[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Tone Maren Sakshaug, endurskoðandi hjá alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu EY og einn helsti sérfræðingur í óhæðis- og siðareglum endurskoðenda hjá EY, sagði á morgunfundi sem EY á Íslandi stóð fyrir í gær að, að endurskoðunarnefndir í fyrirtækjum fengju aukið hlutverk í nýjum Evrópureglum um endurskoðun, sem tækju gildi hér á landi 1. janúar nk. Hún sagði jafnframt að hið opinbera þyrfti að setja á stofn eftirlit með endurskoðunarnefndunum, og geta beitt viðurlögum ef þurfa þætti. Sakshaug segir hinsvegar í samtali við Morgunblaðið að ekki sé skilgreint í reglunum hvernig þetta eftirlit eigi að fara fram. „Við erum ekki viss með útfærslu á þessu og ég hef heldur ekki séð neitt um hvað er að gerast í þessum efnum í öðrum löndum,“ segir Sakshaug, en Evrópureglurnar tóku gildi í ríkjum ESB sumarið 2016.

Eins og kom fram í máli Margrétar Pétursdóttur forstjóra EY á fundinum, þá hefur innleiðing reglnanna hér á landi frestast vegna örra breytinga á pólitíska sviðinu undanfarin ár.

Sakshaug segir að hún þekki heldur engin dæmi um að viðurlögum hafi verið beitt af yfirvöldum vegna starfa endurskoðunarnefnda, þó að þrjú ár séu síðan reglurnar tóku gildi í ESB.

Í máli hennar á fundinum kom m.a. fram að aukið hlutverk endurskoðunarnefnda þýddi meðal annars að nefndin þyrfti að vera mun meira inni í endurskoðun fyrirtækja en áður, og „vera sátt við“ endurskoðun félagsins.

Hjá mikilvægum fyrirtækjum

Endurskoðunarnefndir eiga samkvæmt lögum að vera að störfum hjá öllum einingum tengdum almannahagsmunum(e. Public Interest Entity ), eins og bönkum og öðrum lánastofnunum, lífeyrissjóðum, tryggingafélögum, og félögum sem eru með skráð bréf á markaði m.a.

Spurð að því hvort nýju reglurnar hafi aukið gæði endurskoðunar á þeim tíma sem liðinn er síðan þær tóku gildi í ESB árið 2016, segir Sakshaug að enn sé erfitt að segja til um það. „Við höfum haft tvö heil reikningsár frá gildistökunni, og því er enn of fljótt að segja til um það. En sum lönd hafa til dæmis þegar sagt að gera þurfi enn betur. Persónulega tel ég að það að endurskoðunarnefndirnar hafi verið styrktar, sé mjög gott í nýju reglunum.“