Þóra Ingvadóttir fæddist 18. september 1963. Hún lést 18. febrúar 2019.

Útför Þóru fór fram í Kaupmannahöfn 1. mars 2019.

Söknuður

Hugur minn hvarflar til bernskuáranna á Skaganum. Minningar um Þóru, æskuvinkonu mínar leita á mig. Vinátta okkar var mér allt. Þóra var traust, hlý og góð. Ég þurfti einungis að sveifla mér á snúrustaurnum, yfir grindverkið og ég var mætt. Stóð í tröppunum og beið meðan Þóra var að drekka. Í minningunni var alltaf heitt kakó og nýbakað rúgbrauð með heimagerðri kæfu á boðstólnum, mmm. Það var ekki til siðs að leika inni í þá daga, við þurftum að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera eða að láta okkur leiðast. Á barnaskólaárunum einsettum við okkur að snerta ávallt ákveðinn ljósastaur á Heiðarbrautinni fyrir skóla, létum okkur hafa það að snúa til baka ef það gleymdist. Þóra var mikil íþróttamanneskja, átti ekki roð í hana þegar hún hljóp eins og hind eftir ánum eða tók á rás í sumarskólanum í Leirárskóla. Við æfðum sund bæði kvölds og morgna, fórum í æfingabúðir og keppnisferðir í góðum félagsskap. Tíminn leið og smám saman fórum við í sínhvora áttina. Á sumrin vann Þóra í Hvalstöðinni og flutti síðan í bæinn og fór í Fóstruskólann. Ég var heimakær og dáðist að hugrekki hennar. Við tókum upp þráðinn á ný þegar ég flutti í bæinn og börnin komu í heiminn. Enn á ný flaug Þóra á vit ævintýranna í Danmörku. Þá misstum við af hvor annarri en áttum fáeinar góðar stundir sem ég geymi í hjarta mér.

Hver getur siglt, þó að blási ei byr,

bát sínum róið án ára?

Hver getur kvatt sinn kærasta vin,

kvatt hann án sárustu tára?

Ég get siglt, þó að blási ei byr,

bát mínum róið án ára.

En ekki kvatt minn kærasta vin,

kvatt hann án sárustu tára.

(Þýð. Hulda Runólfsdóttir frá Hlíð.)

Ég vil votta fjölskyldu Þóru samúð mína og þakka Binna fyrir dásamlegu ljóðin sem hann semur til konunnar sinnar og vinkonu minnar.

Brynja Blumenstein

Brynja Blumenstein