsstaðaveginn.

Snemma á ferðinni og gjarnan aftur síðdegis. Vilmundur var göngugarpur allt sitt líf og naut útiveru. Og lengst af mjög hraustur.

Sem ungum manni þótti Villa ekkert tiltökumál að ganga frá Þistilfirði til Húsavíkur, jafnvel þegar dagur var hvað skemmstur.

Nú hefur hann gengið sinn síðasta spotta og honum er hér með þökkuð samfylgd og tryggð í gegnum þykkt og þunnt.

Ólöf Sigðurðardóttir og

Einar Sveinbjörnsson.