Mamma þín og pabbi elska þig örugglega ekki,“ sagði í einum skilaboðunum. Önnur hvöttu viðtakandann til að taka eigið líf. Þessar ógeðfelldu orðsendingar voru ætlaðar tíu ára gamalli stúlku og birtust á samfélagsmiðli, sem ber nafnið TikTok.
Netið á sér margar skuggahliðar og líkist iðulega rotþró þar sem birtist hatur, fyrirlitning og mannvonska. Það verður iðulega vettvangur eineltis og tilfellið hér að ofan, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, er dæmi um það. Á félagsvefnum hafði verið stofnuð sérstök síða til að ofsækja stúlkuna.
Í fréttinni kemur fram að á miðlinum TikTok deili fólk myndskeiðum og hann sé sérlega vinsæll hjá börnum á grunnskólaaldri. Hver sem er geti skoðað hann og búið sér til nafnlausan aðgang. Segir að algengt sé að einelti fari þannig fram að stofnuð sé síða með nafni sem hefst á „hötum“ og endar á nafni viðkomandi. Síðan er hægt að tengja eineltissíðuna fórnarlambinu.
Í fréttinni er rætt við móður stúlkunnar, Guðmundu Áróru Pálsdóttur. Hún segist hafa sett færslu um eineltið á félagsvefinn Facebook og þar hafi fjöldinn allur af ungmennum sett sig í samband við hana og lýst svipaðri reynslu. „Dóttir mín er ekki sú eina sem er að ganga í gegnum þetta. Hún er bara dropi í hafið af börnum sem eru að lenda í neteinelti. Þetta á ekki að líðast,“ segir hún.
Guðmunda segir dóttur sína áður hafa lent í einelti, en þá hafi verið hægt að takast á við það, ræða við foreldra og vinna úr vandanum því að það hafi ekki verið í gegnum netið, en nú sé það ekki hægt. „Það er ekkert hægt að gera og maður er orðinn voðalega berskjaldaður gagnvart þessu,“ segir hún. „Krakkar eru berskjaldaðir gagnvart netinu og gera sér ekki grein fyrir því hvað þetta er alvarlegt.“
Vefurinn TikTok hefur vaxið gríðarlega hratt. Misnotkun á honum er þekkt fyrirbæri og dæmin um einelti og kynferðislega áreitni mýmörg. Þótt fólk virðist vera tilbúið að láta ýmislegt flakka undir nafni á netinu er eins og allar hömlur hverfi þegar nafnleysi veitir skjól. Eineltið á TikTok sýnir hvað það getur verið varasamt að bjóða upp á nafnleysi á netinu. Það sýnir einnig að foreldrar þurfa að halda vöku sinni og fylgjast með því sem börnin þeirra aðhafast á netinu.